Sunday, 16 May 2021

Bragðlaukaveisla - kjúklingur með parma, pistacíuhnetum, västerbottenosti og piccolo tómötum á aspasbeði

Þessa uppskrift fékk ég hjá einum af sjúklingunum mínum. Stundum þegar formlegaheitum er lokið er spjallað um lífið og tilveruna og margt ber á góma. Ég fæ og gef ráð um mat og matseld og oft fæ ég sendar til mín hugmyndir um skemmtilegar og spennandi uppskriftir. 

Ég myndi geta heimilda, en þá væri ég að rjúfa trúnað við sjúklinginn minn. Það besta sem ég get gert er að þakka einstaklingi sem býr á eyju skammt frá meginlandinu - bestu þakkir fyrir þessa frábæru uppskrift. Þú veist hver þú ert!  

Bragðlaukaveisla - kjúklingalæri með parma, pistacíuhnetum, Västerbottenosti og píkkoló tómötum á aspasbeði

Handa fimm 

10 úrbeinaðuð kjúklingalæri
3 egg
4 msk hveiti
2 bollar brauðraspur
1 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk chiliduft
olía til steikingar
salt og pipar

2 búnt aspas
2 box pikkolótómatar
5 sneiðar parmaskinka
handfylli pistasíuhnetur
75 ml hvítvín
75 g Västerbottenostur
jómfrúarolía
handfylli basil
salt og pipar

Best er að hefja leika með hafa þrjár skálar, eina fyrir hveiti, næstu fyrir eggin og þá síðustu fyrir brauðmylsnuna. 

Byrjið á því að leggja lærin í fat, saltið og piprið.  


Veltið lærunum svo upp úr hveiti, bragðbættu með hvítlauksdufti, chili, salti og pipar. Dustið af umfram hveitið. Hrærið egg og veltið lærunum upp úr eggjablöndunni. Færið svo lærin yfir í brauðmylsnuna og hjúpið vel. 


Steikið lærin í 1-2 mínútur á hvorri hlið. 


Leggið aspasinn í ofnskúffu, sáldrið smá jómfrúarolíu yfir, saltið og pipar og hellið hvítvíni yfir. Leggið kjúklingalærin ofan á aspasinn. 


Sáldrið Västerbottenostinum ofan á kjúklinginn. 


Piccolótómatar eru sælgæti. Skerið þá í tvennt og og dreifið yfir kjúklingalærin. Leggið sneiðar af parmaskinku ofan á hvert læri. 


Svo pistasíunum. 


Þetta er eins og listaverk! Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur eða svo. 


Með matnum smökkuðum við Finca San Marín - sem er spænskt vín frá Rioja héraði. Þetta er nokkuð kraftmikið vín, þurrt með ágætum ávexti, smá tanníni. Ljómandi sopi með matnum. 



Þetta var sannkölluð bragðlaukaveisla! 


 --------------------



   Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 9 May 2021

Það er að koma sumar - ekta jarðaberjaterta að drukkna í jarðarberjum


Þetta er fyrsta færslan í nokkuð langan tíma. Og það er ekki vegna þess að ég hef setið iðjulaus. Ég hef verið á fullu að elda og skrifa fjórðu matreiðslubókina - hún mun koma út næsta haust. 

Ég geri ekki oft eftirrétti eða kökur og þess vegna gæti þessi uppskrift komið einhverjum á óvart, vonandi skemmtilega. En ég komst í smá eftirréttagír þegar ég var að skrifa fjórðu matreiðslubókina - því auðvitað þarf að vera smá kafli um eftirrétti. Þessi kaka varð til skömmu eftir að ég lauk skrifum á bókinni. Hugmyndin var sú að gera hana í tilefni af Valborgarmessunni sem Svíar halda hátíðlega á hverju vori - en náði ekki að klára hana í tæka tíð. Bæti fyrir það með því að birta hana í dag.

Þegar við bjuggum í Svíþjóð var jarðaberið í mínum huga tákn um sænskt sumar. Og nú er um að gera að tengja það við íslenska sumarið - enda skín sólin og íslensku berin eru komnin í búðir. 

Það er að koma sumar - ekta jarðaberjaterta að drukkna í jarðarberjum

Þessi kaka er gerð í nokkrum stigum. Fyrst svampbotninn, svo fyllingin, svo bragðbættur rjómi, svo skreyta með jarðaberjum. En þetta er í raun ofureinfalt. 

Svampbotn

4 egg
250 g sykur
125 g hveiti
125 g kartöflumjöl
3 tsk. lyftiduft




Byrjið á því að brjóta egg í skál og þeytið þau vandlega.




Hellið sykrunum saman við og og þeytið þar til létt og ljóst.



Sigtið saman hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft og bætið varlega saman við.



Smyrjið smelluform vel og setjið bökunarpappír í botninn. Bakið við 175°C í um 20 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út. 



Látið svampbotninn kólna alveg áður en þið losið mótið. 

Fyllingin

2 eggjarauður
100 g flórsykur
90 gr hvítt súkkulaði
250 ml þeyttur rjómi

Þeytið saman saman eggjarauður og flórsykur þar til þykkt og ljósgult. Bræðið súkkulaðið, leyfið því að kólna lítillega og blandið því svo saman við eggja- og flórsykurblönduna. Blandið síðan þeyttum rjóma varlega saman við.


Skerið svampbotninn í tvo álíka þykka hluta og smyrjið mjög rausnarlega með hvítsúkkulaði-fyllingunni. Geymið afganginn af fyllingunni - ég notaði afganginn í skreytingar.

Þeytið svo saman 500 ml af rjóma með tveimur til þremur matskeiðum af vanillusykri og smyrjið utan á kökuna. 


Ég var með 600 grömm af jarðarberjum. Át sjálfur hálft box þannig að líklega hafa tæplega 500 grömm af berjum farið á kökuna. 


Þroskuð jarðaber eru ekki bara sæt á bragðið, þau eru líka algert augnakonfekt. Skar öll berin í þunnar sneiðar. 


Svo er bara að byrja að raða jarðaberjunum. Það er nóg af fallegum fyrirmyndum að finna á netinu. 
Ég notaði afganginn af hvít-súkkulaðirjómanum og setti í poka og sprautaði dropum yfir jarðaberin. 


Dustaði kökuna með dálitlu af flórsykri. Reyndi að skapa einhvers konar mynstur. Mér fannst þetta heppnast nokkuð vel! 


Og svo kakan var líka sérlega gómsæt. 


Vilhjálmur var mjög ánægður - og sá að mestu um að klára kökuna. 


                                                                    --------------------



   Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa