Sunday, 17 January 2021

Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum

 

Sumarið 2019 verður lengi í minnum haft. Við fórum í þriggja vikna ferð til Ítalíu. Ég fór nokkrum dögum á undan fjölskyldunni þar sem mér hafði verið boðið í Primograno uppskeruhátíð Rustichella D'Abruzzo í Pescara. Þetta voru stórskemmtilegir dagar í Pescara - sem liggur við Adríahaf. 

Þar kynntist ég fjölda matreiðslumanna sem margir hverjir eru stjörnur í heimalandi sínu. Þau fengu að kynnast mér - gigtarlækni frá Íslandi. Ég nefndi við félaga mína á hátíðinni eitt kvöldið að fjölskyldan væri væntanleg nokkrum dögum síðar og við ætluðum til Napolí til að finna bestu pizzur í heimi. Einn þáttakenda, Barbara Pollastrini, vippaði upp símanum og hringdi í vin sinn, Franco Pepe og reddaði mér borði á besta flatbökustað í heimi - Pepe in Grani í smábænum Caiazzo sem er fyrir utan Napolí. 

Og þangað fórum við. Franco Pepe tók á móti okkur og sýndi okkur allan veitingastaðinn og bauð okkur borð á veröndinni með stórkostlegu útsýni. 

Og þar snæddum við bestu flatbökur veraldar. 

Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum

Þessar uppskriftir eru því tilraun til að ferðast á bragðlaukunum til Ítalíu. 

Þessa uppskrift hef ég stuðst við síðustu árin og hún heppnast alltaf vel. 

Fyrir 3-4 meðalstórar flatbökur
 
700 g hveiti til brauðbaksturs
300 ml ylvolgt vatn
25 g þurrger
25 g sykur (má sleppa)
2 msk jómfrúarolía
2 tsk salt


Byrjið á því að vekja gerið í ylvolgu vatninu ásamt sykrinum. Látið standa í 10 mínútur þangað til fer að freyða. Setjið hveitið í skál ásamt salti og olíu. Hellið gervatninu út í hveitið og hnoðið vandlega saman í 10 mínútur, þá ætti deigið að vera mjúkt og teygjanlegt. Látið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.

Sláið loftið úr deiginu og fletjið út eins þunnt og mögulegt er. Lagið svo flatbökur eins og hugmyndaflugið leyfir.

Bjó svo til þessa auðveldu tómatsósu. 

Fyrir 4-6 flatbökur

3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
1 dós niðursoðnir San Marzanó tómatar
1 msk tómatþykkni
2 msk balsamedik
handfylli steinselja
handfylli basil
salt og pipar
2 msk jómfrúarolía

Saxið lauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til laukurinn er mjúkur og glansandi. Bætið tómötunum við og látið sjóða. Saltið og piprið.

Hrærið tómatþykkninu og balsamedikinu út í og sjóðið niður um þriðjung. Rífið kryddjurtirnar saman við sósuna rétt áður en hún er tilbúin. Smyrjið á pítsudeig, bætið við uppáhaldsálegginu ykkar, bakið og njótið vel!  

Og svo gerði ég líka basilolíu. Tvö búnt af fersku basil var blandað saman við 250 ml af góðri jómfrúarolíu. Ég notaði Olio Principe frá Sikiley. 


Þetta er öfug Margaríta. Innblásin af Franco Pepe - þegar hann setti þessa flatböku fyrst á matseðilinn á veitingastaðnum sínum var þessu líkt við guðlast. Að ráðast að Margarítunni - grunnstoð ítalskrar flatbökumenningar. Og hún er algerlega stórkostleg. Svo dásamlegt að ég er með tvær myndir af henni! 


Penslaði botninn með jómfrúarolíu og setti síðan tvo rifna buffalómozzarellaosta og bakaði svo við 300 gráður þar til bakan var fallega gullin. Þá dreifði ég tómatsósunni yfir og skreytti með basilolíu. Geggjuð! 


Þessi var líka dásamlega ljúffeng með rifinni chorízópylsu, döðlum og þunnt skornum kastaníusveppum. 


Og svo þessi - með salami, rauðlauk og svo skreytt með fersku basil. Nammi namm. 


Þessi er auðvitað klassík - pensluð með hvítlauksolíu, rifinn ostur og bökuð. Skreytt með klettasalati og parmaskinku. Sælgæti. 


Og að lokum - ostaveisla. Með rifnum osti, parmaosti, gráðosti og camembert. Skreyttur með ferskum rifsberjum. 


Með matnum nutum við ítalsks rauðvíns - Borgo dei Guidi sem er blanda af Sangiovese og Cabernet Sauvignion. Þetta er kraftmikið rauðvín í góðu jafnvægi og ljúfu eftirbragði. Sælgæti. 

Verði ykkur að góðu! 

 
-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


No comments:

Post a Comment