Sumarið 2019 verður lengi í minnum haft. Við fórum í þriggja vikna ferð til Ítalíu. Ég fór nokkrum dögum á undan fjölskyldunni þar sem mér hafði verið boðið í Primograno uppskeruhátíð Rustichella D'Abruzzo í Pescara. Þetta voru stórskemmtilegir dagar í Pescara - sem liggur við Adríahaf.
Þar kynntist ég fjölda matreiðslumanna sem margir hverjir eru stjörnur í heimalandi sínu. Þau fengu að kynnast mér - gigtarlækni frá Íslandi. Ég nefndi við félaga mína á hátíðinni eitt kvöldið að fjölskyldan væri væntanleg nokkrum dögum síðar og við ætluðum til Napolí til að finna bestu pizzur í heimi. Einn þáttakenda, Barbara Pollastrini, vippaði upp símanum og hringdi í vin sinn, Franco Pepe og reddaði mér borði á besta flatbökustað í heimi - Pepe in Grani í smábænum Caiazzo sem er fyrir utan Napolí.
Og þangað fórum við. Franco Pepe tók á móti okkur og sýndi okkur allan veitingastaðinn og bauð okkur borð á veröndinni með stórkostlegu útsýni.
Og þar snæddum við bestu flatbökur veraldar.
Ævintýralega góðar flatbökur - Öfug Margaríta, chorizo og döðlur, salami og rauðlauk, parma e ruccola og ostaveisla með rifsberjum
Þessar uppskriftir eru því tilraun til að ferðast á bragðlaukunum til Ítalíu.
Þessa uppskrift hef ég stuðst við síðustu árin og hún heppnast alltaf vel.
Fyrir 3-4 meðalstórar flatbökur700 g hveiti til brauðbaksturs
300 ml ylvolgt vatn
25 g þurrger
25 g sykur (má sleppa)
2 msk jómfrúarolía
2 tsk salt
Byrjið á því að vekja gerið í ylvolgu vatninu ásamt sykrinum. Látið standa í 10 mínútur þangað til fer að freyða. Setjið hveitið í skál ásamt salti og olíu. Hellið gervatninu út í hveitið og hnoðið vandlega saman í 10 mínútur, þá ætti deigið að vera mjúkt og teygjanlegt. Látið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.
Sláið loftið úr deiginu og fletjið út eins þunnt og mögulegt er. Lagið svo flatbökur eins og hugmyndaflugið leyfir.
3 hvítlauksrif
1 gulur laukur
1 dós niðursoðnir San Marzanó tómatar
1 msk tómatþykkni
2 msk balsamedik
handfylli steinselja
handfylli basil
salt og pipar
2 msk jómfrúarolía
Saxið lauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til laukurinn er mjúkur og glansandi. Bætið tómötunum við og látið sjóða. Saltið og piprið.
Hrærið tómatþykkninu og balsamedikinu út í og sjóðið niður um þriðjung. Rífið kryddjurtirnar saman við sósuna rétt áður en hún er tilbúin. Smyrjið á pítsudeig, bætið við uppáhaldsálegginu ykkar, bakið og njótið vel!