Þetta er einfaldur matur til að henda saman á aðventunni þegar maður er úthaldslítill í eldhúsinu. Handtökin gætu vart verið fljótlegri eða einfaldari - baka osta, sjóða kartölfur, taka til í ísskápnum og steikja súrdeigsbaguettu.
Ostakvöldverður á aðventunni - Innbakaður gullostur, bráðinn Dímon, smælki, pæklað grænmeti, jólapaté og tilheyrandi
1 gullostur
1 Stóri Dímon
1 stórt hvítlauksrif
1 blað af smjördeigi
1 egg
750 g smáar kartöflur
pæklað grænmeti úr ísskápnum (hægt er að fá tilbúnar súrar gúrkur útí búð) - ég átti gúrkur, gulrætur og blómkál
jólapaté frá Kjötbúðinni
baguetta - skorin í sneiðar, pensluð með jómfrúarolíu og bökuð snöggt í ofni.
heimagerð sulta að eigin vali (einnig má kaupa góða sultu útí búð)
blandaðir ostar (camenbert, höfðingi, jólayrja, brie)
Það er varla hægt að tala um þetta sem eldamennsku.
Byrjið á því að taka utan af einu hvítlauksrifi og sneiðið það gróflega niður. Skerið smáar raufar í ostinn og troðið hvítlauksbitunum í raufarnar.
Vefjið smjördeiginu utan um ostinn. Setjið í kæli á meðan þið takið saman restina. Munið að pensla smjördeigið með þeyttu eggi áður en þið skellið ostinum í 200 gráðu heitan, forhitaðan ofninn.
Spekkið Stóra Dímon einnig með hvítlauk líkt og gert var við gullostinn. Bindið tvo strengi utan um ostinn (þannig að hann haldi betur formi sínu - takið svo eftir hvernig sú meðferð reyndist alveg gagnslaus).
Setjið ostinn inn í ofninn við 200 gráður (nokkrum mínútum eftir að ég setti ostinn í ofninn þá brustu umbúðirnar og ég tók á það ráð að færa hann yfir í lítið eldfast mót sem ég á - sem var engu síðra).
Sjóðið kartöflur í söltuðu vatni þar til þær eru mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og veltið upp úr olíu, saltið og piprið.
Skerið jólapatéið hans Geira í þykkar sneiðar. Raðið pækluðu grænmeti í skálar. Sækið sultuna.
Penslið niðursneidda baguettu með olíu og bakið í heitum ofni þar til hún tekur að brúnast.
Ég veit ekki hvað ykkur finnst - en þetta er ansi girnilegt!
Með þessu hlaðborði bar ég fram spænskt rauðvín sem ég hef gætt mér á nokkrum sinnum áður. Baron de Ley Reserva frá Rioja héraði frá því 2015. Þetta er vín framleitt eingöngu úr Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - kröftugur ávöxtur á tungu, tannínríkt, þurrt og með góðri sýru til að stilla sér upp á móti feitum ostunum.
Hvað er fallegra en að sjá kartöflu umvafða bráðnum Dímon?
Held að það sé bara kartafla umvafin bráðnum gullosti. Ég hreinlega elska gullost!
Verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
No comments:
Post a Comment