Mér finnst ákaflega jólalegt að gera mína eigin síld fyrir jólin. Og þegar ég segi gera mína eigin síld - þá meina ég auðvitað að bragðbæta síldina sjálfur. Ég hef aldrei farið og verkað síldina frá grunni - enda er það óþarfi þegar unnt er að kaupa hana tilbúna, þ.e.a.s. verkaða, og klára svo með því að kynna hana fyrir ýmis konar sósum og kryddi. Maður hefur, jú, ekki endalausan tíma.
Í þessari færslu ætla ég að leika mér mest með sýrðan rjóma og majónesi - persónulega eru það síldarréttirnir sem ég leita helst í þegar ég sæki hlaðborð heim. Ætli ég geri ekki aðra fljótlega - með aðeins öðrum áherslum. Á þessum síðustu og verstu tímum er nauðsynlegt að teygja vel og rækilega á aðventunni.
Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi
Ég kynntist þessari síldartegund, Klädesholmen, þegar ég bjó í Svíþjóð. Ég bloggaði meira að segja um þær uppskriftir. Eins og þá - var faðir minn, Ingvar, mér innan handar en foreldrar mínir eru miklir síldarunnendur og bera ábyrgð á því að hafa komið mér á bragðið.
Ég var svo á kynningu í sænska sendiráðinu fyrir tveimur árum og sá að hún er komin á markað á Íslandi. Jón, sem flytur síldina inn, var svo almennilegur að gefa mér nokkra pakka af síldinni og reyna að gera henni góð skil. Þ
Þetta eru ekki flóknar uppskriftir og það góða við þær er að það má gæða sér á þeim strax. En ætli þær verði ekki enn ljúffengari við að fá að standa í ísskáp í sólarhring. Þá fá allar bragðtegundirnar að kynnast betur.
Ég geri mér grein fyrir því að ekki skilja allir þetta hrafnaspark og ætli það sé ekki best að skrifa þetta upp aftur.
Jólasinnepssíld
Hráefni
1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
handfylli hakkað dill
1 msk hlynsíróp
1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep
salt og pipar eftir smekk.
Aðferðafræðin er ekki flókin. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum.
Västerbottensíld
Þessi uppskrift sló í gegn. Ég stal þessari uppskrift af netinu þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður.
Hráefni
1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi
2 harðsoðin egg
1/2 dl majónes
handfylli hökkuð steinselja
hnífsoddur af chilidufti
1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur
salt og pipar eftir smekk
Þessi uppskrift er líka ofureinföld - en kannski sú eina sem krafðist einhverrar eldamennsku, ef eldamennsku skyldi kalla. Það þurfti að sjóða eggin!
Og rífa ostinn.
Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum.
Hvítlaukssíld
Hráefni
1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi
2 harðsoðin egg
3 msk majónes
handfylli hökkuð steinselja
1/2 tsk Bera chilisósa
3-4 stór hvítlauksrif
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar eftir smekk.
Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan gengið er frá og máltíðin undirbúin.
Einfalt og meira að segja fljótlegt.
Mamma mín, Lilja María, tók að sér að smyrja rúgbrauðið. Allir fengu einhver verkefni.
Þetta reyndist sannkölluð síldarveisla.
Verði ykkur að góðu.
Takk fyrir þessar girnilegu uppskriftir. Hvað myndirðu giska á að svona gúmmelaði geymist lengi í ísskáp?
ReplyDelete2 vikur amk
DeleteMbk
R
Hvar er þessi síld seld?
ReplyDeleteVar í Melabúðinni
DeleteHvar fæst þessi síld? Hef hvergi séð hana í verslunum
ReplyDeleteVar í Melabúðinni
Delete