Saturday, 18 April 2020

Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti


Það mun vera tákn um ranghugmyndir að maður haldi að fólkið í sjónvarpinu sé að tala við mann. En þannig leið mér síðastliðinn föstudag þegar ég, ásamt restinni af fjölskyldunni sátum og nutum þáttarins Heima hjá Helga.

Ég beið spenntur eftir aspasbrauðinu - en Helgi nefndi að þessu sinni aspassoufflé. Og það hafði ég bara aldrei gert. Þannig að ég leit svo á að um áskorun væri að ræða. Liðna viku hef ég verið að skoða uppskriftir og fann eina sem ég aðlagaði til að geta kallað hana mína.

Hægt er að sjá atganginn á Instragram reikningi mínum, sjá instagram story.



Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti

Fyrir sex

1/2 búnt af ferskum aspas
4 egg
35 g smjör
35 hveiti
300 ml mjólk
4 msk rifinn Västerbotten ostur
1/2 hvítlauksgeiri
smjör
brauðmylsna

Aðferð

Skerið aspasinn í bita og sjóðið í söltuðu vatni í tvær mínútur. Kælið í ísvatni og leggið svo aspasinn til hliðar.

Útbúið bechamél sósu með því að bræða 35 g af smjöri í potti og hræra vel saman og mynda smjörbollu. Bæta kaldri mjólk saman við og hita varlega. Sósan þykknar þegar hún hitnar. Bætið svo ostinum saman við og bræðið hann í heitum jafningum.

Aðskiljið eggjahvíturnar frá eggjarauðunum.

Setjið bechamélsósuna í blandara og bætið við aspasnum, hálfum hvítlauksgeira, eggjarauðum, salti og pipar. Blandið vel saman. Færið blönduna yfir í skál.

Þeytið eggjahvíturnar þangað til að þær eru dúnmjúkar - eins og fallegt ský á himni. Ekki stífþeyta. Bætið þeim saman við aspasbætta bechamélblönduna, varlega þannig að þið sláið ekki loftið úr eggjahvítunum.

Smyrjið lítil eldföst mót með mjúku smjöri og setjið brauðmylsnu innan á mótin. Hellið því næst souffleblöndunni yfir í mótin.


Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur. Souffle-ið rís upp úr mótunum. Látið standa í nokkrar mínútur. Við það falla þau aftur.


Berið fram með góðu kampavíni og njótið.

Áfram Helgi Björns og Reiðmenn vindanna.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


No comments:

Post a Comment