Jólin eru að koma, jólin eru að koma!
Ég var beðinn um að leggja til uppskrift í Hátíðarblað Morgunblaðsins, sem var auðvitað sjálfsagt. Ég leitaði í sarpinn minn á síðunni og við þá yfirferð myndgerðist hið augljósa. Ég er alger íhaldsmaður - jólaíhaldsmaður. Uppskriftirnar mínar eru gjarnan blæ- og svipbrigði af sömu sígildu réttunum. Og ekki að ég telji að maður þurfi nokkuð að skammast sín fyrir það. Þess þá heldur. Jólin eru hátið nostalgíunnar - að leita í barnæskunna og reyna að skapa minningar fyrir næstu kynslóð.
Ég varð því að finna upp á einhverju nýju. Og ég held að ég hafi aldrei eldað neitt þessu líkt - öll hráefnin eru framandi fyrir jólaborðið á mínu heimili.
Villibráðarjól - grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og snöggeldaður krónhjörtur með nípumauki, karmelliseruðum graskeri og Campofiorinrauðvínssósu
Grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og ferskum bláberjum
Fyrir fjóra
1 grágæsarbringa
handfylli ferskt rósmarín
handfylli ferskt timjan
1 msk rósapipar
1 msk grænn pipar
2 msk þurrkað blóðberg
50 g gróft sjávarsalt
50 g sykur
Öllum hráefnum er blandað saman og lögð ofan á plastfilmu.
Grágæsarbringunni er komið fyrir í miðjunni og svo er plastinu vafið þétt utan um hana þannig að hráefnin dreifist jafnt yfir. Sett í ísskáp í 2-3 daga undir fargi (ég notaði mjólkurfernu). Snúið á degi hverjum.
4 súrdeigsbrauðsneiðar smjör
hvítlauksrif
1/2 dós rjómaostur með lauk og graslauk
250 ml rjómi
grafin grágæs, skorin í þunnar sneiðar
handfylli af basilíku sprettum
handfylli af bláberjum
4 msk heimagerð bláberjasulta
100 ml cassis líkjör
salt og pipar
Byrjið á því að setja sultuna í pott og bætið sólaberjalíkjörnum saman við. Hrærið vandlega saman og sjóðið niður líkjörin. Látið kólna. Setjið rjómaostinn í skál og hrærið rjómanum vandlega saman við.
Hellið blöndunni í rjómasprautu og hleypið gasi á sprautuna. Geymið í kæli. Gætið að því að hrista sprautuna vel áður en þið sprautið úr henni. Gott er að prófa áður. Smyrjið brauðið með smjöri og steikið á pönnu. Skerið hvítlauksrifið í helminga og raspið ofan á heitt brauðið. Sneiðið grágæsarbringuna í þunnar sneiðar og leggið ofan á brauðið. Skerið bláberin í helminga. Raðið brauðinu á disk, sprautið rjómaostfroðunni yfir. Dreifið cassis-bláberjasultunni á diskinn. Skreytið með berjum og basilsprettum. Salt og pipar eftir smekk
Þetta var ótrúlega ljúffengt - og þetta verður gert aftur.
Læt þessa mynd líka fylgja - bara af því að mér finnst hún svo falleg. Þessar tvær myndir og sú efsta í færslunni voru teknar af ljósmyndara Morgunblaðsins - Kristni Magnússyni.
Snöggeldaður krónhjörtur með nípumauki, karmelliseruðu graskeri og Campofiorinrauðvínssósu
800 g krónhjartarlund (skorin í fjóra bita)
salt og pipar
smjör/olía til steikingar
Látið kjötið standa út á borði til að ná stofuhita. Saltið og piprið vandlega.
Steikið á heitri pönnu þannig að kjötið sé jafnbrúnað. Komið hitamæli fyrir í kjötinu og setjið í 130 gráðu heitan ofn og eldið að kjarnhita. Látið standa í 10-15 mínútur undir álpappír til að jafna sig.
Nípumauk
2 stórar nípur
1 kúfuð teskeið af Edmont Fallot sinnepi
50 ml rjómi
50 g smjör
salt og pipar
Flysjið og sjóðið nípurnar í söltu vatni. Þegar þær eru mjúkar í gegn hellið þið vatninu frá.
Maukið saman með rjóma, smjöri, sinnepi, salti og pipar. Haldið heitu.
Ofnristað grasker
1/2 "butternut" grasker
góð jómfrúarola (t.d Olio Principe eða Olio Nitti)
salt og pipar
ferskt timjan til skreytingar
Flysjið og skerið graskerið í litla kubba - einn sentimetra. Veltið upp úr góðri olíu, salti og pipar.
Bakið í 180 gráðu heitum ofni þangað til að þeir eru fallega brúnaðir.
Strengjabaunir
góð jómfrúarrolía (t.d Olio Principe eða Olio Nitti)
salt og pipar
Gufusjóðið strengjabaunirnar í nokkrar mínútur þar til þær eru mjúkar í gegn. Veltið upp úr góðri jómfrúarolíu. Saltið og piprið.
Campofiorinrauðvínssósa
500 g hreindýrahakk (það má auðvitað líka nota nautahakk)
1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
smjör/olía til steikingar
500 ml Campofiorin rauðvín (auðvitað má nota hvaða rauðvín sem er)
1 greinar af timjan
500 ml kjúklingasoð
2 msk smjör
salt og pipar
Steikið hakkið og laukinn í smjöri þangað til að það fær á sig fallega brúnan lit. Saltið og piprið.
Undir lok steikingarinnar á kjötinu og lauknum, bætið þið smátt skornum hvítlauk saman við og látið steikjast í nokkrar mínútur. Gætið að brenna ekki laukinn eða hvítlaukinn.
Bætið rauðvíninu saman við og sjóðið upp ásamt timjan greininni - og sjóðið niður þannig að það eru ekki nema kannski 50-70 ml af víni eftir á pönnunni. Bætið næst kjúklingasoðinu saman við og sjóðið upp og síðan sjóðið niður um rúmlega helming. Síið sósuna í annan pott og bætið smjöri, litlu í senn, saman á meðan þið hrærið jafnt og þétt. Þannig fær sósan á sig fallegan gljáa og aukna þykkt. Saltið og piprið eftir smekk.
Að myndatöku lokinni þurfti náttúrulega að snæða matinn. Ekki leiðinlegt hlutskipti. Með matnum bar ég fram Masi Corbec - sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér síðan að ég smakkaði það fyrst. Þá vorum við að taka upp fyrstu þættina af Ferðalagi bragðlaukanna og heimsóttum vínframleiðandann Masi í Verona. Þetta vín er þó ekki ítalskt heldur framleitt á vínekrum þeirra í Argentínu - blanda af ítölsku þrúgunni Corvina (þó ræktuð í Argentínu) og svo Malbec, sem er algengasta þrúgan þar í landi. Þetta er ljúffeng blanda, þurr en ávaxtaríkt, kryddað aðeins með mjúku og löngu eftirbragði. Algerlega kandidat sem jólavínið í ár.
Verði ykkur að góðu.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa