Þessi draumadís varð fjörutíuogtveggja ára í liðinni viku. Hún er mitt algera uppáhalds í lífinu! Mér fannst það frábært tilefni og til að halda ærlegt teiti og bjóða vinum og vandamönnum í veislu á heimilinu. Einhverjum kann að finnast það skrítið að halda upp á þennan afmælisdag frekar en einhvern annan. Hugmyndin er fengin úr bókinni og seinna bíómyndinni A Hitchhiker's guide to the galaxy þar sem framandi geimverur spyrja ofurtölvu eina um hver sé tilgangur lífsins. Svarið kom nokkrum milljón árum síðar - fjörutíuogtveir. Og ef þetta er ekki ástæða til að fagna þá veit ég ekki hvað!
Svipmyndir úr hörkuveislu í tilefni 42 ára afmælis Snædísar. Tilgangi lífsins náð og fagnað með vinum - Heilgrillað lamb, steikt grænmeti, ljúffengt salat, heimagert brauð og taiziki sósa!
Fyrir 37 gesti
1 lamb
500 ml jómfrúarolía
kryddblanda að eigin vali - ég fór í grískar áttir með fullt af oregano, timjan, papríkudufti, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar
fullt af kolum og eitt stykki stórt grill
Fyrir brauðin
Vilji maður gera bara eina uppskrift er hægt að fylgja leiðbeiningum hérna.
4 kg hveiti
2 l vatn
4 pakkar ger
120 g salt
120 g sykur
Fyrir foccacia brauðin notaði ég handfylli af íslenskum kirsuberjatómötum og svo tvær tegundir af grískum ólíum í hitt brauðið.
Valdís tók að sér að gera veislubrauð sem hún hafði lært í heimilisfræði í MH.
250 g af fetaosti og svo handfylli af ólívum.
Villi gerði svo annað brauð með sömu aðferð, fyllt með osti og kraftmikilli heimagerðri hvítlauksolíu.
Öllum hráefnum var blandað saman og skipt niður í fjóra hleifa sem fengu að hefast í klukkustund eða svo.
Veislubrauðinu var aftur skipt í tvo hluta. Deigið var svo flatt út, hráefnum dreift yfir og svo var annað útflatt deig lagt ofaná.
Deigið var svo klippt í grófa þríhyrninga.
Og svo var snúið upp á brauðið.
Það kom út úr ofninum alveg dásamlega gullið og ilmaði stórkostlega. Villi endurtók leikinn með hvítlauksostaveislubrauðið.
Foccacian var gerð með hefðbundnu sniði - sjá þennan hlekk.
Næsta skref var að undirbúa lambið. Ég byrjaði á því að þræða skrokkinn upp á spjótið. Ég á mótorknúið spjót sem hafði verið með smá vesen - og þurfti viðgerð, en það gaf sig aftur svo það þurfti að redda nýju mannknúnu spjóti.
Faðir minn, Ingvar, var kallaður út og sá til þess að sitja úti í rigningu og roki og elda lambið.
En það þarf alvöru mannskap ef maður vill grilla heilt lamb - þetta tekur um tvo til þrjá tíma við kjöraðstæður en þegar íslenskt haustveður lætur á sér kræla þá er betra að hafa auka mannafla því haustvindarnir krefjast lengri eldunar.
Hér sést svo faðir minn aðeins betur, Ingvar Sigurgeirsson, greiðviknari mann er erfitt að finna.
Svo verður auðvitað að bjóða upp á einhverja brjóstbirtu eigi mannskapurinn ekki að verða þurrbrjósta.
Við buðum gesti velkomna með Piccini Prosecco extra dry sem og VES.
Þá vorum við með ljúffengt hvítvín Mar de Frades Albarino frá Spáni. Rann einkar vel niður enda er það ferskt og upplífgandi.
Svo skárum við niður gulrætur, papríkur, sveppi, vorlauk, hnúðkál, lauk og hvílauk og steiktum í hvítlauksolíu og smjöri. Bragðbætt með döðlum og auðviað salti og pipar.
Bróðir minn hjálpaði mér að gera þessa geggjuðu Taiziki sósu - gerða úr grískri jógúrt, majónesi, sítrónusafa, hvítlauk, kjarnhreinsaðri agúrku, ferskum kruddjurtum, salti og pipar.
Þegar lambið var tilbúið, var bara að brýna hnífinn og byrja að skera.
Og auðvitað var sungið - allir tóku lagið! Langt fram eftir nóttu!
Til hamingju með afmælið - tilgangi lífsins hefur verið náð - nú er að halda áfram að njóta þess.
------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
No comments:
Post a Comment