Tuesday, 10 September 2019

Ekta ítölsk pottsteik "pot roast" með gulrótum og fennel og silkimjúku polenta


Ég var að renna í gegnum fyrstu matreiðslubókina mína, Tími til að njóta,  og rakst þar á þessa uppskrift og hugsaði með mér hversu langt síðan að ég hefði eldað hana - því hún er algert fyrirtak. Uppskriftir eins og þessar passa svo vel við alla haustlegu tónana sem núna eru allsráðandi.

Þetta er sígild uppskrift. Ég smakkaði rétt eitthvað líkan þessum þegar ég var á ferð í Boston með konu minni fyrir átta árum. Ekkert varð að vísu úr hugmyndum um að stunda framhaldsnám í borginni og við enduðum á Skáni í Suður-Svíþjóð en hugmyndin að þessum rétti fylgdi með okkur heim.

Þar sem við vorum á rölti um Boston á köldum sunnudagsmorgni gengum við fram á fallegan ítalskan veitingastað. Þar var hátt til lofts með fallegum mahóníinnréttingum og sætum köflóttum dúkum. Á boðstólum var eitthvað sem líkist minni uppskrift – Italian Sunday Roast, only on Sundays – og auðvitað slógum við til. Og rétturinn var algert sælgæti.

Ekta ítölsk pottsteik "pot roast" með gulrótum og fennel og silkimjúku polenta


Það er mikilvægt að nota feitan kjötbita í þennan rétt, annars verður hann þurr og vondur, og best er að kjötið sé ennþá á beininu. Heill feitur grísahnakki er tilvalinn! Kjötið á að elda þar til það dettur í sundur og það tekur um þrjár klukkustundir.


2-3 kg feitur grísahnakki í heilum bita
1 stór gulur laukur
2 fennelhausar
5 gulrætur
4 hvítlauksrif
3 msk jómfrúarolía
2 dósir niðursoðnir ítalskir tómatar
½ flaska ítalskt rauðvín
375 ml vatn
2 msk tómatþykkni
búnt með fersku óreganói, lárviðarlaufi og steinselju (bundið saman í bouquet garni)
salt og pipar
3 msk gott balsamedik




Skerið grænmetið gróft niður; laukinn, gulræturnar og fennelið.

Hitið olíuna í stórum ofnföstum potti og steikið grænmetið. Saltið og piprið.

Takið grænmetið úr pottinum og hækkið hitann undir pottinum.

Þegar olían er orðin heit er kjötið brúnað á öllum hliðum.

Hellið svo rauðvíninu yfir og sjóðið upp áfengið.

Bætið við grænmetinu, tómötunum, vatninu, edikinu og tómatþykkninu og hrærið vel saman.

Saltið vel og piprið og setjið kryddvöndulinn ofan í pottinn.

Setjið í forhitaðan 150 gráðu heitan ofn og eldið í 3-4 klukkustundir.


Það er auðvelt að gera polenta. Bara sjóða kornið í söltuðu vatni, hræra vel og vandlega á meðan. Í lokin er það svo bragðbætt með smjöri og parmaosti. 

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment