Þessi réttur er innblásin frá Norður Afríku, Marokkó nánar tiltekið, en þangað á ég eftir að fara. En ég hef oft ferðast þangað á bragðlaukunum.
Það hefur lítið verið um að vera á síðunni minni um nokkurt skeið en það stafar hreinlega af því að við fjölskyldan höfum verið á faraldsfæti liðinn mánuð. Ég hef ekki tekið mér svona langt frí í meira en áratug. Og það var löngu kominn tími til að fara í frí. Og nú er maður kominn til baka fullur af orku til að takast á við verkefni haustsins. Og það verður nóg á döfinni.
Fyrst þessi réttur. Þetta er auðveld uppskrift, sem byrjar í pönnu og klárast í ofni og er borinn fram með ótrúlega ljúffengu tabbuleah sem er salat sem er oftast gert úr bulgur, en þegar það er ekki til má nota kúskús. Og fyrir þá sem eru á ketómataræði má auðveldlega skipta korninu út fyrir hakkað blómkál. Það er alls ekki síðra.
Þrusugóð kjúklingatagína með besta kúskússaltatinu með steiktum lauk, rúsínum og haloumiosti
1,4 kg kjúklingalæri
1/2 butternut grasker
1 kúrbítur
5 litlar gulrætur
10 hakkaðar döðlur
4 hvítlauksrif
1 dós kjúklingabaunir
handfylli kalamata ólívur
5 msk marókósk kryddblanda (við gerðum þessa úr broddkúmeni, kóríander, túrmerik, papríkudufti, kanel, salti og pipar)
salt og pipar
jómfrúarolía til steikingar
300 g kúskús
1/2 agúrka
2 tómatar
1 laukur
1 haloumiostur
handfylli rúsínur
handfylli ferskt mynta
góð jómfrúarolía
salt og pipar
Fyrsta skrefið var einfalt. Skola kjúklinginn og þerra og salta svo vel og pipra.
Svo var kjúklingurinn steiktur í jómfrúarolíu þangað til að húðin var orðin gullinbrún, stökk og girnileg. Kjúklingurinn var svo settur til hliðar.
Næsta skref var að skera niður allt grænmetið; butternut grasker, gulrætur og kúrbít og steikja um stund í heitri olíunni.
Þá bættum við hökkuðum döðlum og hvítlauk saman við.
Brósi bjó til þessa ljúffengu kryddblöndu - setti öll kryddin í mortél og steytti saman vandlega og bætti svo saman við grænmetið. Ilmurinn í eldhúsinu ætlaði alla að æra.
Þá röðuðum við kjúklingnum ofan á grænmetið og bættum kalamata ólívum samanvið. Helltum einnig heitu kjúklingasoði saman við, upp að miðjum kjúklingalærum.
Það var svo á þessum tímapunkti að við áttuðum okkur á því að pannan, þó stór væri, var alltof lítið fyrir allan matinn sem við vorum að útbúa.
Þá tók við smá handavinna að færa réttinn yfir í stærri ofnskúffu, bæta kjúklingabaunum saman við og baka í 180 gráðu heitum ofni í um tvö til þrjú kortér.
Á meðan kjúklingurinn var í ofninum skar brósi niður lauk og steikti með rúsinum.
Svo steiktum við haloumiostinn þangað til að hann var fallega gullinn.
Svo var lítið annað að gera en að raða tabbuleah salatinu saman. Fyrst var að hella sjóðandi kjúklingasoði yfir kúskúsið og hylja í fimm mínútur. Látið kólna um stund og tyllið skorinni agúrku og tómötum yfir ásamt steikta lauknum, rúsínum, haloumi. Skreytið með ferskri myntu.
Kjúklingurinn ilmaði dásamlega þegar hann var tekinn út úr ofninum.
Með matnum nutum við Valiano 6.38 Gran Selezione Chianti Classico frá 2010. Þetta vín er að mestu unnið úr Sangiovese þrúgum (90%) eins og flest vín frá Toskana. En til að gefa því en meira fútt er það blandað með Merlot þrúgu. Og þetta er kraftmikið vín, næstum sultað - með kirsuberjum og ögn kryddað. Virkilega ljúffengur sopi.
Þetta var sannarlega vel heppnuð máltíð sem kitlaði alla bragðlaukanna.
Bon appetit!
------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa