Það er óhætt að segja að Buff Wellington hafi slegið í gegn meðal okkar Íslendinga. Rétturinn hefur eiginlega farið um eins og stormsveipur - svo hressilega að margar verslanir og kjötkaupmenn selja þessa steik tilbúna í ofninn. Þá hægt var að kaupa "do it yourself" pakka frá einu fyrirtæki í bænum. Svo miklar voru vinsældirnar núna fyrir áramótin að smjördeig var uppseld í Krónunni á Höfðabakka á gamlársdagsmorgun.
Og vinsældirnar eru skiljanlegar þar sem Buff Wellington er einstaklega ljúffengur réttur. - og hátíðlegur! Og þó að Íslendingar séu í ríkum mæli að uppgötva þennan rétt þá hefur hann verið vinsæll um langt skeið. Aðferðin hefur verið notuð í meira en 200 ár og líklegt þykir að hún eigi uppruna sinn til Frakklands en þar heitir hún auðvitað ekki eftir Hertoganum af Wellington, Andrew Wellesley - sem sigraði Napóleon við Waterloo árið 1815 og var forsætisráðherra Bretlands í tvígang. Talið er að hann hafi verið skapaður til að heiðra hertogann, vegna afreka hans og hermanna hans við Waterloo en fyrir því eru ekki áreiðanlegar heimildir. Fyrsta heimildin um nafngiftina er að finna í uppskrift sem var birt í Los Angeles Times í kringum 1900 sem er hinum megin við Atlantshafið. Lítið er um heimildir frá nítjándu öld - og ekkert að hafa upp úr matreiðslubókum sem gefnar voru út í Englandi á þeim tíma. En hvað sem því líður þá er sagan góð - enda á maður ekki að láta sannleikann eyðileggja góða sögu.
Ég hef lengi verið hrifinn af þessum rétti og eldað hann í meira en áratug. Í fyrsta skipti sem ég skrifaði fyrir Gestgjafann - þá var það fyrir villibráðarblað sem kom út fyrir rúmum áratug. Þá gerði ég Wellington með krónhjartarlund. Þá hef ég einnig prófað hreindýr, svínakjöt og nautalund - eins og hefð er fyrir. Fyrir ári eldaði ég nautalundina "sousvide" eins og var móðins það árið og það heppnaðist svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn fyrir áramótin.
Flugeldar á gamlárskvöld - Buff hertogans af Wellington með andarkartöflum, litríkum gulrótum og rauðvínssósu
Þetta er í raun uppskrift um smjördeig frá grunni. Ástæða þess að ég er að standa í þessu er vegna þess að allt smjördeig sem ég hef rekist á er gert úr smjörlíki - og það þarf að ekki að lesa athugasemdir mínar á samfélagsmiðlum lengi til að sjá að ég er allt annað en hrifinn af smjörlíki. Í raun legg ég algera fæð á það. Ég skil fólk sem neyðist til að borða það vegna laktósaóþols eða mjólkurofnæmis. En að öðru leyti ætti maður að sjálfsögðu að krefjast þess að hlutir sem eru seldir sem smjördeig - séu í raun gerðir úr smjöri. Skárra væri það nú!
En það er ekki hlaupið að því að gera smjördeig. Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu um hvernig þetta væri best gert og einnig að ég væri að gera nóg af deigi sem myndi duga rúmlega fyrir tvö og hálft kíló af nautakjöti.
Þá reyndi ég einnig að gera sveppamaukið enn betra en áður svo að úr yrði það besta Wellington sem ég hef lagt á borð fyrir áramótagestina.
Ég hafði verið í Kjósinni helgina fyrir áramót og sótti nautakjötið í Háls - til Dodda sem tók glaður á móti okkur á sunnudagsmorguninn þegar við vorum að leggja af stað heim til Reykjavíkur.
Fyrir smjördeigið
Fyrir smjörkjarnan - Beurrage
675 g smjör við herbergishita
120 g hveiti
Fyrir deigið - Détrampe
700 g hveiti
1 msk sykur
1 msk sítrónusafi
150 g smjör
250 ml kalt vatn
Fyrir "Duxelle" sveppina
1 kg sveppir
1 krukka af þurrkuðum lerkisveppum úr Hallormstaðarskógi
250 ml sjóðandi vatn
5 litlir skalottulaukar
4 hvítlauksrif
2 greinar rósmarín
4 greinar timjan
salt og pipar
2,5 kg nautalund - frá Hálsi í Kjós
2 pakkar af parmaskinka
4-5 msk af Edmont Fallot Dijon sinnepi
Meðlætið
Fullkomar ofnkartöflur - sjá hérna
1 kg litríkar gulrætur
4 msk hvítlauksolía
2 msk hlynsíróp
2 msk balsamik edik
Fyrir sósuna
3 gulrætur
3 sellerísstangir
1 gulur laukur
3 lárviðarlauf
3 rósmaríngreinar
4 timjan greinar
1 msk fersk steinselja
1 flaska af góðu rauðvíni
750 ml nautasoð
100 g smjör
60 g hveiti
salt og pipar
Það er vel skiljanlegt að fólk kaupi smjördeig út úr búð þar sem það er talsvert umstang að gera smjördeig frá grunni.
Ég byrjaði á því að gera smjörkjarnann - Beurrage. Það er í raun frekar auðvelt. Bara að blanda saman mjúku smjöri við hveiti með hrærivél.
Úr verður frekar auðmótanlegur smjördeigsklumpur sem ég setti í mót og kældi í klukkustund á meðan ég gerði deigið - Détrampe.
Blandaði saman öllum hráefnum í skál og hnoðaði vandlega saman og mótaði í klump, sem ég svo mótaði í 20x20 cm ferning. Hann var svo kældur í um 30 mínútur.
Svo er að koma þessu saman. Fyrst tekur maður deigið og fletur út í stóran ferning - sirka 45x45 cm. Þá leggur maður smjörkjarnann í miðjuna og brýtur saman. Þetta fletur maður svo út í jafnstóran ferning og brýtur svo saman og fletur út aftur í jafnstóran ferning. Þetta brýtur maður svo aftur í þrennt og setur í kæli í einn til tvo tíma.
Þá tekur maður deigið út aftur og endurtekur í tvígang, fletur út, brýtur í þrennt, fletur út aftur, brýtur saman og kælir aftur. Endurtekið aftur einum til tveimur tímum síðar. Þarna er maður kominn með hátt í 100 lög af deigi, smjörkjarna - sem gefur okkur ríkulegt smjördeig. Þetta má setja í kæli og geyma í þrjá til fjóra daga eða frysta hátt í tvo mánuði.
Svo er að hreinsa lundina - silfurröndin er skorin frá. Höfuðið af lundinni er tekin af, skottið er brotið undir og bundið með spotta. Kjötið er penslað með góðri jómfrúarolíu og piprað ríkulega. Sett í poka og sousvidað í tvær klukkustundir við 50 gráður.
Þegar kjötið er tilbúið er það þurrkað og vafið í matarfilmu í þéttan, nokkuð jafnsveran klump og kælt yfir nótt.
Daginn eftir eru ermar brettar upp á nýjan leik og svuntan hengd yfir höfuðið. Hakkaði alla sveppina í matvinnsluvél, einnig laukinn og hvítlaukinn.
Vætti upp í sveppunum í soðnu vatni í um 30 mínútur.
Bræddi væna klípu af smjöri á pönnu og steikti sveppina í drykklanga stund, bætti lauknum og hvítlauknum saman við. Bætti lerkisveppunum saman við og bætti svo kryddjurtunum út í sveppablönduna. Saltaði og pipraði. Sauð allan vökva upp þangað til að eftir stóð mjúkt og dásamlega ilmandi sveppamauk.
Seinni partinn á gamlársdag tók ég smjördeigið úr kæli og lét standa á borði í um 30 mínútur áður en ég fór að reyna að móta deigið. Það gekk illa til að byrja með en Ingvar, faðir minn, og Snædís, ástkær eiginkona mín, stöppuðu ærlega í mig stálinu.
Þegar deigið var útflatt raðaði ég parmaskinku í fallegan ferning, smurði sveppamaukinu á í þunnu lagi og lagði nautalundina ofan á.
Þá smurði ég Edmond Fallot dijon sinnepi yfir lundina og vafði svo deigið upp í sívalíng.
Næsta skref var að vefja smjördeigsvafinni steikinni upp þétt með matarfilmu og kæla í a.m.k. tvær klukkustundir.
Eins og á aðfangadag sá konan mín um að skreyta borðið. Mér fannst henni takast afar vel upp.
Næst var að huga að sósunni. Skar niður allt grænmetið og steikti í smjör. Bætti kryddjurtunum saman við ásamt lárviðarlaufum og saltaði og pipraði. Þegar grænmetið var mjúkt hellti ég víninu yfir og sauð niður um helming. Setti svo kjötsoðið og sauð niður um þriðjung. Sósan var svo þykkt með smjörbollu og smökkuð til eins og lög gera ráð fyrir.
Forrétturinn var ekki af lakari endanum. Ég gerði rækjukokteil, bragðbættan með siracha sósu og skreyttann með laxahrognum svo grilluðum við humarhala í ofni allt með nokkuð hefðbundnu sniði.
Með matnum nutum við þessa bragðmikla rauðvíns frá Bandaríkjunum. Beringer Napa Valley Cabernet Sauvignion frá því 2015. Þetta er þrusugott vín - pakkað að ávexti, örlítilli sætu á tungu með mjúku og ljúfri eik sem varði um stund á bragðlaukunum.
Kjötið var svo bakað í blússheitum ofni, 220 gráður í 25 mínútur, þangað til að deigið var fallega gullt af utan.
Það er mikilvægt að baka kjötið í heitum ofni og hita ofnskúffurnar líka í ofninum. Þannig eru skúffurnar heitar þegar steikin fer í ofninn og eykur líkurnar á því að botninn steikist líka og lokist.
Með matnum bárum við fram fullkomnar ofnsteikar kartöflur - sjá hérna.
Þá gerðum við einnig litríkar gulætur frá Jöfri. Mér finnst þetta ákaflega skemmtileg viðbót við grænmetisflóruna.
Þær voru flysjaðar, skornar eftir endilöngu og svo steiktar upp úr hvítlauksolíu og smjöri. Bragðbættar með hlynsírópi, balsamediki, rósmaríni og pekan hnetum sáldrað yfir. Saltað og piprað og bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30-40 mínútur.
Ég ætla að fullyrða að kjötið hafi verið nær fullkomið. Medium rare í miðju, með ljúffengum sveppahjúp og hulið ljúffengu stökku smjördegi.
Það er óhætt að segja að þetta hafi verið besta Wellington sem ég hef nokkru sinni gert. Og ég held, svei mér þá, að gestir okkar hjóna hafi verið sammála.
Ég óska öllum mínum lesendum gleðilegs nýss árs og er þakkátur öllum þeim sem hafa áhuga á því sem ég er að sýsla í eldhúsinu.
Hlakka til að sýna ykkur hvað er í vændum á nýju ári.
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
No comments:
Post a Comment