Sunday, 16 December 2018

Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og heimagerðu hvítlauksbrauði með einföldu vínberjasalati


Maður gleymir því eiginlega á milli ára hvað það er dimmt í desember. Sólin lætur ekki sjá sig fyrr en undir hádegi og hverfur áður en að vinnudegi lýkur. Fyrir marga er myrkrið ansi þrúgandi og þá skiptir máli að reyna að létta sér lífið eitthvað. Sem betur fer býður desember upp á heilmikið af uppákomum sem geta létt manni lundina. Margir hittast í jólaglöggi, en okkur hjónunum var einmitt boðið í eitt slíkt til Arnfríðar og Guðmundar, vina okkar. Þar var margt um manninn og mikil gleði. 

Dagurinn í gær var líka ansi eftirminnilegur, en þá söng jólakórinn okkar á tvennum tónleikum. Síðan í október höfum við nokkur saman hist og sungið jólalög undir mildri en faglegri stjórn Hildigunnar Einarsdóttir söngdívu. Forsprakki hópsins, Eyrún Baldursdóttir, fékk þá hugmynd fyrir nokkrum árum síðan, að stofna jólakór og að sá kór ætti að syngja fyrir sjúklinga Landakotsspítala. Í gær gerðum við það, og gott betur því við tróðum líka upp á Líknardeild spítalans. Þetta hefur verið sannarlega ánægjuleg helgi. 

Auk þess að hitta vini og ættingja og syngja og gleðjast þá má líka létta sér lundina með því að njóta ljúffengs matar og drykkjar. Sumar uppskriftir eru hreinlega betur til þess fallnar en aðrar að létta manni lundina í svartasta skammdeginu. Þessi kemur klárlega til álita sem meðferð við vetrarrökkrinu. 

Himneskt hvítt hreindýraragú með penne pasta og einföldu ostahvítlauksbrauði

Það eru margir sem eru svo heppnir að eiga hreindýrahakk í frystinum en fyrir þá sem ekki eiga slíkt má vel nota nautahakk.

Hráefnalisti fyrir sex

500 g hreindýrahakk
hálfur rauður laukur
1 sellerístöng
1 gulrót
2 hvítlauksrif
250 ml hvítvín
3 lárviðarlauf
vöndull af ferskum kryddjurtum (rósmarín, timjan, steinselja)
1 stór pakki rjómaostur
150 ml rjómi
3 msk Worcherstershiresósa
250 ml vatn
1 msk villikraftur
Nóg af parmaosti

salt og pipar

600 g penne pasta
ríkulega saltað vatn

blönduð salatlauf
1/2 rauð papríka
1/2 gul papríka
200 g vínber

6 brauðsneiðar
Smjör 
hvítlauksduft
Rifinn ostur 


Eins og allir góðir pottréttir eða súpur þá byrjar maður á sama máta - með þrenndinni, mirepoix, sem er laukur, sellerí og gulrót - nema ég bæti alltaf við hvítlauk þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill.

Svo er grænmetið steikt upp úr olíu eða smjöri þangað til að það er orðið mjúkt og farið að ilma dásamlega. Saltið og piprið. Svo er það tekið til hliðar.


Næst er svo að brúna hakkið þar til að hefur tekið á sig lit. Þá er grænmetinu bætt saman við ásamt nokkrum lárviðarlaufum og þetta steikt saman í nokkrar mínútur.


Næst er að bæta við víninu - suðunni hleypt upp og svo látið sjóða niður þangað til að lítið sem ekkert er eftir af vökva í kássunni.


Svo setti ég vatn og kraft og sauð áfram í 10-15 mínútur. 


Svo var kássan bragðbætt með því að láta þennan fallega kryddvönd sjóða með nokkra stund. 


Þar á eftir setti ég heila öskju af rjómaosti. Þessi uppskrift er ekkert léttmeti - og til að tryggja að ég gengi yfir öll velsæmismörk þá setti ég líka smá rjóma. 


Svo fékk ragú-ið að krauma í þrjú korter eða svo við lágan hita. Smakkað til með salti, pipar og Worchestershire sósu.


Sauð pasta í nóg af söltuðu vatni. 


Þegar pastað var tilbúið var vatninu hellt frá og ragúinu blandað saman við. Raspaði svo heil ósköp af parmaosti við pastað. 


Færði svo pastað yfir á disk, og sáldrði smáræði af steinselju yfir. 


Kristján Kristjánsson, leikstjóri og meðframleiðandi minn, kom í mat og hann fékk það hlutverk að útbúa salat sem varð afar ljúffengt; með grænum laufum, gulri papríku, tómötum og vínberjum.


Með matnum nutum við svo þessa ljúffenga víns, Sasso Al Poggio, sem er framleitt í Toscana. Framleiðandann hef ég heimsótt og meira að segja snætt hádegisverð úti á vínökrunum þar sem þessar þrúgur vaxa. Þetta er oft kallað Super-Toscana vín - blanda úr Sangiovese þrúgunni og svo Cabernet og Merlot. Þetta er "stórt" vín - pakkað af ilmi og bragði - ávöxtur, pínu sultað - smá lakkrískeimur. Dásamlegur sopi.

Með matnum útbjuggum við einnig einfalt hvítlauksbrauð. Smurðum brauðsneiðar með smjöri, hvítlauksdufti og röspuðum svo Ísbúa óðalsost yfir. 


Þessi matur var hreinasta sælgæti. 

Svartnættið í desember er auðsigrað með svona veislumat! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment