Og auðvitað varð að elda hann hratt og örugglega. Og mér datt ekkert annað í hug en að gera það á eins ferskan hátt og mögulega.
Og við vorum með góða gesti í mat - Sverri og Bryndísi! Sverrir er sá maður sem hefur þolað mig hvað lengst, en við höfum verið bestu vinir frá því við vorum fimm ára gamlir, maður þorir varla að segja það, en það eru kominn 37 ár - úff! Sverrir var lánsamur að kynnast Bryndísi þegar við vorum í MH. Það er alltaf gaman að setjast niður yfir mat og drykk með þessu góða fólki.
Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrennskonar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti
Laxinn
1 ferskur villtur íslenskur lax (auðvitað má nota eldislax)
1 sítróna
1 rauður chilli
2 vorlaukar
2-3 hvítlauksrif
7 cm engifer
handfylli af ferskum íslenskum kryddjurtum
16 blöð af hrísgrjónapappír
Grænmetið
kínakál
papríkur í mrgum litum
baunaspírur
vorlaukur
radísur
gulrætur
kastaníuhnetur
blandað laufsalat
ferskt kóríander
ferskt basil
Meðlæti
3 pak choy
1 msk soyasósa
1 msk jómfrúarolía
1/2 rauður chilipipar
salt og pipar
Fyrir sósurnar
Númer eitt;
4 hlutar majónes
1 hluti rauð sirachasósa
Númer tvö;
3 hlutar jómfrúarolía
1 hluti soyasósa
1 tsk smátt saxaður hvítlaukur
1 tsk smátt saxaður engifer
1/2 rauður chili pipar - smátt saxaður
1/2 tsk ristuð sesamfræ
1 tsk hunang
safi úr hálfi sítrónu
salt og pipar
Númer þrjú;
4 hlutar majónes
1 hluti græn sirachasósa
1 msk ferskur graslaukur, smátt skorinn
Byrjið á því að skera sítrónurnar, chilipiparinn, vorlaukinn, engiferinn, kryddjurtirnar og hvítlaukinn gróflega niður og komið fyrir inn í kviðarholi fisksins.
Pakkið svo laxinum vandlega inn í álpappír, líklega er best að hafa hann í tvöföldu lagi af pappír, þannig sleppur engin vökvi frá fisknum og hann sýður í eigin safa.
Útbúið sósurnar. Það er nauðaeinfalt. Bara að blanda hráefnunum saman í skálar og tylla á stórt fat.
Sneiðið svo grænmetið smátt og raðið því í kringum sósuskálarnar.
Setjið laxinn á blússheitt grillið í 35 mínútur eða svo. Það er góð hugmynd að snúa honum einu sinni á meðan eldun stendur þannig að hann eldist jafnt í gegn.
Pak choy-ið er í raun bara kínakálsafbrigði. Það er skorið niður í helminga og öllu nema chili sáldrað yfir. Það er svo grillað á háum hita þangað til að blöðin visna og grænmetið tekur á sig lit. Þegar það er tilbúið er smátt skornum chili dreift jafnt yfir.
Með matnum drukkum við Piccini Bianco frá Toscana. Þetta vín er gert úr blöndu af Chardonnay þrúgum, Trebbiano og svo Vermentino. Þetta er vín sem er einkar auðdrekkanlegt sérstaklega með mat sem þarf að fá að njóta sín. Sósurnar eru nokkuð krefjandi á bragðlaukana og þess vegna mikilvægt að drekka vín með sem ekki gnæfir yfir þá tóna - og hvað þá bragðið af fiskinum. Vínið er fölgult á lit í glasi, þokkalegur ávöxur á nefi, fínir og mjúkir ávaxtatónar á tungu með smá þykkt sem líklega kemur frá Chardonnay þrúgunni.
Ég hafði keypt hrísgrjónapappír í Víetnam market á Suðurlandsveginum. Það þarf ekkert annað en að væta hann í heitu vatni og láta svo kólna á diski.
Svo var bara að raða hráefninu á hrísgrjónapappírinn og vefja upp og taka svo stórann bita. Og njóta. Það er nú aðalatriðið.
Gleðilegt sumar og verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa
No comments:
Post a Comment