Sunday, 22 July 2018

Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrennskonar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti


Það er ekki leiðinlegt þegar maður fær upphringingu á föstudegi þar sem stangveiðimaður þarf að koma nýveiddum laxi í hús. Sík skilaboð fékk ég á föstudaginn síðastliðinn frá Hjördísi Pétursdóttur en hún kom færandi hendi með þennan fallega spriklandi ferska lax.

Og auðvitað varð að elda hann hratt og örugglega. Og mér datt ekkert annað í hug en að gera það á eins ferskan hátt og mögulega.


Og við vorum með góða gesti í mat - Sverri og Bryndísi! Sverrir er sá maður sem hefur þolað mig hvað lengst, en við höfum verið bestu vinir frá því við vorum fimm ára gamlir, maður þorir varla að segja það, en það eru kominn 37 ár - úff! Sverrir var lánsamur að kynnast Bryndísi þegar við vorum í MH. Það er alltaf gaman að setjast niður yfir mat og drykk með þessu góða fólki.

Dásamlega ljúffengur villtur íslenskur lax - oriental style - með þrennskonar sósum, grilluðu pok choy og fullt af fersku grænmeti



Laxinn

1 ferskur villtur íslenskur lax (auðvitað má nota eldislax)
1 sítróna
1 rauður chilli
2 vorlaukar
2-3 hvítlauksrif
7 cm engifer
handfylli af ferskum íslenskum kryddjurtum
16 blöð af hrísgrjónapappír

Grænmetið

kínakál
papríkur í mrgum litum
baunaspírur
vorlaukur
radísur
gulrætur
kastaníuhnetur
blandað laufsalat
ferskt kóríander
ferskt basil

Meðlæti

3 pak choy
1 msk soyasósa
1 msk jómfrúarolía
1/2 rauður chilipipar
salt og pipar

Fyrir sósurnar

Númer eitt;

4 hlutar majónes
1 hluti rauð sirachasósa

Númer tvö;

3 hlutar jómfrúarolía
1 hluti soyasósa
1 tsk smátt saxaður hvítlaukur
1 tsk smátt saxaður engifer
1/2 rauður chili pipar - smátt saxaður
1/2 tsk ristuð sesamfræ
1 tsk hunang
safi úr hálfi sítrónu
salt og pipar

Númer þrjú;

4 hlutar majónes
1 hluti græn sirachasósa
1 msk ferskur graslaukur, smátt skorinn



Byrjið á því að skera sítrónurnar, chilipiparinn, vorlaukinn, engiferinn, kryddjurtirnar og hvítlaukinn gróflega niður og komið fyrir inn í kviðarholi fisksins.


Pakkið svo laxinum vandlega inn í álpappír, líklega er best að hafa hann í tvöföldu lagi af pappír, þannig sleppur engin vökvi frá fisknum og hann sýður í eigin safa. 


Útbúið sósurnar. Það er nauðaeinfalt. Bara að blanda hráefnunum saman í skálar og tylla á stórt fat.


Sneiðið svo grænmetið smátt og raðið því í kringum sósuskálarnar. 


Setjið laxinn á blússheitt grillið í 35 mínútur eða svo. Það er góð hugmynd að snúa honum einu sinni á meðan eldun stendur þannig að hann eldist jafnt í gegn.


Pak choy-ið er í raun bara kínakálsafbrigði. Það er skorið niður í helminga og öllu nema chili sáldrað yfir. Það er svo grillað á háum hita þangað til að blöðin visna og grænmetið tekur á sig lit. Þegar það er tilbúið er smátt skornum chili dreift jafnt yfir. 


Með matnum drukkum við Piccini Bianco frá Toscana. Þetta vín er gert úr blöndu af Chardonnay þrúgum, Trebbiano og svo Vermentino. Þetta er vín sem er einkar auðdrekkanlegt sérstaklega með mat sem þarf að fá að njóta sín. Sósurnar eru nokkuð krefjandi á bragðlaukana og þess vegna mikilvægt að drekka vín með sem ekki gnæfir yfir þá tóna - og hvað þá bragðið af fiskinum. Vínið er fölgult á lit í glasi, þokkalegur ávöxur á nefi, fínir og mjúkir ávaxtatónar á tungu með smá þykkt sem líklega kemur frá Chardonnay þrúgunni. 


Ég hafði keypt hrísgrjónapappír í Víetnam market á Suðurlandsveginum. Það þarf ekkert annað en að væta hann í heitu vatni og láta svo kólna á diski. 


Svo var bara að raða hráefninu á hrísgrjónapappírinn og vefja upp og taka svo stórann bita. Og njóta. Það er nú aðalatriðið. 

Gleðilegt sumar og verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday, 20 July 2018

Elsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum


Eins og margir sem lesa bloggið mitt taka eftir þá ber ekki mikið á eftirréttum. Það verður eiginlega að viðurkennast að ég er allt annað en duglegur að búa til eftirrétti. Og það er ekki vegna þess að mér finnist þeir ekki ljúffengir, ég kann bara betur að meta forrétti og aðalrétti og hef því sjaldnast pláss fyrir eftirrétt. En ég hef safnað í sarpinn í gegnum árin og það er hægt að finna margar sígildar uppskriftir í safninu mínu, sjá hérna undir Eftirréttir og kökur! Og hér er ein sem ég hef í uppáhaldi.

Eldsnögg hvítsúkkulaðiostakaka með bláberjasultu og bláberjum

Það er skemmtileg saga um það hvernig mér áskotnaðist bláberjasultan. Það var þannig að við vorum við tökur á þættinum okkar, Lambið og miðin, á Snæfellsnesi í byrjun júlí. Gréta Sigurðardóttir tók vel á móti okkur og sagði okkur auðfús frá staðháttum og þeirri matarkistu sem er að finna við rætur Snæfellsjökuls og svæðunum þar um kring. 

Hún bauð okkur í morgunverð á Hótel Egilsen þar sem við fengum meðal annars að smakka ljúffenga bláberjasultu sem hún gerir sjálf úr bláberjum frá Vestfjörðum, en þar finnast bestu bláber á Íslandi. Hún leysti mig út með einni krukku sem við höfum nostrað við á síðustu vikum. Og hún sómdi sér sannarlega vel í þessum eftirrétti.  

Þessi færsla birtist líka á Gott í matinn núna í morgunsárið. 

Hráefnalisti fyrir sex

400 g rjómaostur
1 peli rjómi
200 g hvítt súkkulaði
175 g digestive kex
3 blöð gelatín
75 g haframjöl
100 g smjör
2 msk hunang
6 msk bláberjasulta frá Grétu í Stykkishólmi
6 msk fersk bláber



Bræðið fyrst súkkulaðið yfir vatnsbaði.


Bætið pela af rjóma saman við bráðið súkkulaðið. 


Svo setti ég 3 gelatín blöð saman við heitan rjóman og bráðið súkkulaðið.


Setti rjómaostinn í skál og þeytti þar til hann varð mjúkur. 


Þá fer súkkulaðirjóminn saman við rjómaostinn og blandað vel saman. Lét svo skálina inn í ísskáp til að kólna. 


Þá var kexið sett í matvinnsluvél og hrært saman við haframjölið.


Þvínæst bætti ég bráðnu smjöri saman við kexmulninginn og svo hunangi. Lét svo standa í nokkrar mínútur.


Setti svo kexblönduna í skálar.


Þá tyllti ég matskeið af sultunni hennar Grétu ofan á kexblönduna. 


Og þakti svo kexið og sultuna með súkkulaðiblöndunni. Setti svo skálarnar í ísskápinn.


Það var síðla kvölds sem ég bar fram eftirréttinn og lýsingin eftir því. Hann varð engu að síður einstaklega ljúffengur. 

-------


Hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 15 July 2018

Tournedos Rossini heimsótt aftur með pommes fondantes og marsalasósu


Þetta er stórkostlegur réttur. Hann er svo góður að elsta dóttir mín biður reglulega um að ég eldi hann - en það hefur samt ekki gerst oft. Ég gerði hann seinast fyrir rúmum fimm árum fyrir fyrstu bókina mína, Tíma til að njóta. Þegar ég setti uppskriftina á netið, fékk ég talsverða gagnrýni þar sem hann inniheldur fois gras, andalifur, sem er framleidd með, að sumum finnst, vafasömum aðferðum. Og undir þau rök má vissulega taka. En hún er einstaklega ljúffeng - en ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að ég eldi þennan rétt ekki oftar. Maður verður að losna við samviskubitið. Og það tekur að því er virðist um fimm ár. 

Þessi réttur er, eins og ég hef þegar nefnt, alveg einstaklega ljúffengur - en hann er í raun einfaldur. Þarna skiptir máli að raða saman bragðgóðu hráefni á disk. Einfaldara verður það ekki. Þessi réttur á sér skemmtilega sögu, en hann varð til á átjándu öld og var útbúinn af frægum frönskum kokki - Marie-Antone Carême - sem lagði mikið til franskrar matargerðar og varð kannski fyrstur til að skrá uppskriftir af móðursósunum. Þá eldaði hann þennan rétt sérstaklega fyrir tónskáldið Giachino Rossini sem var mikill matarunnandi, kannski eins og vaxtarlag hans gaf til kynna. Eins og ég nefndi í fyrri færslu þá er til þekkt tilvitnun í Rossini þar sem hann segir „Að borða, elska, syngja og melta; í sannleika sagt eru þessir fjórir hlutar „opera buffé” það sem við köllum lífið, og er hverfult eins og kolsýra í kampavíni.“

Ég get vel tekið undir hvert orð! 

Gestirnir voru ekki af verri endanum - allt fólkið sem fór með til Ítalíu fyrir ári og hjálpaði við gerð þáttarins, Læknirinn á Ítalíu, var í heimsókn og því lagði ég áherslu á að gera sérstaklega vel!

Tournedos Rossini heimsótt aftur með pommes fondantes og marsalasósu

Hráefnalisti fyrir átta

Fyrir kjötið

1600 g nautalund
190 g gæsalifur (foie gras)
8 sneiðar hvítt brauð
200 g smjör
1 svört truffla
salt og pipar

Fyrir sósuna

Mirepoix - sellerí, gulrætur, laukur
lárviðarlauf
4-5 greinar af fersku íslensku timjan
1 msk smjör
250 ml Marsala
500 ml kröftugt kjötsoð
1 msk smjör
brún smjörbolla – 60 g smjör/60 g hveiti
100 ml rjómi

Fyrir kartöflurnar

1 kg 
100 g smjör
350 ml kjúklingasoð
nokkrar greinar af íslensku timjan


Byrjið á því að undirbúa mirepoix - sem er blanda af 2 sellerístöngum, 2 gulrótum og 3-4 skalottulaukum. Steikið í bráðnu smjör og saltið og piprið. 


Þegar grænmetið er orðið mjúkt og rétt áður en það fer að taka á sig lit bætið þið víninu á pönnuna. Sjóðið vínið og síðan niður um helming. 


Setjið kjötsoð, lárviðarlauf og ferskt timjan saman við og látið krauma og sjóða niður um helming. Bætið svo rjómanum á pönnuna. Þykkið sósuna með smjörbollu eða sósuþykkjara.


Ég fór í Kjöthöllina og keypti íslenska nautalund. Ég gat fengið þau til að selja mér bara miðjuhlutann, chateaubriand, sem almennt er talinn vera besti bitinn af lundinni. Samkvæmt uppskriftinni á maður að binda þráð um miðja lundina til að hún eldist jafnt. Ég hlýddi og batt upp kjötið.


Svo var ekkert annað að gera en að brúna kjötið að utan og setja það svo í ofn þangað til að það náði 52 gráðu kjarnhita. Láta svo standa í um 15 mínútur áður en það er sett á disk og borið fram, sjá neðar. 


Pommes fondantes er skemmtilegur kartöfluréttur. Ég flysjaði kartöflurnar vandlega og skar svo af þeim þannig að ég fékk fallegan flöt á þær. Hugmyndin er að þær brúnist betur þannig, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.


Þegar þær voru fallegar að utan var kjúklingasoði bætt á pönnuna - það soðið upp og kartöflunar svo settar í ofn í um þrjú kortér. Kjúklingasoðið sýður næstum alveg niður og sogast inn í kartöflurnar sem verða einstaklega mjúkar og ljúffengar. 


Kartöflunum var svo raðað upp á disk og skreyttar með fersku timjan. 


Við buðum upp á vínin sem höfðu leikið stórt hlutverk í þáttunum fyrir ári síðan. Masi Campofiorin 2014 - hefur verið framleitt í 50 ár og verið sölunæsta vín þeirra liðna áratugi. Þetta er einstaklega ljúffengt vín - kraftmikið og framleitt með apassimento aðferðinni. Þá buðum við einnig upp á Vino Musica sem Mario Piccini færði okkur að skilnaði. Þetta vín er einstaklega ljúffengt og er afurð föður hans, Perangelio, sem var mjög innblásin af listaverkum Guiseppe Chiari og fékk hann með sér í að þróa þetta vín. Hann á heiðurinn af þeim myndum sem skreyta miðann á flöskunni. Við fengum vín frá 2012 og svo eina flösku frá 1995. Það var sérstaklega gaman að bera þessi vín saman og einkar áhugavert að sjá hvað gerist þegar vín fær að þroskast í flösku í svo langan tíma.   PieraPngioloPer


Læknirinn, einbeittur að klára Tornados Rossini. 


Ég var með heila krukku af andalifur sem ég skar í þunnar sneiðar.


Ég hafði einnig keypt svarta truflu sem ég reyndi að skera eins þunnt og ég gat. Við höfðum einmitt fengið svarta truflu gefins frá Mario Piccini og eiginkonu hans þegar við yfirgáfum Valiano vínekruna sem einnig er í þeirra eigu. 


Fois gras, andalifrin var steikt örsnöggt á heitri pönnu. Maður þarf að hafa hraðar hendur annars er hætt við því að hún bráðni alveg.


Svo er bara að raða réttinum upp. Fyrst hvítlaukssmjörsteikt hvítt brauð, svo er lundinni tyllt ofan á, þá andalifur og nokkrar sneiðar af svartri truflu. Diskurinn er svo þakinn með Marsala sósu. 

Þó að hefðin segi að maður eigi að bera þennan rétt fram með Madeira sósu þá var Marsala vínið ekkert síðra. 

Þetta var einkar vel heppnuð veisla. Sama fólk er á leið til Spánar í haust og ég er þegar farinn að hlakka til uppskeruhátíðarinnar en lofa að láta fólk ekki bíða í meira en ár eftir veislunni. 

Bon appetit! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 8 July 2018

Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti


Við áttum eiginlega draumkennda daga liðna helgi þegar við vorum við tökur á þriðja og fjórða þætti af Læknirinn í Eldhúsinu - Lambið og miðin. Við vorum að þessu sinni staddir á Snæfellsnesi og tókum upp við Stykkishólm, Hellnar, á Búðum, undir rótum Kirkjufells og í hinni dásamlegu Flatey.


Við dvöldum þrjár nætur í Stykkishólmi í boði Grétu Sigurðardóttur sem á nokkra gististaði, m.a. Hótel Egilsen og Bænir og Brauð. Þessi frábæra kona kann að meta Hólminn og allt svæðið um kring og deildi með okkur ástríðu sinni fyrir matarmenningu svæðisins. Það var virkilega ánægjulegt að dvelja hjá henni og spjalla við hana um daginn og veginn. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri gestgjafa en þessa ljúfu heiðurskonu. Á myndinni er líka dásamlegur maður - Kristján Kristjánsson - leikstjóri og meðframleiðandi minn að þáttaröðinni okkar Lambið og miðin.

Þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið um helgina þá komum við allir heim fullir af innblæstri sem sást vel á sameiginlegum þræði okkar félaga; Kidda, Elvars, Árna, Kjartans og mín - þar sem við höfum verið að deila uppskriftum vikunnar.

Hér kemur mitt innlegg í þá umræðu!

Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti

Og þetta er meira að segja fljótleg uppskrift - ætti ekki að taka mikið meira en hálfa klukkustund frá upphafi til enda.

400 g lambaprime
blóðbergssalt
pipar
2 msk jómfrúarolía
1 msk fersk kryddblanda frá Grétu (fjalldrapi, blóðberg, bláberjalyng)

250 g bygg
2 öskjur (300 g) af íslenskum kastaníusveppum
100 g smjör
1/2 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
1 lambateningur
salt og pipar
250 rjómi
100 ml vatn
1 rjómaostur með kryddblöndu
ferskar íslenskar kryddjurtir - steinselja og timían - og smá viðbót til skrauts
parmaostur
góð jómfrúarolía


Ég átti nokkra sveppi afgangs frá því að við vorum í tökum um helgina. Og það er engin ástæða til að láta þá fara til spillis. Skar niður sveppina heldur gróflega ásamt rauðlauknum.


Steikti svo sveppina og laukinn upp úr helmingum af smjörinu. Saltaði og pipraði.


Skar svo hvítlaukinn niður og steikti svo með sveppunum og lauknum. Það er ágætt að bíða aðeins með hvítlaukinn - þar sem hann má ekki brenna. Þá verður hann bitur og leiðinlegur.


Steikið sveppina þangað til að þeir hafa tekið á sig fallegan karmelliseraðan lit.


Svo er bara að hita vatn í potti, salta það ríkulega og sjóða byggið í 15 mínútur. 


Þegar byggið var farið að sjóða setti ég einn tening af lambakrafti saman við. Bara til að fá aukið bragð af korninu. 


Þegar byggið var soðið - en aðeins undir tönn, "al dente", þá bætti ég því á pönnuna með sveppunum og blandaði vel saman. Skar niður steinselju og timían og hrærði saman við.


Hellti svo rjómanum saman við og sauð upp. Bætti einnig vatni á pönnuna. 


Þegar rjóminn var farinn að krauma setti ég rjómaostinn saman við. 


Tók svo kryddjurtirnar frá Grétu og hakkaði niður vandlega.


Nuddaði lambið upp úr olíu, saltaði og pipraði og sáldraði svo kryddinu frá Grétu yfir.


Brúnaði lambið að utan á blússheitu grilli.


Skellti því svo inn í heitan ofn með hitamæli og tók út þegar það náði 52 gráðum í kjarnhita. Hvíldi í nokkrar mínútur áður en ég skar það í sneiðar.


Lagði byggotto á disk, raspaði parmaost yfir, smá jómfrúarolíu og skreytti með fersku timían.


Þetta vín hefur komið fyrir nokkrum sinnum á síðunni minni á síðustu mánuðum, sem er ekki skrítið þar sem það er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.  Þetta vín smakkaði ég í fyrsta sinn á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Masi fyrir tæpu ári síðan. Ég var svo hrifinn af því að ég óskaði eftir því að það yrði flutt inn til landsins og selt í ríkinu. Þetta vín fær sannarlega mín meðmæli enda er það einstaklega kraftmikið og bragðgott vín sem á rætur að rekja til Argentínu. Það er framleitt með því að blanda saman víni gerðu úr ítölsku þrúgunni Corvina sem er ræktuð í Argentínu og svo Malbec sem er uppistöðuþrúga í Argentínskum vínum. Þetta er vín sem ég er sannfærður að þið mynduð njóta.


Þetta var einstaklega vel heppnuð og ljúffeng máltíð. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa enda íslensk hráefni í aðalhlutverki. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa