Sunday, 29 April 2018

Grilluð T-bein nautasteik með smjörsteiktum sveppum, ostafylltum snakkpapríkum, Västerbotten kartöflum og ljúffengu salati


Ég er nýkominn heim eftir frábæra ferð til Lundar. Eins og kom fram í síðustu færslu var ég á námskeiði í tengslum við doktorsnám mitt í gigtarlækningum. Loksins er ég kominn á skrið aftur - þetta er ferðalag sem ég hóf fyrir tæpum átta árum síðan og loksins er maður farinn að sjá í fjarska markmiðið - doktorsgráðuna. Sjáum hvað setur. Ferðalagið er alltént afar áhugavert. 

Það hefur þó margt hindrað leið mína að því að klára gráðuna. Ég tók fyrst hlé frá þessu námi þegar ég fór í langt stjórnunarnám - sem var áhugavert. Þá hafa bókaskrif og þáttagerð - sem Læknirinn í Eldhúsinu einnig tekið umtalsverðan tíma og sett strik í reikninginn - en ég sé ekki eftir neinu. Þetta hefur allt verið mjög gefandi og maður er alltaf að læra. 

Ég fékk að gista hjá Jóni Þorkatli og Álhildi og strákunum þeirra. Jón kláraði doktorsprófið sitt nú í janúar og það var óneitanlega mikill innblástur að sjá hann klára með glæsibrag. Frábært verkefni og frábær vörn. Við sem hlýddum á vorum sannarlega stolt af frammistöðu hans. Ég er fjölskyldunni einstaklega þakklátur fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér. 

Þó að það sé gaman að fara á gagnleg námskeið - þá finnst mér erfitt að vera í heila viku að heiman. Og það var vissulega gott að koma heim. Og hvað er betra en að elda góðan mat fyrir fjölskylduna. 

Grilluð T-bein nautasteik með smjörsteiktum sveppum, ostafylltum snakkpapríkum, Västerbotten kartöflum og ljúffengu salati

Á leiðinni heim frá flugvellinum stoppuðum við og keyptum í matinn. Við komum við í Kjötkompaníinu og þar sá ég þessar gullfallegu T-bein nautasteikur. Þær eru sérstakar að því leyti að maður fær bæði hryggvöðva og nautalund - allt í sama bitanum. 

Fyrir fjóra til sex

Tvær stórar T bein nautasteikur
góð jómfrúarolía
salt og pipar 

fjórar snakkpapríkur
4 msk hvítlauksolía
1/2 brie ostur
handfylli af geitaosti
salt og pipar 

15 kartöflur
2 msk hvítlauksolía
50 g smjör
50 g Västerbottenostur (eða annar harður ostur, t.d. óðalsostur)

blönduð lauf
agúrka
piccolotómatar
bláber
gulrót
fetaostur
papríka
Frönsk dressing (olía, hvítlauksgeiri, dijon, sítrónusafi, balsamico, salt og pipar) 


Ég fann þessar fallegu snakkpapríkur. Skar þær í helminga og lagði í álbakka. 


Penslaði með hvítlauksolíu (heimagerðri að sjálfsögðu) og lagði svo ostinn í þær. Bakaði á grillinu við óbeinan hita í 30 mínútur. 


Skar niður eina öskju af sveppum (250 g) í um 50 g af smjöri með hálfum smátt skornum gulum lauk í um 30 mínútur þangað til að þeir voru fallega karmellisseraðir. 


Skar kartöflurnar niður í báta. Smurði eldfast mót með hvítlauksolíu og lagði kartölfurnar í fatið. Lagði svo smátt skorinn ost og smjörklípur ofan á. Bakaði í ofni við 180 gráður í um klukkustund (aðeins of mikið - þrjúkortér hefðu verið nóg). 


Útbjó salat eftir kúnstarinnar reglum. Dreifði salatdressingunni jafnt yfir.


Auðvitað verður maður að njóta góðs víns með matnum og undirbúningum. Ég hafði tekið með þessa flösku á leið minni í gegnum tollinn. Trivento Golden Reserve Malbec frá því 2015. Þetta er einstaklega gott vín - enda verðlaunað eins og sjá má á gullmerkjunum. Þetta er fallega purpurarautt vín í glasi. Á nefi og og tungu eru sultaðir dökkir ávextir með löngu og krydduðu eftirbragði. Ég er afar hrifinn af vínum frá Suður Ameríku. 


Svo var það kjötið. Þetta er lúxusbiti og þarf ást og kærleika kokksins. Ég skar í fituna til að auðvelda henni að eldast. 


Penslaði kjötið með góðri jómfrúarolíu - Olio Principe frá Sikiley sem ég hafði fengið gefins frá innflytjendanum nýlega. Mjög ljúf og ávaxtarík olía. Saltaði ríkulega og pipraði. 


Blússhitaði kolagrillið og lagði meira að segja einn viðarbita í annan endann til að tryggja háan hita. Grillaði kjötið í nokkrar mínútur á hvorri hlið. 


Reyndi að láta bitana standa upp á enda til að reyna að grilla merginn - kenningin er sú að hann þrýstist út í kjötið og gefi aukið umami bragð. Þetta er eitthvað sem ég lærði af ítölskum kokki, Antonio, þegar ég var á ferðalagi um Toskana síðastliðið vor. Hægt er að sjá meira um það ferðalag í Sjónvarpi Símans - á voddinu - Læknirinn á Ítalíu, seinni þáttur. 


Þegar kjarnhiti kjötsins var komið í rúmar 50 gráður kippti ég af grillinu og hvíldi í rúmar fimmtán mínútur. 


Kartöflurnar voru aðeins ofeldaðar - stökkar að utan eins og myndin gefur til kynna - en ennþá mjúkar að innan. 


Papríkurnar voru fullkomlega eldaðar þó að ég segi sjálfur frá. 


Ég vil hafa kjötið örlítið rautt að innan. Sumir vilja það meira eldað. Það er bara skera steikina í þunnar sneiðar og bjóða fólki það sem það vill. 


Svo er bara að hlaða á diskinn. 

Mikið er gott að vera kominn heim! 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


No comments:

Post a Comment