Það er nánast hreinsandi að borða fisk eftir aðra eins kjöthátið sem jóla- og áramótahátíðin er. Við hjónin erum eiginlega þyrst í að fá að borða fisk. Snædís fór til vina okkar í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum þar sem hún sótti nokkrar þétta saltfiskshnakka. Og það er nú lítið mál að breyta þeim í veislumáltíð.
Ég var líka á fundi með vinum mínum, Ólöfu og Omry, í Krydd- og Tehúsinu þar sem við vorum að leggja drög að því hvernig við stefnum að því að þróa saman fleiri kryddblöndur. Við stefnum einnig að því að koma með heil og möluð krydd sem við ætlum að handvelja fyrir botni Miðjarðarhafs. Við hlökkum svo sannarlega til að kynna það betur fyrir ykkur.
Þó að ég sé maður sem oftast geri hlutina frá grunni þá er ótrúlega einfalt að sækja í vandaðar kryddblöndur til að létta manni lífið. Í þessum rétti prófaði ég tvær blöndur - eina fyrir fiskinn sem við erum að vinna með og svo aðra sem Ólöf og Omry kynntu fyrir mér til að bragðbæta hrísgrjónin. Maður lifandi - hvað ég er heppinn með að vera að vinna með þessu fólki - auðveldara gæti þetta ekki verið.
Dásamlegur saltfiskur í hvítlaukstómatsósu með svörtum ólívum og bragðbættum hrísgrjónum
Fyrir sex
1,4 kg saltfiskshnakkar
4 skalottulaukar
4 msk olía
4 msk hvítlauksolía
1 krukka góðar svartar ólífur
2 msk steinselja
1 dós niðursoðnir tómatar
500 ml passata tómatar (tómatmauk)
1-2 msk fiskikrydd frá Kryddhúsinu/Lækninum í Eldhúsinu (væntanlegt á markað)
pipar
1 bolli hrísgrjón
2 msk möndlu og rúsínublanda frá Krydd og Tehúsinu
Ferskt salat - frjálst val að sjálfsögðu
Skerið skalottulaukinn niður og steikið upp úr jómfrúarolíunni. Bætið hvítlauksolíunni saman.
Leggið svo saltfiskinn í olíuna með roðið niður og steikið í þrjár til fjórar mínútur og leggið svo í eldfast mót.
Setjið næst tómatana, tómatmaukið, ólífurnar, kryddið, steinseljuna og piparinn og blandið vel saman. Sjóðið upp.
Hellið tómatblöndunni yfir fiskinn og setjið í 180 gráðu heitan ofn í 20 mínútur.
Á meðan fiskurinn er í ofninum, blandið þið tveimur matskeiðum af þessari ljúffengu blöndu saman við hrísgrjón og vatn. Saltið vatnið og hitið að suðu og eldið samkvæmt leiðbeiningum.
Úr verða þessi dásamlegu mjúku og léttu hrísgrjón.
Fiskurinn mun ilma dásamlega.
Með matnum nutum við smá dreitils af þessu ljúffenga hvítvíni - Matua Sauvignion Blanc frá 2016. Þetta er vín frá Nýja Sjálandi. Fullt af ávexti, smá kryddi og léttri sýru, þurrt og ljómandi á tungu. Tilvalið vín með rétti eins og þessum sem er bragðmikill.
Ég hvet alla til að prófa.
Þetta er ljómandi réttur til að snúa við blaðinu eftir mikla kjötveislu síðustu daga.
No comments:
Post a Comment