Thursday, 28 December 2017

Besta risalamande allra tíma - með toffísósu og heitri kirsuberjasósu


Það er auðvitað merkilegt hvernig sumir réttir ná að festa sig í sessi. Risalamande er einn þeirra - en hann á rætur að rekja til Danmerkur þar sem hann varð til á átjándu öld, þegar fólk í millistétt fór að bera hann fram í stað hefðbundins grjónagrauts með kanil. Lengi vel voru bæði hrísgrjón og kanill hráefni sem heldra fólk hafði aðgang að, en á átjándu öld fór þessi réttur að láta á sér kræla og í stað kanils var hann borinn fram með kirsuberjasósu.

Á eftirstríðsárum eftir seinna stríð voru hrísgrjón aftur af skornum skammti og þá datt kokkum það í hug að drýgja grautinn með þeyttum rjóma - og fátt versnar við þá meðferð.

Risalamande er einnig þekkt í Svíþjóð - sem Ris a'la Malta og svo í Noregi sem riskrem. Í skandínavísku löndunum hefur einnig þekkst að fela möndlu í grautnum og veita svo verðlaun þeim sem finnur hana. Möndlugjöfin hefur verið þekkt síðan á fjórtándu öld - Í Danmörku fá sigurvegarar gjöf en í Svíþjóð er almennt talað um að sá sem möndluna hlýtur muni giftast á næsta ári.

Besta risalamande allra tíma - með toffísósu og heitri kirsuberjasósu

Ég hef sjálfur enga sérstaka reynslu af því að gera risalamande, né grjónagraut hvað þá heldur. Á heimili okkar hjóna, er það Snædís sem eldar grjónagrautinn, og gerir hann oftast þegar ég er á kvöldvakt - þannig að ég fæ að njóta hans heldur sjaldan, sem er frekar leiðinlegt þar sem hún gerir besta grjónagraut sem um getur. Já, ég fullyrði það - besta grjónagraut sem um getur - hann er svo góður!

Hráefnalisti - fyrir 14 sem eftirréttur

500 g grautargrjón
500 ml vatn
salt
2 l nýmjólk
2 vanillustangir

500 ml þeyttur rjómi
150 g möndlur með hýði
75 g flórsykur

150 g smjör
150 púðursykur
1 vanillustöng
150 ml rjómi

1 krukka af kirsuberjasósu


Byrjið á því að setja grjónin í pott, ásamt vatni, smá salti og hitið að suðu. 


Sjóðið við lágan hita.



Þegar allt vatnið hefur gufað upp byrjið þið á því að bæta mjólkinni saman við - sirka 250 ml í senn. Sjóðið varlega - þegar mjólkin hefur þykknað og sogast inn í grjónin bætið þið næsta mjólkurskammti við. 


Skerið tvær vanillustangur eftir miðju, notið almennilegar vanillustangir. Þær fáið þið hjá vinum mínum Ólöfu og Omry í Krydd og Tehúsinu í Þverholtinu - beint frá Madagaskar. Þær eru miklu bragðmeiri heldur en þær sem þið kaupið annars staðar. Það skiptir máli að geyma stangirnar í kæli svo þær haldi ferskleika sínum. 


Setjið fræin út í grautinn og setjið einnig vanillustangirnar - þær eiga nóg af bragði til að gefa. Haldið áfram að bæta mjólkinni saman við og sjóðið þar til grauturinn er hnausþykkur. Gætið þess að hræra stöðugt svo hann brenni ekki við botninn. Og það þarf þolinmæði - þetta verk tekur ást og tíma - um klukkustund að gera hann alveg fullkominn! 

Látið kólna í ísskáp (eða bara út á svölum). 


Það er mikilvægt að kaupa möndlu í hýðinu - þar sem þær varðveita bragð sitt og mýkt mun betur heldur en þær sem hafa verið afhýddar. Setjið þær í skál og hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í 5-10 mínútur. Þá er auðvelt að losa hýðið af.


Það er um að gera að fá einhvern til að hjálpa sér með möndlurnar þar sem þetta er talsvert tímafrekt. Marteinn frændi minn var vel liðtækur. 


Og áður en maður veit af eru þær allar klárar. Látið þær þorna í hálftíma eða svo. 


Hakkið þær svo í matvinnsluvél og blandið saman við kaldan grautinn ásamt þeyttum rjóma og flórsykri. Smakkið til með meira salti og sykri. 


Blandið síðan smjöri, púðursykri, vanillu og rjóma í pott og hitið að suðu og látið krauma við lágan hita þangað til að sósan hefur þykknað. 


Ég ákvað að stytta mér leið með kirsuberjasósunna og keypti hana tilbúna í krukku. Setti í pott og hitaði. 


Svo fær fólk bara að velja. Sumir vilja kirsuberjasósu. 


 Aðrir vilja dásamlega toffísósu.


Það má líka bæta um betur og bæta muldum karmellisseruðum pekanhnetum ofan á grautinn - og þá má halda jól, áramót - eða þrettándaveislu.

Hvernig sem fólk kýs að hafa grautinn sinn - þá varð þessi alveg dásamlegur.

Verði ykkur að góðu.



1 comment:

  1. Ris ala mand hefur alltaf verið ómissandi hluti af jólunum í minni fjölskyldu. Ég veit ekki hvað lengi en allavega síðan um miðja síðustu öld. Hjá okkur hét hann einfaldlega jólagrautur og var ólíkur þessum hversdags vegna þess að hann var blandaður með þeyttum rjóma (sem var munaðarvara) og sykri. Hann líka bara jólagrautur hér í Danmörku þangað til einhverjum fannst fínna að kalla hann risalamande upp á frönsku , en það er enginn frakki sem skilur það orð.Jólagrauturinn var bara með einni möndlu og engri vanillu. Þegar ég flutti til Danmerkur lærði ég að betrumbæta "grautinn" með möndlum og vanillu og ég man að ég kenndi mömmu það líka og færði henni vannillustangir sem hún hafði aldrei séð áður. Kirsuberjasósan þekktist náttúrulega ekki á Íslandi því einu kirsuberin sem maður sá þá í búðum voru einhver dísæt "kokteilber".Núna finnst mér ómissandi að hafa smá grand marnier í grautnum og amaretto í kirsuberjasósunni.

    ReplyDelete