Eins og kannski margir hafa tekið eftir á blogginu mínu þá hef ég verið að vinna með Ólöfu og Omry, eigendum Krydd og Tehússins, á síðustu misserum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast þessu ljúfa fólki og kynnast þeirri ástríðu sem liggur að baki vinnu þeirra. Þau hafa í tvö ár rekið Kryddbúðina sína í Þverholti. Hún er krúttlegri en hægt er að setja í orð - það verður eiginlega bara að kíkja við.
Við höfum þróað saman nokkrar kryddblöndur sem virðast leggjast vel í landsmenn en þau hafa selst upp nokkrum sinnum á síðustu mánuðum. Kryddblöndurnar hafa verið teknar í sölu í Fjarðarkaupum, Melabúðinni og Hagkaup auk þess að fást á netinu. Við bindum auðvitað vonir við að þær muni sjást á hillum fleiri verslana eins og Krónunni og Nettó.
Við byrjuðum á því að setja fimm blöndur á markaðinn fyrir sumarið en erum nú að bæta í safnið; bráðum verður Villt og ótamið - villibráðarblanda aðgengileg, Þakkargjörð og meira - kalkúnakryddblanda, Jólin, jólin allstaðar - jólaglöggsblanda, Grafin en ekki gleymur - graflaxblanda og svo þessi blanda sem er hugsuð á spriklandi ferskan fisk - Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk.
Eldsnöggur lax frá fjarlægum löndum með mynturaitu í salatvefju
Og þetta er eins auðveldur réttur og hugsast getur - og fljótlegur.
Fyrir fjóra til sex
1 laxaflak (sirka 1,2 kg)
2-3 msk jómfrúarolía
1-2 msk Frá fjarlægum höfum - kryddblanda á fisk
salt og pipar
200 ml grísk jógúrt
1/2 kjarnhreinsuð agúrka
handfylli mynta
1 msk hunang
1 msk hvítlauksolía
salt og pipar
icebergsalat
Það ina sem þarf að gera við laxinn er að skola hann og þerra. Leggja hann svo á eldfast mót (ég lagði hann á álpappír til að minnka uppþvottinn á eftir).
Næsta skref er að leysa kryddið upp í jómfrúarolíunni, smakka til með salti og pipar og pensla svo laxinn vandlega með blöndunni.
Hitið ofninn í um 225 gráður og bakið laxinn í um 20 mínútur - þangað til að hann er eldaður í gegn. Ef flakið er þunnt þá mun það auðvitað taka styttri tíma.
Raita er köld sósa sem er notuð til að kæla niður bragðmikinn eða bragðsterkan mat. Í hana má auðvitað setja hvaða grænmeti eða ávexti sem er. Ég ákvað að fara hefðbundna leið þar sem ég vildi leyfa kryddblöndunni minni að njóta sín.
Ég skrapa alltaf kjarnan úr gúrkunni - hann er vatnsmestur og bragðminnstur. Restina saxa ég niður og blanda við grísku jógúrtina.
Svo er að skera gróflega (eða bara rífa niður) ferska myntu. Svo er sósan bragðbætt með heimagerðri hvítlauksolíu, hunangi, salti og pipar.
Ilmurinn í eldhúsinu varð hreinlega kyngimagnaður þegar laxinn var tekinn út úr ofninum.
Svo var laxinum komið fyrir í salatblaði, með fullt af raitu og svo bitið í - og notið!