Sunday, 30 July 2017

Dásamlegt og eldsnöggt taílensk nautasalat með chilli, radísum og seiðandi kryddjurtum.



Ég rakst á þessa uppskrift í bók sem ég pantaði nýlega á Amazon - Prime: The Beef Cookbook eftir Richard H. Turner. Þetta er ótrúlega girnileg bók og það er eiginlega svo að mann langar til að laga hverja einustu uppskrift í bókinni. Ég fór þó að sjálfsögðu ekki alveg eftir uppskriftinni - en hafði hana til hliðsjónar - þannig finnst mér best að nota matreiðslubækur, sem innblástur, til að gefa mér hugmyndir um eitthvað sem mig langar til að þróa áfram.


Þetta er nokkuð þekkt uppskrift og hún er til í ótal útgáfum. Þetta er salat fyrir kjötætur - þarna eru ljúffengar marineraðar þunnt skornar kjötsneiðar umvafðar fersku grænmeti og frískandi kryddjurtum. Og fyrir forfallna kjötætu þá er þetta salat að mínu skapi - auðvitað er ég alæta (omnivore) en mér finnst erfitt að hugsa mér lífstíl þar sem ég skerði kost minn svo að ég borði einvörðungu grænmeti (vegetarian), hvað þá að gerast vegan. Ekki að ég hafi nokkuð á móti fólki sem velur að sleppa því að borða kjöt, fisk eða fugl eða velur ákveðnar afurðir sem það kýs að sleppa úr matarræði sínu. Það er fegurð í fjölbreytileikanum!

Við kjötæturnar verðum þó að horfast í augu við þá staðreynd að til þess að við njótum kjöts þarf einhvað dýr að láta lífið. Og mér finnst auðveldara að borða kjöt af dýri sem ég veit að hefur lifað góðu lífi, eins og íslenska lambið og íslenska nautið. Og þó að nokkrir grísa- og kjúklingaframleiðendur komi vel fram við skepnur sínar er langt í land að þetta sé í nægilega góðu lagi. Þarna þarf að gera bragarbót á því ég er sannfærður að flestir neytendur vilja að farið sé vel með dýrin sem við ætlum síðan að leggja okkur til munns. Er það ekki?

Dásamlegt og eldsnöggt taílensk nautasalat með chilli, radísum og seiðandi kryddjurtum


Kosturinn við þessa uppskrift er ekki bara hversu ljúffeng og falleg hún er - hún er einnig fljótleg. Marineringin er fljótgerð og ekki þarf að marinera kjötið lengi - bara þann tíma sem tekur grillið að hitna. Og áður en maður veit af er komin veisla.



Fyrir fjóra

Hráefnalisti

600 g nauta ribeye
1/2 rauðlaukur
5 radísur
75 g blandað salat (einn poki)
250 g kirsuberjatómatar
1/2 agúrka
1/2 gulrót
handfylli ristaðar salthnetur
1 msk sesamfræ
1 rauður chili
handfylli basil
handfylli mynta
handfylli kóríander

4 msk jómfrúarolía
2 msk ferskur sítrónusafi
2 hvítlauksrif
5 cm engifer
1/2 rauður chili
1 msk nam plah (fiskisósa)
2 msk soyasósa
1 msk sesamolía
1 msk hlynsíróp
salt og pipar


Byrjið á því að skera kjötið í þunnar sneiðar


Hakkið hvítlaukinn og engiferið í matvinnsluvél eða með rifjárni, eða bara skerið hann smátt niður. Bætið chilipiparnum, soyasósunni, fiskisósunni, sítrónusafanum, hlynsírópinu, sesamolíu og salti og pipar og blandið vel saman.


Ég setti svolítið af marineringunni á disk og lagði svo kjötsneiðarnar ofan á. Mér fannst ég vera rosalega sniðugur að hafa fundið upp svona tímasparandi aðferð til marineringar.


Setjið svo nóg af marineringu ofan á kjötsneiðarnar og látið marinerast í 15 mínútur á meðan grillið hitnar. 


Sneiðið grænmetið niður næfurþunnt.


Grillið það svo í mínútu eða svo á hvorri hlið rétt til að brúna það að utan.


Látið það svo hvíla um stund, og kólna aðeins, áður en það er lagt ofan á salatið.


Það er um að gera að nota sólardagana til að njóta lífssins. Ég er einkar hrifinn af Piccini Memoro vínunum - og varð ennþá hrifnari af þeim þegar ég heimsótti vínekrurnar þeirra í vor og var meira að segja boðið út að borða af Piccini fjölskyldunni. Segi ykkur meira frá því fljótlega. Þetta rósavín frá Piccini er einstaklega ljúffengt - það er fallegt á litin, ávaxtaríkt og létt - og passar fullkomlega á svona sumardögum.


Svo er bara að raða salatinu saman. Fyrst græn lauf, kirsuberjatómata í helmingum. Leggja svo kjötið ofan á. 


Því næst gulrætur sem ég flysjaði niður, þunnts neiddan rauðlauk, radísur, chili og salthnetur.


Að lokum dreifði ég restinni af marineringunni yfir salatið, svo þurrristuðum sesamfræjum og svo fullt af ferskum kryddjurtum. 


Ekkert eftir nema að skála og njóta! 

Bon appetit! 

Sunday, 23 July 2017

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum!


Það er ósjaldan að ég elda kjúkling á sunnudagskvöldum. Og ég held að ég hafi prófað að elda kjúkling á vel flesta vegu og ég er nokkuð sannfærður um að ég hafi ratað á bestu aðferðina. Fjölskyldumeðlimir og þá sérstaklega eiginkona mín, Snædís, er einstaklega hrifin af þessari aðferð sem ég komst upp á lag með fyrir nokkrum árum síðan og hef haldið mig við. 

Ég kynntist þessari eldunaraðferð þegar ég var á ferðalagi á Spáni fyrir einum 15 árum. Þá keyrði maður víða framhjá stöðum sem auglýstu Pollos Asados. Ég skrifaði um þetta fyrst 2011 og hafði þá þetta að segja; 

Ég man þegar ég smakkaði þetta í fyrsta skipti. Hvílíkt og annað eins hvað kjúklingurinn var safaríkur og húðin stökk og knassandi góð - nánast eins og mjúkt kex og kjötið lungamjúkt. Ég stoppaði við á veitingastaðnum í smástund og fylgdist með þeim elda, sá hvernig þeir söfnuðu fitunni/vökvanum sem rann af kjúklingum í rennu og reglubundið pensluðu fuglinn með vökvanum. Djísus ... hvað mér fannst þetta gott... já, og finnst ennþá!

Og núna finnst mér enn skemmtilegra að elda þennan rétt þegar ég krydda hann með eigin kryddblöndu sem nú fæst í öllum betri verslunum (í Melabúðinni, Hagkaupum og auðvitað í Krydd og Tehúsinu). Þeir sem búa úti á landi geta pantað kryddblöndurnar mínar á netinu og fengið það sent í pósti - kíkið á heimasíðuna hjá Krydd og Tehúsinu og hendið í eina pöntun. 

Og þessi kvöldverður var sérstaklega skemmtilegur. Prófessorinn minn í Lundi, Anders Bengtsson, var í heimsókn á Íslandi ásamt dóttur sinni, Sögu, og við buðum þeim í heimsókn. Ég sá ekki betur en að þau hafi verið himinlifandi með máltíðina. 

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum! 

Fyrir 6-8

3 kjúklingar
6 msk jómfrúarolía
3 msk klassískt grillnudd (frá Krydd og Tehúsinu í samstarfi við Lækninn í Eldhúsinu) 
salt og pipar

1/2 hvítkálshaus
2 stórar gulrætur
2 græn epli
1 dl appelsínusafi 
4 msk majónes
safi úr heilli sítrónu
2 msk hlynsíróp (má sleppa) 
salt og pipar 

250 g sveppir
1 gulur laukur
3 hvítlauksrif
50 g smjör
2 lárviðarlauf
5 greinar ferskt timjan
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
250 ml rjómi


Byrjið á því að skola kjúklinginn vel og vandlega upp úr köldu vatni. 


Þræðið kjúklinginn upp á spjót og skorðið hann vandlega á teininum. 


Nuddið kjúklingum upp úr jómfrúarolíunni, svo klassíska grillnuddinu og saltið svo piprið ríkulega. 


Hitið grillið þannig að það sé á blússi. Fjarlægið grindurnar og setjið ofnskúffu ofan á brennarana og hellið vatni eða soði í skúffuna.


Komið kjúklingum fyrir og eldið þangað til að kjarnhiti er kominn í 72 gráður.


Á meðan kjúklingurinn er að grillast þá er gott að byrja á sósunni. Þessi uppskrift er gullsins virði - sjá hérna


Flysjið grænmetið og rífið í matvinnsluvél. Blandið saman í skál. Hrærið saman majónesi, appelsínusafa, sítrónusafa, hlynsírópi og saltið og piprið.


Með matnum drukkum við ljúffengt vín frá Spáni; Ramon Bilboa Gran Reserva frá 2010. Þetta er spánskt vín sem er gert að mestu úr Tempranillo þrúgum eins og flest Roija vín nema í þetta vín er blandað smávegis af Graciano og Mazuela þrúgum. Það er fallega rautt á litinn, á nefi með þroskaðan ávöxt - vínber og kirsuber. Sama á tungu nema kryddað með djúpu eftirbragði.


Þetta reyndist sannkölluð veislumáltíð. 

Prófessorinn, dóttirinn, lærlingurinn og fjölskylda hans voru alltént mjög hrifin. 

Bon appetit! 


Sunday, 16 July 2017

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, salati og marineruðum fetaosti


Við fluttum heim fyrir rétt tæplega ári síðan. Og það er óhætt að segja að þetta ár hafi liðið leifturhratt. Maður verður stundum orðlaus yfir því hvað tíminn leyfir sér að líða. Börnunum okkar hefur gengið vel að aðlagast aðstæðum; Valdís byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð og gengur ljómandi, Vilhjálmur unir sér vel í Ártúnsskóla og Ragnhildur Lára brosir út að eyrum. Snædís kláraði framhaldsnámið sitt - og fer til Englands að viku liðinni til að útskrifast. 

Fyrir ári síðan kom gámurinn okkar frá Svíþjóð í götunni okkar á Ártúnsholtinu. Við vorum í Englandi þannig að foreldrar mínir hóuðu saman vinum og ættingjum og gámurinn var tæmdur á mettíma. Við ætluðum auðvitað að vera löngu búin að blása til veislu og þakka þessu dásamlega fólki fyrir - en svona fór það - ári síðar komum við saman í Urriðakvíslinni og skáluðum. 

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, hvítlaukssósu, salati og marineruðum fetaosti

Og við gerðum gott betur en það - við heilgrilluðum lamb. Og það er ótrúlega gaman - það vekur svo mikla undrun hjá gestum, sérstaklega börnum sem reka upp stór augu þegar þau sjá að kjötið kemur raunverulega af heilum skeppnum. 

Fyrir 40 

1 lambaskrokkur
1 l jómfrúarolía
1 staukur marokkóskir draumar
Salt og pipar

3 hvítir laukar
10 hvítlauksrif
5 msk jómfrúarolía
3 rauðir chilipiprar
5 dósir tómatar
1/2 túba tómatpúré
tabaskó
salt og pipar

4 dósir kjúklingabaunir
4 msk tahini
safi úr tveimur sítrónum
6 hvítlauksrif
salt og pipar
500 ml jómrúarolía

400 g fetaostur
handfylli rósapipar
1 rauður laukur
handfylli steinselja og mynta
salt og pipar

Nóg af tortillum


Byrjið á því að skola skrokkinn og þerra. 


Við notuðum kryddblönduna sem ég útbjó með Krydd og tehúsinu - þetta er blanda sem ég útbjó fyrir bókina mína, Grillveisluna, sem kom út í fyrra. Hún er sérstaklega ljúffeng. Þetta er blanda úr papríkudufti, broddkúmeni, engifer, pipar og fleira góðgæti. Hún er einstaklega góð á lamb og kjúkling. 


Fyrst er að þræða lambið upp á spjót. Ég á mótorknúið spjót sem ég keypti í Svíþjóð sem er ansi þægilegt.

Ég blandaði heilum stauk af marokkóskum draumum saman við jómfrúarolíuna og penslaði í þykku lagi á allt lambið.


Svo er gott að fá svona vanan grillmann til að hjálpa sér - Tómas Hermannsson, bókaútgefandi. Hann hefur heilgrillað lamb mörgum sinnum.


Það skiptir miklu máli að stjórna hitanum eins vel og maður getur. 


Þegar lambið fór að brúnast heldur mikið á slögunum - klæddum við lambið í pils.


Eftir þrjá og hálfan tíma var kjötið tilbúið!


Maður þarf fyrst að skoða það aðeins. Að mínu mati reyndist það vera fullkomlega eldað.


Svo er bara að skera.


Og skera meira!


Svo er um að gera að hafa þennan mann, Ingvar Sigurgeirsson, föður minn og svo einnig bróður minn, Kjartan innan handar til að hjálpa til við að snara meðlætinu fram á mettíma. 


Skerið laukinn, hvítlaukinn, chilipiparinn niður gróft og steikið í olíu. Saltið og piprið. Hellið tómatinum, púréinu útí og sjóðið upp. Bragðbætið með salti, pipar og tabaskó. 


Setjið fetaostinn í skál og hellið jómfrúarolíu yfir. Þessi mynd var tekin úr bókinni minni - þar sem ég marineraði með ólífum og kapers. En fyrir veisluna notaði ég rósapipar og rauðlauk. 


Hummus er eins einfaldur og hugsast getur. Kjúklingabaununum, tahini og hvítlauk er blandað saman í matvinnsluvél. Svo hellir maður olíunni þangað til að hummusinn fær þá þykkt sem óskað er eftir. Næst sítrónusafa og svo er saltað og piprað

 

Skerið grænmetið niður - og blandið saman við salatið. 


Við vorum með fína fordrykki - Gin og grape - sem sló heldur betur í gegn! 


Nóg af bjór - það er nauðsynlegt þegar maður er með grillveislu. 


Svo vorum við með Masi Modello - rauðvín frá svæðunum í kringum Veróna. Þetta er vín sem er auðvelt að drekka og passar ljómandi vel með bragðríkum mat eins og við vorum að bera fram. 


Svo er bara að njóta. Rista tortilluna á grillinu og leggja á disk, svo chilitómatsósu, lambið, hummus, salat og marineraðan fetaost. 

Hreinasta sælgæti!



Thursday, 13 July 2017

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

Við fórum í vikufrí í síðustu viku og eins og margir samlandar þá tókum við stefnuna á Tenerife. Við gistum á ágætu hóteli á amerísku ströndinni. Við bókuðum "allt innifalið" - eitthvað sem við höfum aldrei gert áður - þvílíkur lúxus. Maturinn var fjölbreyttur og ljómandi góður, vínið var í góðu lagi og ekki gat ég kvartað undan skorti á ísköldum bjór á sjóðheitum sumardegi. Þetta var nákvæmlega fríið sem fjölskyldan þurfti - við yfirgáfum varla hótelið - heldur lékum okkur við laugina, lásum bækur, spiluðum borðtennis, skruppum í ræktina og marineruðumst í sólinni. Ég kom alltént endurnærður til baka.

Og það var gaman að snúa aftur í vinnuna eftir stutt en þó gott frí. Nýja bráðalyflækningadeildin hefur farið það vel af stað að biðtími á bráðamóttökunni hefur minnkað um 30-50%. Þá hefur einnig tekist að útskrifa helming þeirra sjúklinga sem leggjast inn á innan við tveimur sólarhringum - og það án þess að öryggi sjúklinga sé ógnað. Það er nú höfuðmálið - að þeim batni eins og framast er kostur. Svo fékk ég einnig ómtæki afhent á Klíníkinni í Ármúla og það mun hjálpa við að lyfta gigtarlækningum á ennþá hærra plan. Spennandi tímar sumsé.

En þetta blogg er jú um mat - þannig að við skulum snúa okkur að málefni dagins. Þó að kjöt sé í uppáhaldi margra grillara þá er gott að breyta út af og grilla eitthvað annað eins og t.d. fisk. Það er fjöldi fisktegunda sem hentar ljómandi vel á grillið og kjörið að prófa sig áfram.

Ég hef lengi verið beggja blands varðandi hvalkjöt. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þann rétt að nýta auðlindir okkar með skynsömum hætti þá virðast hvalveiðar okkar stuða marga í alþjóðasamfélaginu. Ég hef því sveiflast fram og tilbaka í afstöðu minni til hvalveiða í gegnum árin. En hvað sem því líður þá varð ég eiginlega að prófa þegar ég sá þessa myndarlegu hrefnusteik í borðinu hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

Og þetta er leiftursnögg eldamennska.

300 g hrefnusteik
700 g klausturbleikja
50 ml soyasósa
2 msk fljótandi hunang
3 msk jómfrúarólía
2 hvítlauksrif
5 cm af engifer
1 rauður chili
2 msk smátt skorin ferskur kóríander
salt og pipar



Hrefnusteikin er fallegur kjötbiti. Hún ilmaði eins og hafið - engin lýsisbræla sem hún er svo oft sökuð um.


Ég hellti soya sósunni yfir, ásamt hunangi, olíu, smátt skornu hvítlauksrifi, chili og engifer og að lokum salt og pipar.


Notaði helminginn af blöndunni á bleikjuna.


Svo var bara að grilla hrefnuna.


Og bleikjuna. Ég var ekkert að snúa flökunum - heldur lét ég roðið bara verja þau frá því að brenna.



Notaði afganginn af marineringunni til að pensla kjötið. 


Ég náði bleikjunni af í heilu með því að renna henni af roðinu, sem hafði festst við grillið.



Við bárum hrefnuna fram með soðnum hrísgrjónum og salati. 

Svo áttum við einnig til opna flösku af þessu ljómandi góða hvítvíni - Gato Negro 9 Lives Reserve Sauvignion blanc. Ég smakkaði þetta vín fyrst á vínkynningu í Marshallhúsinu fyrr í þessum mánuði. Þetta er "premium" lína frá sömu framleiðendum sem framleiða hið vinsæla Gato Negro vín - svarta köttinn - sem notið hefur mikilla vinsælda í Skandinavíu. Þetta er vín ilmar líflega af ávexti, sama á tungu, þurr og stökkur ávöxtur - trópískur með fínu eftirbragði. 


Það er rosalega gott að bera fram raitu - einfalda jógúrtsósu - með þessum rétti;

Klassísk raita

250 ml grísk jógúrt
1/2 agúrka
handfylli fersk mynta
1 hvítlauksrif
safi úr 1/2 sítrónu
1 msk síróp
salt og pipar


Raita er ofur einföld jógúrtsósa; Setjið jógúrt í skál og blandið saman við maukuðu hvítlauksrifi, smátt skorinni myntu, saxaðri kjarnhreinsaðri gúrku, sírópi, salti og pipar. Smakkað til!



Ragga Lára var mjög ánægð með matinn - og það vorum við hin líka. 

Fljótleg fiskiveisla á grillinu í miðri viku.