Þó að mér finnist vika á skíðum í Ölpunum vera eitt það stórkostlegasta sem ég veit um þá finnst mér líka voðalega gott að snúa heim á nýjan leik. Ætli það sé ekki kenniteikn góðs frís - þegar maður snýr sáttur á heimaslóðir. Svo til að gera heimkomuna ennþá ljúfari þá brugðum við okkur í Bláfjöllin á þriðjudagskvöldið að loknum vinnudegi. Frumburðurinn minn, Valdís Eik, stakk upp á þessari ferð, en hún hafði verið svelt af allri skíðamennsku þetta árið sökum anna í skólanum. Bláfjöllin komu mér á óvart - færið og veðrið var einstaklega fínt.
Það hefur líka verið nóg um að vera í vinnunni eins og svo oft áður. Álagið á sjúkrahúsið hefur verið svo óeðlilega mikið í svo langan tíma að starfsfólk er að miklu leyti farið að normalisera vandann og telja slæmt ástand eðlilegt. Margir þola þetta ekki til lengdar og segja upp - það er sorglegt að sjá á eftir reyndum heilbrigðisstarfsmönnum. Mér skilst að margar flugfreyjur hafi hjúkrunarpróf í vasanum - og það finnst mér óneitanlega sorgleg staðreynd. Á þeirra starfskröftum þurfum við sárlega að halda. Á föstudaginn kom Óttarr Proppé heilbrigiðisráðherra og var með framsögu á fundi læknaráðs Landspítala. Það vakti mér hjá smá von í brjósti að heyra hann tala, Hann virkaði ærlegur, einlægur og jafnframt auðmjúkur gagnvart því risaverkefni sem hann hefur tekið að sér. Ég vona að hann verði duglegur að leita ráða hjá heilbrigðistarfsfólki sem starfar á gólfina en ræði ekki bara við stjórnendur. Ég óska honum hins besta í sínu starfi!
En að málefni dagsins - Mesa hlaðborð á Norður Afríska vísu!
Þetta var sannkölluð veisla og það skemmtilega var að hún byrjaði á afgöngum. Við komum heim frá Austurríki kvöldið áður og mamma og pabbi tóku á móti okkur með dásamlegu lambalæri ekkert ósvipað
þessu. Það varð smá afgangur sem sjálfsagt var að nýta og áður en ég vissi var ég kominn á flug.
Magnað Mesa hlaðborð; Grillaður kjúklingur, rauðbeðu-chilihummus, marinerað agúrku og hnúðkálssalat, flatbrauð og ólífur
Jæja, byrjum á þessu.
Marineraður og grillaður kjúklingur
1,3 kg kjúklingalæri (úrbeinuð)
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríanderfræ
1 tsk græn piparkorn
1 tsk salt
1 msk súmac (fæst t.d. í Melabúðinni)
1 tsk þurrkað engifer
safi úr hálfri sítrónu
5 hvítlauksrif
4 msk jómfrúarolía
mynta til skreytingar
Agúrku- og hnúðkálssalat
2/3 agúrka
1/2 hnúðkál
salt og pipar
1 msk smátt söxuð mynta
1 msk smátt saxað basil
2 msk jómfrúarolía
safi úr hálfri sítrónu
1 tsk hlynsíróp
Rauðbeðu- og chilihummus
1 dós kjúklingabaunir
1 msk tahini
100 g innlagðar rauðbeður
2 msk chilimauk (að eigin vali)
salt og pipar
75 ml jómfrúarolía
1 hvítlauksrif
Einfalt blómasalat
3 tómatar
1 rauðlaukur
1/2 papríka
1/3 dalafeti
jómfrúarolía
safi úr hálfri sítrónu
1 tsk rauðvínsedik
salt og pipar
1/4 tsk söxuð bergmynta
1/2 tsk söxuð mynta
Flatbrauð
10 grófar/fínar tortillur
2 msk heimagerð hvítlauksolía
Hefjum matseldina með því að byrja á kjúklingnum.
Ég byrjaði á því að þurrrista broddkúmen, kóríander og græn piparkorn sem ég muldi síðan í mortéli.
Ég notaði kjúklingalæri og svo kjúklingabringur sem ég skar í grófa bita.
Svo bætti ég við salti, súmaci, engifer, sítrónusafa, hvítlauk og jómfrúarolíu.
Þessu var öllu blandað vel saman og sett í kæli í rúma klukkustund.
Svo gerði ég hummus. Setti eitt stórt hvítlauksrif, 1 dós af kjúklingabaunum, tahini, sítrónusafa, rauðbeður í matvinnsluvél.
Þetta var svo maukað vel saman og bragðbætt með salti og pipar.
Sett í skál og ljúffengri jómfrúarolíu sáldrað yfir!
Svo var að skera gúrkuna og hnúðkálið. Ég kjarnhreinsaði agúrkuna og skar niður nokkuð smátt og blandaði við hnúðkálið. Saltaði og lét standa í smástund til að draga vökvann úr grænmetinu. Skar svo fersku kryddjurtirnar niður og hrærði saman við ásamt olíu, sítrónusafa og sírópi. Saltaði svo og pipraði og lét standa í 30 mínútur til að taka sig.
Svo var það blómasalatið. Skar niður allt grænmetið í mandólíni til að fá jafnþunnar sneiðar og lagði á stóran disk. Marði fetaostinn með gafli og sáldraði yfir. Blandaði jómfrúarolíunni, edikinu, sítrónusafanum og dreifði jafnt yfir. Skar svo myntuna og steinseljuna fínt niður og dreifði yfir salatið, saltaði og pipraði.
Mér finnst þetta salat vera ferlega fallegt.
Lambakjötinu, sem var í afgang kvöldið áður (og var orsök þessarar veislu) var líka gerð góð skil. Skorið í bita og steikt upp úr hvítlauksolíu og bragðbætt með örlitlu af garam masala (indverskt - þrátt fyrir Norður Afrískt þema - en stundum má svindla).
Marineraða kjúklingakjötinu var þrætt upp á spjót og það grillað. Það er eitthvað sérstaklega skemmtilegt að grilla um miðjan vetur!
Kjúklingurinn var alveg lungamjúkur!
Auðvitað hefði ég átt að baka flatbrauð - eins og
hérna - en ég lét mér nægja að pensla tortillur með hvítlauksolíu og steikja á pönnu.
Nóg af steiktu flatbrauði til að moka upp matnum.
Með matnum drukkum við þetta ágæta rauðvín. Fetzer Anthony Hill Merlot ("I ain't drinking any focking merlot" Sideways) sem er frá Bandaríkjunum. Þetta vín er það sem maður myndi kalla bang for the buck - kostar ekki nema tæpan 1800 kall. Þetta er kraftmikið vín - djúpur rúbínrauður litur, ilmar af smá kaffi og ávexti -ljúft eftirbragð.
Þetta byrjaði sem matur úr afgöngum en endaði sem sannkölluð veislumáltíð!
Bon appetit!