Ég var á vaktinni á sunnudaginn og í fyrsta skipti í langan tíma var heldur lítið um að vera, bæði á deildinni minni, bráðalyflækningadeildinni, sem og á bráðamóttökunni. Og það verður að segja að það var hálf skrítið, hálf einkennilegt - því síðustu vikur hafa verið mjög kaótískar á sjúkrahúsinu sem er fyrir löngu sprungið. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu gerir kraftaverk á hverjum degi við þessar ótrúlega bágbornu aðstæður; endalaust pláss- og úrræðaleysi. En það er gott að vinna með svona góðu fólki á hverjum degi - og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt!
Á laugardaginn var líka viðburður á hinum vinnustaðnum mínum, Klíníkinni í Ármúla, en þar rek ég sjálfstæða læknastofu þar sem ég reyni að hjálpa gigtveiku fólki. Það var skemmtilegt hvað margir komu í heimsókn og voru forvitnir um reksturinn hjá okkur. Það var sérstaklega skemmtilegt að sýna gestum og gangandi hversu vandað hefur verið til verka á þessari læknastöð. Þetta er gott umhverfi til að vinna í.
Svo er það áhugamálið mitt, matreiðslan. Þar er líka nóg um að vera. Í febrúar mun ég byrja aftur með sjónvarpsþætti og að þessu sinni verða þeir á ÍNN. Við erum byrjuð í tökum og munu efnistök þáttanna byggja dálítið á bókunum mínum; Tíma til að njóta, Veislunni endalausu og þegar fer að vora Grillveislunni. Auðvitað verður líka heilmikið af nýjum uppskriftum - þetta er allt í vinnslu. Þættirnir verða teknir upp heima hjá mér í nýja eldhúsinu mínu sem ég er afar stoltur af!
Dásamleg kjúklingatagína með tómötum, lauk og kjúklingabaunum með ljúffengu kúskús með feta og döðlum og gufusoðnu grænmeti
Ég hef mjög lengi verið hrifinn af matargerð Norður Afríku og sérstaklega frá Marokkó - ég hef meira að segja eldað á marókóskum veitingastað í Lundi sem vinkona mín, Latifa átti. Til Marokkó hef ég því miður aldrei komið, nema í gegnum sjónvarpsþætti, matreiðslubækur og kannski má segja að ég hafi ferðast þangað á bragðlaukunum.
Með þessari uppskrift kemst maður langleiðina til Marokkó.
Fyrir sex til átta.
Hráefnalisti:
1,5 kg kjúklingaleggir
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 litlir laukar
1 lítil dós tómatpúré
1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
1 tsk kóríanderfræ
1 tsk broddkúmenfræ
1 tsk papríkuduft
1 tsk túrmerik
1 tsk engiferduft
1 tsk súmac
1 kanilstöng
börkur af einni sítrónu
1/2 sítróna
1 tsk kjúklingakraftur
4 msk jómfrúarolía (til marineringar og steikingar)
salt og pipar
steinselja til skreytingar - eða mynta - en hún var bara ekki til í búðinni :(
2 kúrbítar
10 gulrætur
2 msk sítrónuolía
salt og pipar
250 g kúskús
500 ml kjúklingakraftur
10 döðlur
1/2 rauð papríka
1/2 krukka dalafetaostur
250 ml jógúrt
2 hvítlauksrif
1 tsk hunang
1/2 agúrka
salt og pipar
safi úr hálfri sítrónu
steinselja - þar sem myntan var ekki til :(
Snædís, eiginkona mín, var nýlega í Englandi og hún færði mér talsvert af kryddi úr búðinni Taj sem er í Brighton.
Ristið kóríander- og broddkúmenfræin og steytið í mortéli.
Hellið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið kryddið; steyttu færin auk papríkudufts og túrmeriks, salt og pipar. Ég notaði helminginn af kryddunum í kjúklingamarineringuna.
Rétt til að lífga réttinn við þá setti ég börk af sítrónu og safa saman við.
Þessu var svo leyft að marinerast í ísskáp í klukkustund eða svo. Auðvitað hefði lengri tími verið aðeins betra - en maður verður bara að láta duga það sem býðst.
Svo var að vinda sér í sósuna. Ég steikti fyrst laukinn, skorinn í fjórðunga ásamt hvítlauknum í nokkrar mínútur í heitri olíu. Svo setti ég sama krydd og ég setti á kjúklinginn. Látið steikjast um stund áður en þið bætið tómötunum og og tómatpuré saman við.
Í margar marókóskar uppskriftir notar maður marineraðar sítrónur. Ég átti engar slíkar eins og stendur en setti í staðinn hálfa ferska sítrónu.
Ég notaði líka súmac - sem er krydd sem hefur svona jarðarkennt sítrónubragð.
Og svo eina kanilstöng. Látið krauma við lágan hita í 20-30 mínútur.
Á meðan maður er að bíða þá er ágætt að fá sér smá hvítvínstár. Ég átti Brancott Estate Sauvignion Blanc frá 2014. Þetta er vín frá Marlborough frá Nýja Sjálandi. Konan mín hafði dálæti á Chardonnay í mörg ár en hefur núna lagt það á hliðina og um þessar mundir er Sauvignion Blanc málið - sem er sko í lagi af minni hálfu. Þetta vín er fallega gult á litinn, með kröftugan ávöxt í nefi, fína fyllingu og krispí bragð á tungu.
Öllu var svo komið fyrir í eldföstu móti.
Inn í 180 gráðu heitan ofn í eina klukkustund.
Á meðan bjó ég til sítrónuolíu: Safi úr einni sítrónu og svo 3 hluta af olíu á móti. Notaði einnig börkinn sem ég skar fínt niður. Saltaði aðeins og hristi vel upp.
Skar niður kúrbít og flysjaði gulrætur og setti í þar til gerða ofnskúffu til að gufusjóða. Bosch ofninn minn, er með svona gufufúnksjón er ákaflega hentug.
Smurði sítrónuolíu á grænmetið, saltaði aðeins og pipraði og gufusauð í 20 mínútur.
Bjútíful!
Raitan var eins einföld og hefðbundin og hugsast getur; Jógúrt, maukuð hvítlauksrif, kjarnhreinsuð smátt skorin gúrka, salt, pipar, hunang og sítrónusafi. Hrært og látið standa.
Eftir klukkustund tók ég kjúklinginn út úr ofninum. Ilmurinn var magnaður. Fyllti allt eldhúsið.
Skreytti með steinselju - hefði vilja nota myntu en hún var ekki til í búðinni (hvað er það eiginlega)
Gerði síðan eldsnöggt kúskús salat með kjúklingasoði (í stað vatnsins). Blandaði síðan við kúskúsið ferskri papríku, steinselju, smátt skornum döðlum og fetaosti.
Raðaði grænmetinu á disk. Ég stóðst ekki mátið að setja smá hunang á gulræturnar.
Umfram allt að njóta!