Thursday, 29 December 2016

Heimagerður rjómaís með vanillu, ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti


Þegar aðfangadagur fellur á laugardag - er um að ræða snörp jól. Þau eru eiginlega búin áður en þau byrja - með algerlega massívu veisluhaldi. Byrja á Þorláksmessu með saltfiski í hádeginu hjá tengdó, svo var skata í skúrnum hjá Viggu og Bassa. Á sjálfan aðfangadag fór fjölskyldan í graut í Sílakvísl, en ég var heima og stóð vaktina í eldhúsinu (það var nú að mörgu að hyggja). Á jóladag var ég svo á vaktinni í Fossvoginum. Mér finnst einstaklega ljúft að ganga stofugang um jólahelgina - það er værð yfir sjúkrahúsinu sem ekki er á öðrum dögum ársins. Um kvöldið voru svo mamma og pabbi með kalkún í Lönguhlíðinni og á annan fékk tengdamamma húsið okkar lánað og bauð stórfjölskyldunni í hangikjöt.

Sem betur fer fær maður nokkra vinnudaga áður en næsta hrina dynur yfir - með áramóta og nýársveislum. Og þennan ís er kjörið að gera fyrir áramótin - þegar maður vill klára árið með stæl.

Þessa færslu er líka að finna á heimasíðu mjólkursamsölunnar - Gott í matinn - en ég hef slegist í lið bloggara sem munu leggja þeim reglulega til uppskriftir þar sem mjólkurvörur verða settar á oddinn. 

Heimagerður rjómaís með vanillu, ferskum jarðaberjum og jarðaberjakonfekti

Allur alvöruís er gerður úr rjóma - auðvitað má líka setja örlítið af mjólk en rjómaís er alltaf langbestur! Og þessi ís er algerlega himneskur - hann er svo góður að meira að segja eiginkona mín, Snædís, sem borðar aldrei ís, fékk sér tvisvar á diskinn. 

750 ml rjómi
6 egg
150 g sykur
1 vanillustöng
250 g jarðaber
40 jarðaberjakonfektmolar 


Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum. Setjið eggjarauðurnar í skál. 


Blandið sykrinum saman við og hrærið vandlega saman. Setjið til hliðar í augnablik á meðan þið sinnið öðrum hráefnum sem eiga að fara í ísinn. 


Næst er að stífþeyta eggjahvíturnar. Það hjálpar að setja smá sykur saman við þær - einhver sagði mér að þær myndu verða betri við það - en ég sel það ekki dýrara en ég keypti ! 


Svo er það auðvitað rjóminn - en hann er lykilatriði í þessari uppskrift og ástæða þess að fólk biður um ábót. Takið hann beint úr kælinum og þeytið saman. Gætið þess að breyta honum ekki í smjör. 


Næst er svo að saxa jarðaberin í litla bita. 


Svo konfektið - það er eðlilegt að kokkurinn taki smá toll af konfektinu - tíu prósent þykir eðlilegt á flestum heimilum. Ég notaði jarðaberjakonfektmola frá Nóa Síríus - en þeir eru uppáhaldið mitt (auk piparmyntukonfektsins). Hvernig fólk nálgast 40 mola - þarf bara að róta í gegnum nokkra kassa hjá vinum og vandamönnum. Sé viljinn fyrir hendi er allt mögulegt. 


Svo er lítið annað en að blanda ísnum saman. Hrærið fyrst rjómann saman við eggjarauðurnar, svo eggjahvíturnar. 


Því næst skafið þið innan úr einni vanillustöng og hrærið vandlega saman við ísinn. Þarna er maður kominn með vanilluís - og í raun hægt að stöðva á þessum tímapúnkti - eða halda áfram með hvaða annað hráefni sem er.


Ég valdi að blanda jarðaberjunum og konfektinu vandlega saman við.


Svo var ísnum skellt í ísskálina (sem þarf að geyma í frosti í 15 tíma áður en hún er tekin í notkun). Ísinn er svo hrærður í 15-20 mínútur þangað til að hann verður tilbúinn. 


Hægt er að gæða sér á honum þá og þegar eða setja hann í mót og geyma í frysti. 


Það eru mörg ráð við að ná ís úr forminu. Ekki gera eins og ég gerði og setja formið í heitt vatnsbað í 20 sekúndur - þá byrjar ísinn að bráðna (mjög gott - veit það næst) - en það hefur engin áhrif á bragðið - sem er fullkomlega geðveikt. 


Svo setur maður meira að súkkulaðisósu á íssinn (bara bræða saman gott súkkulaði og rjóma - koníak sé maður í stuði). 

Svo er bara að knúsa sína nánustu - hvort sem það er fyrir jól eða áramót! 


Monday, 26 December 2016

Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla!

Þetta voru, eins og gert var ráð fyrir, góð jól! Eins og ég hef sagt mörgum sinnum áður - þá er það aðfangadagurinn sjálfur sem er mitt uppáhald. Ég hreinlega elska að verja heilum degi í eldhúsinu og undirbúa jólamáltíðina. Fátt finnst mér betra! Jú, kannski eitt - mér finnst eiginlega betra að heyra fólk dásama matinn sem maður hefur borið á borð. Sjá fólk njóta þess sem maður hefur útbúið með ást og kærleik. Það er kannski væmið - en það er satt.

Ég fékk margar fyrirspurnir fyrir jólin um hvernig ætti að elda svínahamborgarahrygg sousvide - og þar sem ég hafði aldrei gert það sjálfur var það algerlega ljóst að það varð að prófa það fyrir þessi jól. Ég fór aðeins á stúfana og renndi í gegnum FB hóp á netinu þar sem sousvidarar spjalla hver við annan og deila reynslusögum og þar var af nógu að taka - takk fyrir aðstoðina!

Svipmyndir frá aðfangadegi; graflax og svínahamborgarahryggur á tvo vegu - sannkölluð veisla! 

Ég var með 10 manns í mat á aðfangadag; auk fjölskyldunnar voru mamma og pabbi, bróðir minn og svo Hrafnhildur tengdamamma og kærastinn hennar Guðmundur.


Það voru miklar umræður á netinu hvort þyrfti að útvatna svínahrygginn áður en hann væri settur í sous vide og voru leiðbeiningarnar á ýmsa vegu, allt frá því að hann var hafður í vatni yfir nótt og svo ekkert útvatnaður. Það er viss lógík bak við þessar umræður þar sem hryggurinn er pæklaður í salti og er ansi megn. Hættan er að hann tapi miklum vökva við eldunina. Ég fór millileið og hafði hann undir rennandi vatni í klukkustund. 


Á meðan hitaði ég vatnið upp í 65 gráður. 


Svínahamborgarahryggur er ljúffengur biti - af hverju borðar maður þetta ekki oftar?



Ég hellti einum bjór í pokann með hryggnum. 


Ég setti hrygginn í tvo poka - þar sem um langa eldun var um að ræða - 5 klukkustundir - og því hætta á því að pokinn myndi byrja að leka (sem hann gerði þó ekki). Ég notaði IKEA poka og lokaði þeim undir vatnsþrýstingi. 


Hinn hryggurinn var útbúinn á hefðbundinn hátt (skv. Sigga afa). Ég breytti þó aðeins útaf hans ráðleggingum og hef hann á beði af rauðlauk, með hálfri flösku af rauðvíni, 1 l af kjúklingasoði, lárviðarlaufum og negulnöglum. Hitamæli var stungið í kjötið og hann eldaður í ofni þangað til að kjarnhiti náði 70 gráðum (tók um tvo tíma). Hægt er að lesa allt um þessa aðferð hérna.


Auðvitað var sósan gerð frá grunni - með mirepoix og heimagerðu soði (það eru nú jólin).


Ég hafði útbúið graflaxinn nokkrum dögum áður - notaði kryddblöndu frá Jóni í Friðheimum sem ég bætti smá sykri saman við. Var haft í kæli í þrjá sólarhringa og snúið tvisvar á dag. Lét 1 l mjólkurfernu ofan á til að pressa vökvann úr laxinum. 


Pabbi sá um að skera laxinn niður í örþunnar sneiðar. 


Brauðið var penslað með hvítlaukssmjöri og ristað í vöfflujárni. 


Við útbjuggum nokkra diska fyrir myndavélina. Hér var laxinum rúllað upp í blóm. 


Hér var hann bara flatur. Pabbi sá um að gera sósuna - blanda af sýrður rjóma, majónesi, dijon sinnepi, hlynsírópi og svo fersku dilli, salt og pipar eftir smekk. 


Snædís sá um að leggja á borðið og tryggja að jólastemmingin væri í fyrirrúmi. 


Eftir fimm tíma var hryggurinn tilbúinn. 


Pokinn lak ekki neitt. 


Hann var að mínu mati fullkomlega eldaður.


Kjötið var svo penslað með gljáa gerðum úr; Bola bjór, rauðvíni, balsamediki, hlynsírópi, salti og pipar og svo grillað í ofni. 


Mamma stóð vaktina í sósugerðinni - með smá eftirliti undirritaðs. 


Báðir voru einstaklega safaríkir. Sá sem var eldaður sousvide var mýkri og safaríkari. 


En sá sem var ofnbakaður var bragðbetri - þar hjálpaði rauðvínið og negulnaglarnir sem gáfu sérstaklega ljúffengt bragð. 



Og með matnum var að sjálfsögðu ljúffengt vín - ég prófaði nokkrar tegundir fyrir þessi jól og setti á FB síðuna mína. Þessi flaska varð fyrir valinu þessi jól. Marques Casa Concha Merlot 2013. Merlot vín hafa átt á brattann að sækja frá því að bíómyndin Sideways var sýnd en þar sagði aðalpersónan eitt sinn "I ain't drinking any fucking Merlot" - sala á þessum vínum tók dýfu í kjölfarið - fullkomlega að ástæðulausu. Þetta er ótrúlega ljúffengt vín - fallega dökkrautt í glasi með djúpum ávaxtailm, smá reyk og einkar gjöfult á tungu með miklum ávexti, kryddi, vanillu með löngu og gefandi eftirbragði. 



Fyrir mína parta segi ég bara - gleðileg jól. 




Tuesday, 20 December 2016

Bestu sósurnar af blogginu!

Flestir elska að hafa góða sósu með matnum sínum og geta eiginlega ekki hugsað sér veislumáltíðina án þess að hafa dýrindissósu með. Ég hef í gegnum árin prófað ótrúlega margar gerðir af sósum. Þó svo að ég sé íhaldsamur við jólamatinn þá eru margir leitandi að ljúffengum sósum til að hafa með til að lyfta máltíðinni upp

Hafið í huga að þegar verið er að gera góða sósu þá skipta hráefnin auðvitað mestu máli. Það skiptir mestu máli að notað sé gott soð í sósunar - hvort sem maður gerir soðið sjálfur frá grunni (sem er eiginlega best) eða vandar vel valið þegar maður er að kaupa kraft út í búð.

August Escoffier, faðir franskrar matargerðar, sagði,

"“Það vill svo til að soð er ALLT í matargerð. Án þess er ekkert mögulegt"
Þá skiptir miklu máli að smakka sósuna til á meðan verið er að útbúa hana og bragðbæta eftir því sem bragðlaukarnir kveða á.

Hérna er listi af því sem ég held að séu bestu sósurnar sem ég hef bloggað um í gegnum árin - auðvitað vantar einhverjar - en maður kemst ansi langt á þessum.

Bestu sósurnar af blogginu;

Rjómalöguð sveppasósa

Páskamaturinn: Hefðbundið lambalæri með ekta rjómalagaðri sveppasósu, gulrótarturnum sousvide og blómkálsgratíni

Fyrir sósuna

250 gr sveppir
1 laukur
3 hvítlauksrif
70 gr smjör
150 ml rjóma
200 ml vatn
1 lambateningur
Allur vökvi af kjötinu
Salt og pipar eftir smekk.



Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég blogga um sveppasósur - en það er þróun í þeim hjá mér, þ.e.a.s. mér finnst ég verða betri og betri í að búa þær til og eins og ég nefndi áðan þá finnst mér það hafa mest með það að gera hvernig ég höndla sveppina og svo auðvitað soðið sem lagt er til í sósuna.


Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, Sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.

Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.




Cafe de Paris sósa
Steik með Café de Paris-sósu, bökuðum smákartöflum og aspas



Café de Paris-smjörsósuna

250 g smjör
3 hvítlauksrif
3 ansjósur
2 msk dijon-sinnep
1 msk kapers
1 tsk graslaukur
1 msk fersk steinselja
1 skalottlaukur
1 tsk Lea & Perrins Worchestershire-sósa
80 ml rjómi
1 msk tómatþykkni

Bræðið smjörið í potti við lágan hita. Setjið saxaðan hvítlauk, kapers, graslauk, steinselju og skalottlauk út í smjörið og steikið í nokkrar mínútur þangað til hráefnið er mjúkt og ilmar dásamlega. Bætið við hökkuðum ansjósum og eldið í 3-5 mínútur til viðbótar þar til ansjósurnar bráðna saman við smjörið og hverfa. Næst bætið þið við dijon-sinnepi, worchestershire-sósu og tómatþykkni og hitið að suðu. Að lokum hellið þið rjómanum yfir og hitið að suðu á nýjan leik



Madeirasósa
Gómsætar steiktar grísalundir með sveppum og seiðandi madeirasósu

Fyrir sósuna;

600 ml dökkt kjötsoð
100 ml madeira
smjörbolla (40 gr smjör/40 gr hveiti)
1 tsk soya sósa
1 tsk góð sulta
1/2 tsk Worchehestershire sósa
50 ml rjómi
salt
pipar

Útbúið þið Madeira sósuna. Fyrst hellið þið 50 ml af Madeira á pönnuna sem sveppirnir og kjötið var steikt í til að "deglaze" og ná upp öllu gúmmelaði sem varð til við steikinguna.

Hitið 600 ml af heimagerðu kjötsoði (sjá síðu 335 í Lækninum í Eldhúsinu - Tími til að njóta) eða notið teninga. Þykkið með smjörbollu (bræða smjör á pönnu, hellið hveiti saman við og hrærið í bollu) og bætið svo soðinu við. Þeytið vel á meðan. Saltið og piprið og smakkið til með sultu, soya og Worchestershire sósu.



Balsamic beurre noir
Gómsæt Grilluð nautasteik með balsamic beurre noir og bakaðri kartöflu



Fyrir sósuna

2+4 msk smjör
250 ml balsamedik
1 tsk tómatpúre
1 rauður chili
hlynsíróp eftir smekk
salt og pipar

Fyrst bræðir maður 2 msk af smjöri við lágan hita á pönnu, eftir að það byrjar að freyða set ég síðan einn niðursneiddan hvítlauksgeira og steiki áfram við lágan hita - hvítlaukurinn á ekki að brenna en mun taka smá lit af smjörinu.

Þegar smjörið hefur brúnast hellti ég 250 ml af góðu balsamikediki saman við og sauð upp. Þegar suðan var komin upp bætti ég kúfaðri teskeið af tómatpúré og einum kjarnhreinsuðum og söxuðum rauðum chilli. Hrært saman. Hitinn er lækkaður en frekar og edikinu leyft að sjóða niður um 2/3. Þá er slökkt undir og fjórum matskeiðum af smjöri hrært saman við. Saltað og piprað eftir smekk. Ef balsamikedikið er mjör súrt þarf að sæta það örlítið með sykri eða sírópi (ég þurfti þó ekki að gera slíkt - var með þokkalegt edik).



Besta Bernaise allra tíma
Côte de Boeuf "sous vide" með bestustu Bernaise sósu allra tíma!




Fyrir sósuna

8 eggjarauður
400 g smjör
2 msk ferskt estragon
2-3 msk bernaise-essens.

Bernaise essens

300 ml hvítvínsedik
4-5 greinar ferskt estragon
1 skalottulaukur
10-15 létt mulin piparkorn



Þeytið eggin yfir vatnsbaði, hafið aðra höndina á skálinni til þess að skynja hitann. Verði ykkur heitt á höndinni þá er eggjunum líka of heitt. Takið þá skálina af og þeytið vandlega til að lækka hitann.

Hvenær á svo að setja smjörið saman við? Eins og sést á myndinni hér að ofan þá er komið mikið loft í eggjarauðurnar og eggin aðeins farinn að halda sér þegar þau er þeytt, þ.e.a.s. bylgjan helst í smástund.

Þá er rétti tíminn til að bæta smjörinu við. Í þunnri bunu, þeyta vandlega á meðan þannig að smjörið þeytist inn í eggjablönduna.

Þegar sósan er orðin þykk og glæsileg er fersku estragoni bætt saman við.



Sett í pott og haldið heitu - hún þolir að bíða í um klukkustund.
Saus Poivre - Piparsósa
Hráefnalisti

2 msk saxaður skalottlaukur
1 hvítlauksrif
30 ml bolli koníak
150 ml kjötsoð
2 msk græn piparkorn
75 ml rjómi
2 tsk dijon-sinnep
salt
allur safi af kjötinu
sósujafnari (val)


Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið í smjörinu þangað til að hann er mjúkur og glansandi. Skellið piparkornunum á pönnuna og steikið í hálfa mínútu eða svo. Hellið svo koníakinu varlega á pönnunua og kveikið í því þannig að áfengið brenni upp (það er tilvalið að hafa gestina í eldhúsinu á þessu stigi, svona rétt til að monta sig!) Svo er að bæta kjötsoðinu saman við. Og svo rjómanum, og auðvitað öllum safanum sem fellur til við eldunina á kjötinu.

Bordelaise sósa
Grilluð nautalund - "chateubriand" elduð á tvennan hátt - ”sous-vide” og svo grilluð með bordelaise sósu

Fyrir sósuna

2 skallotlaukar
100 g smjör
10 mulin piparkorn

400 ml rauðvín
400 ml kálfa- eða nautasoð
2 lárviðarlauf
5 tímíangreinar
2 rósmaríngreinar
mergur úr þremur nautabeinum (u.þ.b. 75-100 g mergur)
salt og pipar



Sósan

Hellið rauðvíni í pott ásamt niðurskornum skalotlauk og piparkornum, hleypið upp suðunni og látið sjóða niður um þriðjung.
Bætið kjötsoðinu út í ásamt kryddvöndlinum (lárviðarlauf, tímían og rósmarín bundið saman í búnt) og látið krauma í 20-30 mínútur, þangað til sósan hefur þykknað lítillega (nægjanlega til að hjúpa stálskeið).
Skerið smjörið í bita og hrærið það vandlega saman við rauðvínssoðið bita fyrir bita. Saltið og piprið.
Hitið vatn í potti og skellið beinmergnum út í sjóðandi vatnið í fimm mínútur. Þrýstið svo mergnum út með fingrinum eða notið hníf til að ná honum út.
Skerið merginn í sneiðar og steikið í fjórðungi af smjörinu, þangað til hann er farinn að brúnast.
Hellið þá rauðvínssoðinu yfir og látið sjóða í stutta stund. Mergurinn mun bráðna inn í sósuna og gefa frá sér unaðslega kröftugt umami-bragð.


Bechamél sósa - grunnur að uppstúf
Ekta ítalskt lasagna frá grunni - með ríkulegri bechamél sósu!

Fyrir Béchamel-sósuna:

1½ l nýmjólk
90 g smjör
90 g hveiti
½ hvítur laukur
3-4 negulnaglar



Bræðið smjör í potti og þegar það hættir að freyða hrærið þið hveitinu saman við (hafið hugfast að þykkingarkraftur smjörbollunnar er mestur í byrjun og minnkar því meira sem bollan er elduð).

Hellið mjólkinni varlega út í og hrærið í á meðan. Ekki örvænta – béchamel-sósan er þunn í fyrstu en þegar hún sýður mun hún þykkna. Hrærið í sósunni svo hún brenni ekki við.

Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla á lágum hita í tíu mínútur til að elda burt allt hveitibragð af sósunni.

Flysjið laukinn og skerið annan helminginn frá. Stingið negulnöglunum í laukinn, leggið í sósuna og látið vera á meðan hveitibragðið er að eldast burt.


Þó að á þennan lista vanti án efa margar ljúffengar sósur, eins og espagnólsósu og velútesósu (sem eru franskar móðursósur) þá er hérna fjöldinn allur af ljúffengum sósum sem maður ætti að geta notað til að lyfta góðri máltíð ennþá hærra.