Thursday, 25 February 2016

Fertugsafmælið; Confit du canard með seljurótar, beðu og baunapúré og kirsuberjum í púrtvíni - namminamm


Það er einkennilegt að verða fertugur. Mér finnst þetta vera hálf "out of body experince" - þar sem mér finnst ég vera yngri í anda. En kannski er ég að misskilja þennan þroskaferil eitthvað, alltént er ég að vona það! Ekki að ég sé ósáttur - alls ekki! 

Ég skrifaði þetta á Fésbókina í gær!

40 ára!

Fjörutíu ár - 480 mánuðir, 2080 vikur, 14600 daga, 350400 klukkustundir, 210244000 mínútur (give or take nokkur hlaupaár) - þetta er dágóður tími hvernig sem á það er litið!

Maður er þá loksins orðin fullorðinn! Er það ekki?

Það er ágætt að líta yfir farinn veg og velta fyrir sér hverju maður hefur áorkað á þessum tíma!

Ólst upp hjá frábærum foreldrum, Lilja og Ingvar. Ég fór í leikskóla og lærði mannasiði og að blóta, eignaðist bróður, fór í grunnskóla og kynntist frábærum vinum, fór í leiklistarskóla í Ecternach, lærði dönsku og krufði þorsk. Bjó í Englandi og lærði ensku. Kom aftur heim og bar út Tímann, Þjóðviljann og seinna Moggann. Átti kött. Fór í menntaskóla - lærði meira, eldfjallaáfanga, ljóðaáfanga, indjánaáfanga, líffræði, fór til Kanada - lærði að lesa og las sögu og kynntist enn fleiri vinum. Kom heim og fór í leiklist, ritstýrði skólablaði. Kynntist ástinni, alvöru ást - Snædísi. Fór í Læknadeild og kynntist fleiri frábærum vinum og kynntist mörgum fyrirmyndum - lærði endalaust meira. Eignaðist dóttur, Valdís Eik. Varð læknir. Vann eins og hestur. Fór að blogga, eignaðist son, Vilhjálm Bjarka. Fór í framhaldsnám í Svíþjóð - lærði að vera betri læknir. Lærði hvað ég í raun kunni lítið! Varð sérfræðingur og eignast svo aðra dóttur, Ragnhildi Láru. Fór í rannsóknir, og lauk stjórnunarnámi. Eignaðist fleiri vini og gaf úr matreiðslubók, matreiðsluþátt og svo aðra matreiðslubók - kynntist ennþá fleira af frábæru fólki. Fór til Englands með fjölskylduna þar sem eiginkonan fór í framhaldsnám. Varð sérfræðingur og ráðgjafi. Birti fyrstu greinina í doktorsnáminu, er að klára þriðju matreiðslubókina. Nóg hefur verið um að vera.

Ég er þakklátur, óendanlega þakklátur. Fyrir alla sem hafa viljað vera vinir mínir, fyrir að umbera mig og þola mig fyrir bæði kosti og galla - sértaklega gallana! Og takk fyrir allar kveðjurnar á afmælisdaginn.

Ég hlakka til - að sinna verkefnum dagsins, framtíðaráskorunum, og meira að segja að flytja til Íslands. Reyna að vera góður sonur, góður vinur, betri eiginmaður og ennþá betri faðir.

Ég er vonandi að gleyma einhverju!

En við ykkur öll segi ég skál og takk!

Hlakka til að sjá ykkur á næstu dögum, vikum og mánuðum. Vona að ég verði það farsæll að upplifa meira af þeirri gleði, gæfu og ást sem ég hef fengið að njóta á þessum 40 árum.

Ég ætla að ná 47 árum í viðbót - að lágmarki!

Bon appetit!


Ég sá að sjálfsögðu um eldamennskuna í gærkvöldi í tilefni afmælisins en auðvitað voru allir í fjölskyldunni með mér í eldhúsinu og lögðu hönd á plóginn! Við höfðum rætt í skíðafríinu hvað ætti að vera í matinn og við ákváðum að hafa önd. Það er auðvitað hægt að gera þetta allt frá grunni - uppskriftina er að finna í bókunum mínum. En þar sem ég var að vinna allan daginn ákvað ég að stytta mér aðeins leið og keypti öndina í Frakklandi - hálfeldaða! Ég var, jú, hvort sem er á ferðinni í gegnum norðaustanvert Frakkland um síðastliðna helgi, þannig að það var, jú, auðsótt mál.

Fertugsveislan var fámenn en góðmenn. Auk fjölskyldumeðlima var óperan okkar á svæðinu og ég bauð vini mínum, Roger Duckitt, einnig í mat. Ætli ég muni ekki halda upp á afmælið almennilega með Snædísi þegar hún verður fertug á næsta ári. Þá getum við gert það saman. 

Fertugsafmælið; Confit du canard með seljurótar-, beðu- og baunapúré og kirsuberjum í púrtvíni - namminamm 

Fyrir átta

8 andaleggir (confit du canard)
20 kirsuber
75 ml púrtvín
seljurót
3 beður
2 dósir canneloni baunir
150 g smjör
salt og pipar



Seljurót er einstaklega ljótt grænmeti - en maður á ekki að dæma bókina eftir kápunni - seljurót er ljúffeng.


Skerið utan af henni og svo í minni bita. 


Næst eru það svo beðurnar. Séu þær ekki til taks mætti nota kartöflur í stað þeirra - eða í versta falli sleppa þeim!


Saltið grænmetið vandlega. Setjið svo pipar. Nú er það svo að hægt er að nálgast gæðasalt á Íslandi. Saltverk framleiðir úrvalssalt við Ísafjarðardjúp á Vestfjörðum. 


Þar sem ég var að spara tíma - forsauð ég vatnið í katli og hellti yfir grænmetið. Þegar það hafði soðið í 20 mínútur, og var mjúkt í gegn, blandaði ég baununum sem ég hafði skolað vandlega í vatni saman við. Sauð svo í nokkrar mínútur í viðbót.


Því næst hellti ég vatninu frá og setti ég væna klípu af smjöri saman við og leyfði því að bráðna með grænmetinu og baununum. 


Svo var bara að ná í töfrasprotann og mauka allt niður í fallegt silkimjúkt purée. Smakka til með salti og pipar. 


Veiðið andaleggina upp úr dósinni og raðið upp á ofnplötu. Setjið í 220 gráðu heitan ofn og bakið þangað til að húðin er stökk og ljúffeng. 


Setjið kirsuberin í pott og hellið púrtvíninu saman við. Sjóðið vínið upp og látið krauma þangað til að það hefur soðið nærri því alveg upp.


Það er fátt sem er girnilegra en Confit du canard. Lúngamjúkt andakjötið með stökkri húðinni. 

Berið fram með ljúffengu Pinot Noir, til dæmis Montes Pinot Noir Limited Selection frá því 2012 Þetta er vín sem er framleitt í Chile í Valle de Casablanca í Aconcagua héraðinu. Fallega rautt - næstum gegnsætt í glasi eins og Pinot Noir vill vera, ilmar af sætum berjum og með léttum kirsuberjakeim og tannínríku eftirbragði. Þetta er kjörið vín til að hafa með Confit du Canard.


Svo er bara að raða þessu upp á disk og njóta. 

Það er kannski ekki svo slæmt að verða fertugur. Það er nóg af spennndi áskorunum framundan. Þriðja bókin mín fer í prentun á næstu vikum og ég hlakka mikið til að sýna ykkur hana! 

Skál og bon appetit! 

Sunday, 7 February 2016

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

Lífið á lágkolvetnamatarræði gengur vel og það fer vel í mig, eins og raunar flesta sem það prófa. Það verður þó að viðurkennast að ég sakna brauðs og kartaflna - mun meira en bjórsins - furðulegt nokk! En það er samt auðvelt að sneiða framhjá því og velja sér eitthvað annað meðlæti - ég held að ég hafi t.d. aldrei borðað eins mikið salat og ég hef gert síðustu vikurnar. 

Svo eru það sunnudagsmorgnarnir. Síðastliðnar vikur hef ég farið til slátrarans á laugardögum og keypt helgarsteikina sem og laumað með nokkrum pylsum, stundum Cumberland pylsum, stundum með eplum - alltaf einstaklega ljúffengar!

Svo hef ég líka verið að smakka ólíkar blóðpylsur - bloodsausage eða boudin noir - sem eru einstaklega bragðgóðar. Talsvert ólík blóðmörinni íslensku sökum þess hvernig krydd eru sett í þær. Vissulega er notað smá mjöl í pylsurnar en það ætti ekki að koma að sök þar sem maður fær sér yfir leitt bara lítinn bita. 

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

Þessi færsla er í raun engin uppskrift - heldur meira svona frásögn af hvernig sunnudagarnir hafa litið út á mínu heimili þegar við setjumst við morgunverðarborðið. 


Pylsurnar er best að steikja á lágum hita og taka sér nægan tíma.


Þegar búið er að brúna þær að utan er þeim skellt inn í ofn í um hálftíma á meðan maður sinnir restinni af morgunverðinum. 


Það eru alltaf sveppir með enskum morgunverði og svo steiktur tómatur. 


Baunirnar eru eiginlega brot á LKL reglunum en ég keypti dós sem var sykurskert og var einvörðungu með 9 g af kolvetnum fyrir hver 100 g af baunum. Ég lét mér nægja smá sýnishorn.


Eggin eru steikt í miklu smjöri! Smjör - ég elska smjör! Ég rétt brúna smjörið lítillega - beurre noisette - þá fær það smá hnetukeim áður en maður setur eggin á pönnuna. Svo er um að gera að ausa smjörinu yfir eggin á meðan þau eldast.



Svo er bara að segja gjörið þið svo vel! 

Dagurinn getur ekki orðið annað en góður!