Sunday, 31 January 2016

Côte de Boeuf "sous vide" með bestustu Bernaise sósu allra tíma!


Vá, hvað það er mikið um að vera þessa dagana. Vinnan er í fullum gangi og mikið framundan af verkefnum. Við erum í óðaönn að reyna að vinna á biðlistum svo við getum komið vinnunni okkar á eðlilegt ról og með ásættanlegu flæði sjúklinga með takmörkuðum biðtímum. Mín vinna er fólgin í að raða sjúklingum í forgangsröð, skipuleggja leið þeirra í gegnum kerfið og taka svo við sjúklingunum, ásamt kollegum mínum. Við fengum fjárveitingu til að kaupa nýtt handhægt ómtæki sem er ómetanlegt við að greina sjúklinga með stoðkerfisvandamál. 

Svo erum við líka að undirbúa flutning heim til Íslands. Við erum að skoða húsnæði í Reykjavík, ættingjar okkar eru svo dásamlegir að fara á milli húsa og sýna okkur hús í gegnum Skype. Við erum að vinna í að setja húsið okkar í Lundi á sölu - ætli það gerist ekki í næstu viku líka. Svo er ég að vinna í að setja upp stofu í Reykjavík sem verður í Klíníkinni í Ármúla. Það er óhætt að segja að þar sé glæsilegasti húsakostur fyrir móttöku sjúklinga á Íslandi. Þarna verðum við með móttöku fyrir fólk með fjölþætta stoðkerfis- og gigtarsjúkdóma og ég verð í náinni samvinnu við Hjálmar Þorsteinsson bæklunarlækni, sem og sjúkraþjálfarana hjá Gáska. Við sjáum einnig fyrir okkur að hafa sálfræðinga innan seilingar svo hægt verði að nálgast þessi vandamál á sem heilstæðastan hátt. 

Svo verð ég einnig að vinna á Landspítalanum og hef þar störf þar á haustmánuðum, ef allt fer eins og horfir. Hlakka til að bætast í hóp vaskra lækna og hjúkrunarfólks í almennu lyflækningunum og vinna með vinum mínum á gigtardeildinni. Þar starfar einvala lið fólks sem sinnir gigtveikum Íslendingum - þegar ég var í heimsókn nýverið fékk ég að sjá göngudeildina þar sem gigtveikir koma til meðferðar - leit afar vel út. 

Svo mun Læknirinn í Eldhúsinu ekki slá slöku við. Það mun koma ný bók í vor sem við erum að ljúka við núna - hlakka til að sýna ykkur hana! Svo er ég með fullt af öðrum hugmyndum sem mig langar til að hrinda í framkvæmd! Er að vinna í að gera þær að raunveruleika! 

Côte de Boeuf "sous vide" með bestustu Bernaise sósu allra tíma!



Côte de Beouf er biti af nautakjöti sem flestir þekkja, ribeye, nema hvað bitinn er umtalsvert þykkari og svo er hann ennþá á beininu - þ.e.a.s. að rifið er ekki skorið frá. Það gefur bitanum sérlega girnilegt útlit. 

Svo held ég að ég sé búinn að fullkomna bernaisesósu gerðina - þetta er ferli sem hefur tekið mig langan tíma að vinna. Og það er merkilegt hvað ein breyting getur verið afdrifarík. Þangað til í gærkvöldi hef ég ávallt bætt heimagerða bernaise essensnum í sósuna í lokin, sem hefur þynnt hana lítillega - ég hef stundum náð að bjarga því með að setja hana aftur yfir hitann og þykkt hana aftur - en það hefur ekki alltaf heppnast. Núna hinsvegar, varð hún fullkomin - I am not kidding! Fullkomin. Algerlega fullkomin ... lesið áfram. 

Hráefnalisti

Fyrir 6-8

2 Côte de Beouf steikur (ca. 750 g)
Salt & pipar
jómfrúarolía
smjör
ferskt timjan
ferskt rósmarín

Fyrir sósuna

8 eggjarauður
400 g smjör
2 msk ferskt estragon 
2-3 msk bernaise-essens.

Bernaise essens.

300 ml hvítvínsedik 
4-5 greinar ferskt estragon
1 skalottulaukur
10-15 létt mulin piparkorn.



Byrjið á því að nudda kjötið með jómfrúarolíu og pipra það rækilega. Ekki setja neitt salt á þessu stigi þar sem það mun bara draga vökva úr kjötinu. Setjið síðan handfylli af ferskum kryddjurtum utan um kjötið, klípu af smjöri og setjið svo í vakúmpoka. Vakúmpakkið. 


Setjið í vatnsbað, við 56 gráður í tvær til þrjár klukkustundir. Fyrir þá sem ekki eiga sous vide hitajafnara en hafa áhuga á því að kynna sér þetta þá er hægt að lesa nánar hérna. Fyrir þá sem hafa síðan áhuga á því að kaupa svona tæki - þá ætti það að vera einfalt mál - skella sér niður í Kokku og tjékka á Sansaire


Auðvitað er hægt að kaupa bernaise essens út í búð en það er ekki það sama og að gera hann sjálfur.
Setjið hvítvínsedikið, ferska estragonið, laukinn og léttmulinn pipar (svo að olíurnar í piparkorninu sleppi út).


Hitið að suðu, lækkið hitann og látið sjóða niður þannig að einvörðungu eru eftir tvær til fjórar msk af essens - bragðbæti. Síið og setjið til hliðar.


Næst er að skíra (e. clarify) smjörið. Setjið smjörið í pott og bræðið þannig að mjólkurpróteinin skilji sig frá fitunni. Fleytið mjólkurpróteinin svo ofan af fitunni. 


Setjið svo smjörið til hliðar. Það á ekki að vera brennandi heitt þegar því er hrært saman við eggin. 



Þá er að huga að eggjunum. Þeytið þau saman við tvær msk af bragðbætinum og setjið svo eggin yfir vatnsbað. Þetta er breyting frá því sem ég gerði áður - þá setti ég bragðbætin út í í lokin. Þetta er miklu betra. 


Þeytið eggin yfir vatnsbaði, hafið aðra höndina á skálinni til þess að skynja hitann. Verði ykkur heitt á höndinni þá er eggjunum líka of heitt. Takið þá skálina af og þeytið vandlega til að lækka hitann. 

Hvenær á svo að setja smjörið saman við? Eins og sést á myndinni hér að ofan þá er komið mikið loft í eggjarauðurnar og eggin aðeins farinn að halda sér þegar þau er þeytt, þ.e.a.s. bylgjan helst í smástund. 



Þá er rétti tíminn til að bæta smjörinu við. Í þunnri bunu, þeyta vandlega á meðan þannig að smjörið þeytist inn í eggjablönduna.



Þegar sósan er orðin þykk og glæsileg er fersku estragoni bætt saman við.


Sett í pott og haldið heitu - hún þolir að bíða í um klukkustund. 

Hnausþykk og dásamleg - þetta er nánast matarklám!


Takið kjötið úr plastpokunum og þerrið bitana. Saltið og piprið. 


Steikið svo kjötið að utan í nógu af smjöri. 


Þessi er bara svona auka!


Kjöt sem er eldað með sous vide aðferð þarf ekki að hvíla eins og kjöt sem er eldað á pönnu eða í heitum ofni. Það er tilbúið um leið og það kemur af pönnunni. 



Svo er bara að skera kjötið í fallegar sneiðar. 


Og þegar ég segi fullkomlega eldað - þá segir þessi mynd meira en þúsund orð. Fullkomlega bráðnaði í munni. 


Með matnum gerðum við meðal annars þetta einfalda salat með blönduðum saman grænum laufum, tómötum, lauk, rauðbeðum, bláberjum og fetaosti.



Með matnum vorum við með vín sem er alger konfektmoli. Það var togaður tappi úr Masi Costasera Amarone frá því 2010. Þetta er ítalskt vín frá Veneto sem er svæðið í kringum Feneyjar. Þetta er heljarinnar vín. Fallega djúpur rauður litur, þétt á bragðið með kryddum, ávöxtum, eik og súkkulaði.
Langt og mikið eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir.


Bon appetít - Þetta var sko tími til að njóta!


2 comments:

  1. Ég bjó sósuna til, reyndar með búðaressens. Allir sammála um að hún væri æðislega góð. Reyndar bjó ég fyrst til lögun með heimatilbúna essensinum en þurfti að henda þeirri lögun. Það var mjög mikið edikbragð af heimatilbúna essensinum, veistu hvers vegna það getur verið?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Katrín

      Galdurinn við heimatilbúinn essens er að velja edikið vel og svo sjóða það hægt niður þannig að það sjúgi í sig sykrurnar í lauknum sem þannig mildar edikbragðið.

      mbk,
      Ragnar

      Delete