Sunday, 19 April 2015

Kræklingur að hætti Villa og Sous vide andabringur l'orange með appelsínusósu

Það var efnt til veislu nú um helgina hérna á heimilinu - ekkert stórt, bara við heimilisfólkið - í tilefni þess að konan mín, Snædís, var að hætta í vinnunni sinni og stefnir á frekara nám í haust. Hún er á leiðinni í næstu viku  í viðtal í Brighton, þar sem hún er að sækja um framhaldsnám í sálfræði. Ef allt gengur eftir (geri ráð fyrir því þar sem að hún er frábær!) þá flytjum við okkur um set á meðan á náminu stendur. Ég er búinn að fá leyfi frá gigtardeildinni, við erum að leita að húsnæði og skóla fyrir börnin. Allt á fullu og allir fullir eftirvæntingar. 

Það var því ljóst að þessu bæri að fagna. Villi vildi ólmur hafa krækling í matinn og úr varð að hann fékk að elda hann í forrétt. Ekki að mér finnist kræklingur og andabringur passa neitt sérstaklega vel saman - bara strákurinn var svo á því að fá krækling að það var ekki hægt að neita honum. 

Ætli andabringur séu ekki uppáhalds á þessu heimili. Alltént er það alltaf ofarlega á blaði þegar ég vil gera Snædísi glaða. Og það er einfalt að elda andabringu á þennan hátt - sous vide. Hægt er að lesa talsvert um sögu sous vide á þessari síðu hjá mér. Í örstuttu máli byggir þetta á því að elda hráefnið í vakúmpoka við nákvæmt hitastig til að niðurstaðan verði "fullkomin"! 

Kræklingur að hætti Villa og Sous vide andabringur l'orange með appelsínusósu 

Fyrir kræklingin

1 kg fersk bláskel
2 skarlottulaukar
3 hvítlauksrif
1 hvítvínsglas
50 g smjör
Salt og pipar
Baguetta (val)

Fyrir andabringurnar

2 andabringur (700 gr)
1 appelsína
Góð jómfrúarolía
Ferskt rósmarín
Pipar

Appelsínusósa

2 skarlottulaukar
3 hvítlauksrif
Börkur af hálfri appelsínu
4-5 bitar fersk appelsína
500 ml anda/kjúklingasoð
1/2 glas hvítvín
30 gr smjör
Smjörbolla eða maizenamjöl til þykkingar
Allur vökvi af öndinni
Salt og pipar


Skerið laukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn niður smátt. 


Skolið kræklinginn undir köldu vatni og hreinsið skeljarnar, hendið brotnum eða opnum skeljum. Ef skeljarnar eru örlítið opnar - bankið þeim aðeins í borðið. Ef þær lokast aftur eru þær ætar - annars hendið þeim líka. 


Hitið pönnuna vel, bræðið smjörið og steikið laukinn, hvítlaukinn og chilið þangað til að það er mjúkt og ilmar vel. Hellið þá kræklingum á pönnuna og blandið honum vel saman við. 


Hellið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. 


Setjið í skál og skreytið með ferskri steinselju! Einbeitingin var alger hjá Villa! Og niðurstaðan ljúffeng! 


Að mínu mati þarf ekki mikið af önd á mann þar sem hún er gjarnan feit og fólk verður fljótt mett. Ég miða við 200 grömm á manninn. Skar sætar appelsínurnar niður í sneiðar. 


Annars keypti ég þennan pipar um daginn. Þetta er kampot-pipar frá Kambódíu sem margir matgæðingar kalla besta pipar í heimi! Hann er einstaklega ljúffengur en ekkert sérstaklega vinsamlegur við budduna. En ég varð að prófa þar sem ég er algjör piparfíkill! Og þetta var alveg þess virði. Hérna er hlekkur á skemmtilega umfjöllun um þetta ljúffenga krydd! 

Ég keypti piparinn á amazon og fékk hann heimsendan. Það er hægt að finna allt á netinu. Hér er hlekkurinn - Genuine Kampot Black Pepper Gourmet Pepper whole Peppercorns


Rósmarínið mitt virðist hafa lifað af veturinn hér á Skáni. Eigi maður ekki ferskt þá er í góðu lagi að nota þurrkað. 


Svo var þessu bara raðað saman í poka, vel piprað með nýmuldum kampot-pipar, rósmaríni, jómfrúarolíu og appelsínusneiðum. Vakúmpakkað og sett í vatnsbaðið. 


Þó að það standi 52 gráður á myndinni þá var tækið stillt á 56 gráður - myndin var tekin þegar tækið var að hita vatnsbaðið. Það sýnir alltaf raunhitastigið á vatninu. Núna er sansaire til sölu á Íslandi og fæst í Kokku á Laugaveginum. 


Þessi dásamlega kona leit við í eldhúsinu og skálaði við mig í kampavíni! 


Skóf börkinn af appelsínunni og skar laukinn og hvítlaukinn smátt niður. 


Steikti laukana og appelsínubörkinn í smjöri þangað til mjúkt og fallegt. 


Næst bætti ég appelsínum saman við og steikti í nokkrar mínútur. Bætti síðan hvítivíni saman við - sauð upp áfengið. Bætti svo soðinu saman við og sauð það niður um helming. Síaði soðið og þykkti með smjörbollu. Bætti svo öllum vökvanum af öndinni saman við og sauð upp. Smakkaði til með salti og pipar. Bætti smá smjöri við sósuna til að fá fallegan gljáa á hana. 


Skar í fituna til þess að opna hana og nuddaði salti inn í fituna.


Steikti í tvær til þrjár mínútur til að fá öndina vel stökka. 


Svo bara þrjátíu sekúndur á hinni hliðinni. 


Með matnum gæddum við okkur á þessu ljúffenga víni frá Búrgúndí í Frakklandi. Bouchard Aine & Fils Mercurey Premier Cru "Clos L'Eveque" frá því 2012. Þetta er vín unnið úr Pinot Noir þrúgunni. Fallega rúbinrautt í glasi, hálfgegnsætt eins og oft með Pinot vín. Fíngerður og ljúfur ilmur af ávexti með kröftugu bragði, létt eikað jafnvel! Frábært! 


Veislan heldur áfram!

5 comments:

  1. Hæhæ. Þetta hljómar alveg óstjórnlega girnilegt. Mig langar að forvitnast hvað öndin er lengi í vatnsbaði? Ég virðist ekki sjá tíman ef þú hefur sett hann inn. Fyrir framm þakkir. J

    ReplyDelete
    Replies
    1. Öndin þarf 1,5-2 tíma eftir þykktinni!
      Bon appetit!
      Ragnar

      Delete
  2. Green Gecko is an exclusive villa situated on a vast nation home, encompassed by forests, estates and rice paddies in the core of Thailand's provincial upper east, almost a town called Udon Thani. Free airport exchanges were orchestrated from the airport, which is open by means of a 50 minute departure from Bangkok on Thai Airways, or spending carriers Nok Air or Air Asia.Hotels near centerville iowa

    ReplyDelete
  3. A jacuzzi, shower, full kitchen, overhang and lavish stimulation focus should all be standard on the villa. The villa ought to likewise be staffed all day and all night by learned individuals who can get ready dinners and do different tasks.Pittsburg ks hotels

    ReplyDelete
  4. Murcia additionally gets unfathomably sweltering in the late spring, so holidaymakers like to have the option to chill off. https://yes-mallorca-property.com

    ReplyDelete