Nú höfum við fjölskyldan verið grænmetisætur í einn mánuð. Ástæða þess að við ákváðum að prófa þetta var helst að breyta til og sjá hvort við gætum eldað jafngóðan mat og við höfum vanist. Og það var ekkert mál. Og það sem kom mér mest á óvart var að ég saknaði varla kjötsins. En kannski fór ég líka einföldu leiðina og notaði talsvert mikið af pasta, hrísgrjónum og baunum til að setja í stað kjötsins. En gott var það!
Í þessum mánuði hef ég deilt nokkrum uppskriftum með ykkur. Þessi flatbökuveisla var alveg frábær! Við vorum ákaflega hrifin af þessum fylltu sveppum. Fyrir þá sem eru hrifnir af tacó, þá er kjötlaus útgáfa hérna! Þessi fylltu crepes voru alveg ótrúlega góðar! Ég trúði því varla hversu ljúffengt hægt var að gera chili sin carne, algerlega án kjöts! Og svo var Sveppa-stroganoff alveg gómsætt!
En við gerðum líka rétti sem ég hef bloggað um áður, eins og þetta ljúffenga grænmetislasagna. Hvítlauksspaghetti með eggi og truffluolíu svíkur náttúrulega engan - þetta var jafnframt fyrsta færslan sem ég bloggaði um hér um árið! Við gerðum líka nokkra karrírétti, eins og þennan með blómkáli og kúrbít. Eða petit pois súpu, já, og svo þessa með eggaldini og tómat. Það er af nógu að taka!
Ætli lærdómur þessa mánaðar verði ekki til þess að ég muni gefa grænmeti stærri sess í eldhúsinu mínu. Og það er mikilvægt þar sem grænmeti er hollt og mikilvægast af öllu, gott! Það er haft eftir Michael Pollan, þekktum matarskríbent, að lykillinn að hollustunni er "að borða mat, alvöru mat, ekki of mikið, helst grænmeti". Og ég held bara að hann hafi mikið til síns máls.
Grænmetismánuður að baki! Ljúffengir dagar!
Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvaða matreiðslubækur ég hef haft innan handar síðustu vikurnar til að sækja mér innblástur. Hér er listi yfir þær:
Þið þurfið bara að smella á myndina og hún mun færa ykkur í vefverslunina amazon.co.uk.
Eftir Hugh Fearnley Wittingstall - eiginlega skyldueign:
Frá Ottolenghi - fyrsta bókin hans inniheldur líka kjötrétti en mikil áhersla lögð á grænmetisrétti. Plenty og Plenty more státa einvörðungu grænmetisréttum.
Þessar fínur bækur eftir Simon Rimmer - sem mér fannst frábærar. Simon er kjötæta sem rekur grænmetisveitingastað. Gjarnan kallaður "Jamie Oliver grænmetisfæðis".
Frá Önnu Jones - þetta er svona "hip" matreiðslubók. Margar skemmtilegar uppskrftir. Meðal annars af frábæru chili sem ég prófaði að elda, sjá hérna!
Frá Söru Brown - hversu "complete" þessi bók er ætla ég ekki að fullyrða en þarna er að finna fíneríis uppskriftir.
Frá Sally Butcher - fyrir þá sem vilja keim af broddkúmeni og Miðausturlöndum í eldhúsið sitt.
Allt góðir titlar - verðugir í bókasafnið mitt, og kannski ykkar!
Veislan er endalaus!
No comments:
Post a Comment