Sunday, 11 January 2015

Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

Líf grænmetisætunnar heldur áfram. Nú erum við búin að borða grænmetismat í vikutíma og það er auðveldara en mörg kjötætan myndi halda. Ein vika er náttúrulega ekki langur tími! Ég þekki nógu margar uppskriftir til að hafa getið klárað fyrstu viku án þess að rembast mikið en mig grunar að það komi fljótlega að leiðarenda. Sjáum hvað setur.

Á föstudagskvöldum er gjarnan elduð flatbaka, hamborgarar grillaðir eða að við gerum tacó. Nú ákváðum við að gera það síðastnefnda - sem er í miklu uppáhaldi hjá börnunum. Þau eru svo sannarlega með okkur í liði í grænmetisveislunni. Villi ætlar meira að segja að óska eftir grænmetismat í hádeginu í skólanum sínum og ég held að Valdís ætli að gera það líka. Ragga Lára  fær auðvitað það sem hún vill!

Og þetta er fljótlegur matur - eitthvað sem er ljómandi á föstudagskvöldi þegar maður er þreyttur eftir vinnuvikuna.

Tacóveisla - heimagert guacamole, steiktar nýrnabaunir og heitar kjúklingabaunir og fullt af grænmeti

Byrjum á guacamóle-inu.

2 þroskuð avacadó
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
safi úr hálfu lime
1 tómatur
handfylli af kóríander
salt og pipar




Byrjið á því að opna avakadóið og veiða steininn úr. Leggið avókadóið á brettið - skerið í það og snúið því svo í hring. Höggvið svo varlega í steininn með hnífnum og snúið - þannig losnar steinninn auðveldlega frá. 


Setjið tómatinn, hálfan kjarnhreinsaðan chili, hálfan lauk, hvítlauksrifin og svo tvö avókadó í matvinnsluvél. Bætið við safa úr hálfri límónu.


Setjið handfylli af kóríander saman við. 


Maukið rækilega með sprotanum. 


Smakkið til með salti og pipar! 


Namminamm!

Næst er að vinda sér í steiktu baunirnar (Refried beans).

50 g smjör
1 dós svartar nýrnabaunir
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1 tsk kóríander
1 tsk broddkúmen


Setjið eina teskeið af broddkúmeni og kóríander í mortél og lemjið rækilega, þannig að úr verði fínt duft. 


Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til að hann er mjúkur og ilmar. Bætið þá við nýrnabaununum og steikið í stutta stund. Bætið kryddinu saman við.


Maukið baunirnar með spaða og steikið áfram í nokkrar mínútur. 


Delish! 

Lokahnykkurinn eftir. Spæsí kjúklingabaunir! 

1 dós kjúklingabaunir
1 tsk broddkúmen
1 tsk kóríander
hnífsoddur cheyenne
1 tsk paprikuduft
2 tsk tómatpúre
1 msk jómfrúarolía
basil og kóríander til skreytingar


Hitið jómfrúarolíuna á pönnu og skellið svo kjúklingabaununum út á. Bætið muldum kóríander, broddkúmeni og papríkudufti saman við. Steikið um stund. 


Setjið svo cheyenne pipar saman við ásamt tómatpúreinu. Steikið áfram þangað til að baunirnar eru eldaðar í gegn.


Berið fram með límónu og skreytið með blöndu af basil og kóríander. 


Svo vorum við líka með heilmikið af fersku grænmeti; papríkur, iceberg salat, rauðlauk, agúrku, tómata og svo maísbaunir. 


Með matnum drukkum við svo þetta vín sem var nýverið að fá "bestu kaupin" stimpil frá Vinótek. Þetta vín er líka á góðu verði í Svíþjóð.  Þetta er La Baume la Jeunesse Syrah frá því 2013 og er frá Languedoc í Frakklandi. Þetta er eins og kemur fram í titlinu Syrah vín. Þetta er þurrt rauðvín með ágætri fyllingu með góðri berjasætu. Ljómandi sopi.

Líf grænmetisætunnar heldur áfram! 

No comments:

Post a Comment