Árið er senn á enda, 2014, hvert fórstu eiginlega? Þetta hefur sannarlega verið viðburðarríkt ár hjá mér og mínum nánustu. Við höfum ferðast heilmikið - Byrjuðum í janúar á Íslandi í tilefni fertugs afmælis Kolbrúnar mágkonu minnar. Fórum í árlega skíðaferð til St. Michael í Austurríki. Við hjónin brugðum okkur til Englands snemma vors til vina okkar og áttum saman frábæra helgi í Brighton. Börnin fóru til Íslands í sumar og dvöldu um tíma og svo fórum við öll stórfjölskyldan í ferð um Þýskaland, Póllands, Tékklands og Austurríkis í lok júlí. Við áttum viku á Íslandi í haustfríi skólans og svo fór ég á ráðstefnu í Boston auk nokkurra ferða til Íslands í tilefni bókaútgáfunnar.
Og þetta hefur verið afkastamikið ár. Á milli 5. janúar og 15. júni eldaði ég og skrifaði Veisluna endalausu auk þess að taka upp sjónvarpsþætti fyrir Skjáinn sem voru sýndir í vor. Læknisstarfið var líka sérstaklega gefandi með mörgum skemmtilegum og krefjandi verkefnum! Ég mun seint gleyma þessu skemmtilega ári!
Í kvöld erum við svo með góða gesti í mat. Tengdafaðir minn, Eddi og sambýliskona hans Dóróthea eru hjá okkur yfir áramótin ásamt bróður mínum. Svo koma útgefendurnir mínir, Tommi og Anna Margrét ásamt drengjunum sínum og borða og skála með okkur. Ég ætla að hafa þennan "old school" forrétt auk þess að vera með nýja útgáfu af Wellington buffi!
Rækjukokteill - aftur til framtíðar - áramótin 2014!
Eiga ekki flestir óljósar minningar um að hafa borðað rækjukokteil einhvern tíma í gamla daga? Ég man alltént eftir því sem barn og unglingur að hafa borðað rækjukokteil í forrétt margoft. Ætli margir deili ekki þessari minningu? Svo hvarf rækjukokkteillinn og varla hefur til hans spurst síðan – og liðinn er aldarfjórðungur.
Ætli fólk hafi ekki bara borðað yfir sig og fengið nóg? Ég held samt að það sé kominn tími til að endurvekja þennan rómaða rétt og hefja hann á stall og af hverju ekki? Rækjur eru góðar, majónes er gott – svo hvað getur klikkað?
Fyrir fjóra
50 g tómatsósa
50 g majónes
cheyenne-pipar á hnífsoddi
safi úr 1/4 sítrónu
jöklasalat í botn glasanna
1/2 lárpera, skorin í teninga
6 tsk fersk laxahrogn
1. Blandið saman rækjum, tómatsósu, majónesi, sítrónusafa og
cheyenne-pipar.
2. Saxið kál og lárperu og setjið í botn glass fyrir hvern og einn. Setjið rækjukokteilinn ofan á.
3. Skreytið með einni teskeið af laxahrognum (eða rauðum kavíar).
Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem er að líða!
No comments:
Post a Comment