Jólin nálgast óðfluga, engin fer varhluta af því. Og þá er ágætt að geta sett saman ljúffenga kvöldmáltíð á stuttum tíma. Og þessi súpa er bæði fljótleg, holl en það mikilvægasta er að hún er alveg ótrúlega ljúffeng. Uppskriftin byggir á einum uppáhaldspastaréttinum mínum, sem er sérlega ljúffengur - kíkið endilega á uppskriftina hérna!
Þessi súpa byggir á tveimur grundvallarhráefnum - tómötum og kjúklingasoði. Best er auðvitað að nota heimagert kjúklingasoð en í versta falli má auðvitað nota tenging! Svo er gott að bera svona súpu fram með góðu heimagerðu brauði, kannski foccacia eins og í þessari ljúffengu uppskrift!
Dúndur tómatsúpa með ofnristuðum tómötum, smá rjómafloti, basil og rauðvínstári í vetrarmyrkrinu
Fyrir fjóra til sex
2 kg tómatar
6 hvítlauksrif
50 ml ólífuolía
salt og pipar
1,5 l kjúklingasoð
1-2 msk soyasósa
1 msk Worchestershire sósa
Skerið tómatana í grófa bita og setjið í eldfast mót.
Skerið síðan hvítlauksrifin eins smátt og þið getið. Setjið með tómötunum.
Hellið jómfrúarolíu yfir tómatana, saltið og piprið og hrærið vel saman.
Ég átti kjúklingasoð inn í frysti sem ég sauð svo upp með dálitlu af vatni.
Hitið síðan ofninn á fullt með grillið í gangi. Grillið tómatana í tvær til þrjár mínútur, hrærið í tómötunum og grillið áfram þangað til að það fer að sjóða í tómötunum.
Setjið tómatana í pottinn með kjúklingasoðinu og blandið saman með töfrasprota.
Látið svo súpuna krauma í 15 mínútur, smakkið til með salti og pipar. Ef þarf bætið við soyasósu og jafnvel worchestershiresósu!
Með matnum prófuðum við hjónin þetta ljúffenga rauðvín frá Chile. Þetta er vín frá Concha y toro (sem framleiðir Sunrise vínin sem margir þekkja). Þetta vín er frá Rapel dalnum, þrúgurnar munu vera handtíndar og vínið fær að vera á tunnu í 17 mánuði. Þrúgan, Carmenere, er ein sú algengasta í Chile. Þetta er kraftmikið vín, mikið berjabragð og gott eikað eftirbragð!
Hellið súpunni í skál, setjið örlítið af góðri jómfrúarolíu í súpuna, sprautið dálitlu af rjóma út á súpuna (sjá mynd) og skreytið með smátt skornu basil.
Ljúffeng! Sérlega ljúffeng!
Veislan er rétt að hefjast.
No comments:
Post a Comment