Þó að rétturinn kallist Kjúklingur frá Kænugarði (Chicken Kiev) þá á þessi réttur sennilega uppruna sinn að rekja til Frakklands. Ætli fyrirmyndin sé ekki hinn frægi réttur - Cordon bleu - þar sem kjöti (einna helst kálfakjöti) er vafið utan um ost og skinku og pakkað inn í brauðmylsnu og steikt. Rússneski aðallinn bæði réð franska kokka og sendi rússneska kokka til Frakklands í nám og er talið að uppskriftin hafi borist með þeim hætti til Rússlands hér á árum áður.
Þessi réttur er þó frábrugðin að því leyti að notast er við kjúkling (sem skýrir, jú, nafnið) og svo er bita af hvítlaukssmjöri komið fyrir í bringunni áður en hún er hjúpuð brauðmylsnu. Þessi réttur var ákaflega vinsæll réttur á veitingastöðum á áttunda áratugnum. Örlög hans voru þó ráðin þegar Marks and Spencer byrjaði að fjöldaframleiða þennan rétt og selja í búðum sínum. Þar með dó þessi réttur og féll í gleymskunnar dá!
En það er kannski kominn tími til að rifja hann upp aftur - þar sem hann getur ekki verið annað en ljúffengur. Hvernig er annars hægt að klúðra þessu - hann er, jú, fylltur með hvítlaukssmjöri. Þetta getur ekki verið annað en dásamlegt.
Kjúklingabringur frá Kænugarði með steinseljubættri kartöflumús og blönduðum tómötum
Fyrir sex
6 kjúklingabringur
100 g smjör
2 msk steinselja
1/2 rauður chili
4 hvítlauksrif
salt og pipar
hveiti
3 egg
brauðmylsna
hvítlaukssalt og pipar
1 kg kartöflur
75 g smjör
3 msk hvítlauksolía
handfylli steinselja
75 ml mjólk
salt og pipar
Byrjið á því að útbúa hvítlaukssmjörið. Blandið hvítlauknum, steinseljuni, chili-inu, salti og pipar saman við mjúkt smjörið.
Setjið svo smjörið á álpappír.
Og vefjið upp í karamellu. Setjið í frysti í hálftíma.
Takið síðan kjúklingabringurnar og skerið lítinn poka inn í þykkasta hluta bringunnar.
Troðið síðan vænni sneið af smjöri inn í pokann.
Leggið síðan "file-ið (litla bitann sem hangir með bringunni)" yfir sárið.
Veltið upp úr bragðbættu hveiti, dustið það sem er umfram af og leggið í eggin.
Veltið síðan upp úr bragðbættu brauðraspi.
Auðvelt - ekki satt?
Hitið olíu upp að 150 gráðum í pönnu og steikið bringurnar í tvær mínútur á hvorri hlið. Það þarf mikið af olíu því hér er nánast um djúpsteikingu að ræða (ágætt að miða við tvo sentimetra).
Setjið í eldfast mót og bakið við 180 gráður í 10-12 mínútur.
Flysjið og sjóðið kartöflurnar í söltuðu vatni. Hellið vatninu frá og stappið smjörið, hvítlauksolíuna, mjólkina, saltið, piparinn og steinseljuna saman við.
Skreytið með smáræði af steinselju.
Með matnum drukkum við þetta dásemdar vín. Þetta er Baron de Ley Reserva frá 2009. Þetta er spænskt rauðvín gert úr 100% tempranillo þrúgum. Þetta er frábært rauðvín - ávaxtaríkt með góðu jafnvægi og löngu og mjúku eftirbragði.
Girnilegt! Kjúklingurinn lungamjúkur.
Svo er bara að raða upp á disk. Kartöflumús, kjúklingabringa og blandaðir tómatar. Alger veislumáltíð.
Það eru síðan fjöldinn allur af veislumáltíðum í þessari bók sem mun koma út um næstu mánaðarmót!
Veislan endalausa!
No comments:
Post a Comment