Tuesday, 28 October 2014

Íslandsferð; lambafile í kjósinni með dásamlegri rjómasveppasósu Blöndals og djúpsteiktar strengjakartöflur


Jæja, þá erum við komin til landsins. Nýtt ár, ný bók - fjörið er rétt að byrja! Og nú er öll fjölskyldan með í för ólíkt því sem var í fyrra þar sem ég var bara einn á ferð. Mér finnst sérstaklega gott að hafa alla með - þetta verður einhvern veginn raunverulegra með fjölskylduna með í leiðangrinum. Þá fá þau líka að vera með í uppskerunni. Þau tóku svo sannarlega þátt í vinnunni með mér - sérstaklega ástin mín, Snædís, sem virðist hafa óbilandi þolinmæði gagnvart uppátækjum mínum (þó setti hún mér stólinn fyrir dyrnar nú um daginn þegar ég var að ræða um að fara útbúa viðarofn útí garði!)

Og það er spennandi vika framundan. Auðvitað ætlum við að hitta vini og ættingja, fara í sund, elda og borða góðan mat, skála með góðum vinum með góðum vínum en að sjálfsögðu verður líka allt sett í útgáfuveisluna sem verður nú á föstudaginn 31. október 2014 klukkan 17.00-19.00 í Eymundsson, Skólavörðustíg. Við verðum með léttar veitingar - og eins og áður þá eru allir velkomnir! 

Við fórum beint í sumarbústað foreldra minna við Meðalfellsvatn í Kjós og áttum saman frábært kvöld í dásamlegu köldu, íslensku haustveðri. Elduðum ljúfa máltíð og fórum svo í pottinn. Ég vonaðist eftir norðurljósum, sem ekki sýndu sig, en fengum stjörnubjarta kvöldstund. Dásamlegt - nú má, sko, fjörið hefjast! 

Íslandsferð; lambafile í kjósinni með dásamlegri rjómasveppasósu Blöndals og djúpsteiktar strengjakartöflur

Já - aðeins um þessa sveppasósu. Ragnar Blöndal kokkur kenndi mér þennan varíant af sósu sem er einföld en byggir á því að maður sé þolinmóður við sveppina - þeir, ásamt lambasoðinu gefa sósunni sitt ljúfa bragð. Ég hjálpaði honum þegar hann eldaði fyrir tvöfalda sextugsveislu foreldra minna sumarið 2010 og lærði heilmikið af honum. Takk fyrir nafni! 

Fyrir fjóra til sex

1 kg lambafillé
1 msk jómfrúarolía
handfylli af timian eða blóðbergi
salt og pipar

250 g sveppir
1 msk smjör
1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
350 ml  kröftugt lambasoð
200 ml rjómi
3 lárviðarlauf
salt og pipar

600 g kartöflur 
1 l olíu til djúpsteikingar
salt og pipar


Nú skulum taka þetta skref fyrir skref. Sneiðið sveppina gróflega niður. 


Bræðið smjör í potti, og steikið smátt skorinn lauk og hvítlauk þangað til að hann er glansandi og mjúkur. Saltið og piprið og setjið nokkur lárviðarlauf með. 


Setjið síðan sveppina saman við, alla í einu! Ég veit að almennt er ráðlagt að brúna nokkra í einu en með tíma munu þeir allir brúnast. Saltið og piprið og hrærið reglulega í pottinum. 


Bíðið eftir að ilmurinn af sveppunum umbreytist - eldhúsið mun fylltast af dásamlegum hnetukeim. Þá hellir maður lambasoðinu yfir og hitar að suðu og lætur krauma í nokkrar mínútur. Þá er rjómanum hellt saman við og látið krauma og sjóða niður um þriðjung. 


Pabbi hafði keypt þessi fallegu fillé. 


Nuddaði kjötinu upp úr kryddjurtum, salti og pipar. Blússhitið grillið og grillið þangað til að kjarnhitinn er kominn í 52 gráður. Takið þá til hliðar og látið standa undir álpappír í 15 mínútur. 



Grillað kjöt er fallegt, meira að segja þó að smávegis hafi brunnið (en það er alltaf hætta á því þegar verið er að elda í myrkri!)


Setjið sósuna í skál, sjáið til þess að allir sveppirnir fari með! 


Skerið kartöflurnar niður í strimla. Steikið fyrst við 130-140 gráður til að elda þær í gegn. Látið þorna. Hækkið undir olíunni og steikið aftur þangað til að til að þær eru fallega gullinbrúnar og brakandi! 


Sneiðið kjötið og raðið bitunum á diska. 




Með matnum drukkum við eitt af mínum uppáhaldsvínum, Spánverja að nafni RODA frá 2008. Vínið sótti ég í Fríhöfnina fyrr um daginn. Það er ekki alltaf sem maður leyfir sér svona flott vín - en það er ekki á hverjum degi sem maður fagnar bókaútgáfu (það er þó gott að fagna nokkrum sinnum). Vínið er unnið úr 100 prósent Tempranillo þrúgum sem kemur af rúmlega 30 ára gömlum vínvið. Þetta er kraftmikið vín og ljúffengt vín - eins og konfekt á tunguna - með ilm og mikið bragð af dökkum seiðandi berjum og þægilegum eikarkeim!


Svo er ekkert annað að gera en að setjast að borðum með allri fjölskyldunni og vona að allt gangi vel á næstu dögum, þar sem það verður nóg að gera að fylgja bókinni minni úr hlaði! 


No comments:

Post a Comment