Þetta er sígildur réttur sem ég bragðaði fyrst á Lækjarbrekku fyrir 14 árum eða svo þegar við konan mín héldum upp á fyrsta (já, eða annað) brúðkaupsafmælið okkar. Og þetta er eins og gefur að skilja alveg sérlega ljúffengur réttur. Osturinn bráðnar innan í stökkum kexkenndum brauðhjúpnum.Borið fram með góðri sultu er þetta ekkert annað en veisla fyrir bragðlaukana – sæta, selta og ríkulegt umami-bragð.
Stundum finnst mér erfitt að staðsetja hvar í röðinni (forréttur, aðalréttur, eftirréttur) djúpsteiktur camembert á að vera. Hann er oftast borinn fram sem eftirréttur en getur verið heldur þungur sem slíkur. Sama á sennilega við um að hafa hann sem forrétt. Og ekki er þetta aðalréttur. Kannski er hann bestur sem náttverður, já, eða hádegisverður. Hvað sem því líður er hann alltaf frábær!
Það getur verið snúið að hjúpa ostinn þar sem yfirborð hans er heldur þurrt. Veltið ostinum fyrst upp úr hveiti og síðan tvisvar sinnum í gegnum eggið og mylsnuna. Þannig er tryggt að osturinn sé hjúpaður og opni sig ekki í olíunni.
Þessa aðferð er auðvitað hægt að nota til að hjúpa hvaða ost sem er, aðra mygluosta, mozzarellastangir eða jalapeño- og rjómaostasprengjur.
200 g camembert
1 bolli hveiti
3 egg
1 bolli brauðmylsna
2-3 msk góð sulta
nokkrar brauðsneiðar
Skerið ostinn í bita og veltið honum upp úr hveitinu. Þeytið saman eggin og færið ostinn úr hveitinu í eggjablönduna og þaðan í brauðmylsnuna. Endurtakið þetta.
Hitið olíuna og þegar hún er komin í 170 gráður djúpsteikið þið ostinn þangað til hjúpurinn er gullinbrúnn. Setjið til hliðar.
Hitið olíuna og þegar hún er komin í 170 gráður djúpsteikið þið ostinn þangað til hjúpurinn er gullinbrúnn. Setjið til hliðar.
Ristið nokkrar brauðsneiðar til að bera fram með ostinum.
Raðið ostinum ofan á brauðsneið, tyllið örlítilli sultu ofan á og njótið!
No comments:
Post a Comment