Sunday, 31 August 2014

Stórkostleg nautalund ”sous vide” með bordelaisesósu og rösti kartöflum

Þessi uppskrift verður í næstu bók minni sem mun koma út á næstunni. Hún birtist líka í Morgunblaðinu nýverið þannig að ég er ekki að kjafta frá neinum leyndarmálum. Þessi uppskrift er bæði gömul og ný. Aðferðin við að elda nautakjötið er ný á nálinni fyrir flesta áhugakokka en er aðferð sem hefur lengi verið notuð á veitingahúsum - "Sous vide" - undir vatnsþrýstingi. Og þetta er aðferð sem fólk ætti að kynna sér nánar því hún tryggir að maturinn mun heppnast fullkomlega - alltaf, ekki stundum - ALLTAF. Og þó svo að ég eigi vacúmpökkunargræju og líka sousvide græju þá er það ekki nauðsynlegt til að ná árangri. Ég er búinn að elda með þessari aðferð síðastliðin tvö ár og eignaðist ekki tækin fyrr en nýverið.

Og það þarf enga vakúmpökkunargræju - það er auðvelt að lofttæma poka (ziploc poka) með því að sökkva honum í vatn og þrýsta loftinu út og gæta þess að ekkert vatn renni inn í pokann. Og þegar pokaopið er komið að vatnsyfirborðinu er honum bara lokað og pokinn kræktur með klemmu við pottinn.

Og galdurinn við að elda "sous vide" er að elda við það hitastig sem kjötið á að vera þegar það er tilbúið. Viljir þú hafa steikina þína 52 gráður þá bara stillirðu hitann á vatninu eftir því og eldar kjötið við þann hita.

Hér eru þrjár einfaldar leiðir til að elda "sous vide" án þess að nota nein sérstök tól eða tæki.

Í fyrsta lagi er hægt að setja pott á hellu og setja hitamæli í pottinn og stjórna hitanum með því að taka heitt vatn frá þegar hitinn verður of mikill og bæta köldu vatni í staðinn. Svo er líka hægt að hafa pottinn með vatninu inn í ofni og stýra vatnshitanum með ofnhitanum. Loks má benda á að setja vatn með réttu hitastigi í kælibox og stilla hitann með hitamæli (stundum þarf að bæta við heitu vatni - en kælibox einangra mjög vel! Kæliboxið mun halda óbreyttum hita í 1,5-2 klukkustundir - alveg nóg til að elda 2,5 cm þykka steik, kjúklingabringu eða andabringu. Það eina sem er eftir er að brúna kjötið í lokin!

Fyrir eldhúsgræjunörda eins og sjálfan mig - er best að spara fyrir Foodsaver vakúmpökkunavél og svo sansaire sousvide græju (eða anova) og setja í pott og þá er maður, sko, til í tuskið!

Stórkostleg nautalund ”sous vide” með bordelaisesósu og rösti kartöflum

Bordelaisesósa er í grunninn rauðvínssósa nema að við hana bæti ég nautabeinmerg sem er að mestu bræddur niður á pönnu. Látið ekki hræðast af þessu. Mergurinn gefur sósunni mikla bragðdýpt og kröfugt umamibragð. Allir sem elska að sjúga merg úr beinum eiga eftir að kunna vel við þessa sósu sem og þeir sem eru hrifnir af alvöru ossobuco - en magnaða bragðið af þeim rétti kemur einmitt frá mergnum. Aðrir nautaseggir eiga líka eftir að fíla þessa sósu í botn þar sem hún er alveg stórkostleg á bragðið!

Fyrir fjóra til sex

Fyrir kjötið;

1 kg nautalund (miðhlutinn)
2-4 greinar rósmarín
4-6 greinar timían
2 msk jómfrúarolía
pipar
salt

Fyrir sósuna;

2 skalottlaukar
100 g smjör
10 mulin piparkorn
400 ml rauðvín
400 ml kálfa- eða nautasoð
2 lárviðarlauf
5 timíangreinar
2 rósmaríngreinar
mergur úr þremur nautabeinum
(u.þ.b. 75-100 g mergur)
salt og pipar

Fyrir rösti kartöflurnar;

700 g kartöflur
150 g harður ostur – t.d. cheddar
1 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
salt og pipar



Piprið nautalundina ríkulega og setjið í plastpoka ásamt kryddjurtunum og jómfrúarolíunni. Innsiglið plastið í vakúmpökkunarvél eða undir vatnsþrýstingi.


Leggið í 55°C vatnsbað í tvo til tvo og hálfan tíma. Takið kjötið úr pokanum þegar það er tilbúið en geymið vökvann sem fellur til í sósuna. Þerrið kjötið, saltið vel og piprið.


Steikið á heitri pönnu eða grilli í örskamma stund, rétt til þess að brúna steikina á yfirborðinu. Það þarf bara skamman tíma þar sem kjötið er þegar eldað fullkomlega í gegn!


Fullkomlega elduð!


Á meðan steikin er í vatnsbaðinu þarf auðvitað að huga að meðlætinu og sósunni!

Ég hef oft lesið um þessa sósu en aldrei lagt í að gera hann fyrr en ég fékk hana á veitingastað í London nú í vor og varð alveg heillaður.

Hellið rauðvíni í pott ásamt niðurskornum skalottlauk og piparkornum, hleypið upp suðunni og látið sjóða niður um þriðjung. Bætið kjötsoði út í ásamt kryddvöndli (lárviðarlauf, timían og rósmarín bundið saman í búnt) og látið krauma í 20-30 mínútur, þangað til sósan hefur þykknað lítillega (nægjanlega til að hjúpa stálskeið). Skerið smjörið í bita og hrærið það vandlega saman við rauðvínssoðið, bita fyrir bita. Saltið og piprið.


Hitið vatn í potti og skellið beinmergnum út í sjóðandi vatnið í fimm mínútur. Þrýstið svo mergnum út með fingrinum eða notið hníf til að ná honum út.


Skerið merginn í sneiðar og steikið í fjórðungi af smjörinu þar til hann er farinn að brúnast.



Hellið þá rauðvínssoðinu yfir og látið sjóða í stutta stund. Mergurinn mun bráðna í sósunni og gefa frá sér unaðslega kröftugt umami-bragð.


Á mínu heimili er engin sósa tilbúinn fyrr en að Snædís er búinn að samþykkja. Stundum þarf að salta og pipra - jafnvel sæta ef þurfa þykir!


Flysjið kartöflurnar og rífið í strimla í matvinnsluvél eða með rifjárni.

Leggið kartöflustrimlana í ískalt vatn í nokkrar mínútur og þerrið svo rækilega með viskastykki. Rífið ostinn, saxið lauk og hvítlauk smátt og skerið smjörið í bita. Blandið saman við kartöflurnar í skálinni, saltið og piprið og færið svo yfir í smurt eldfast mót. Bakið í 180°C heitum forhituðum ofni í 25-35 mínútur eða þangað til kartöflurnar er fallega brúnaðar.



Með matnum drukkum við þetta vín frá Spáni. Emilio Moro frá því 2010 sem er framleiðendi í Ribera del Duero dalnum sem er frægt vínræktarsvæði á sléttunum á norðanverðum Spáni. Þarna hefur vín verið framleitt í þúsundir ára og er þekkt fyrir gæðavín. Og þetta er eitt slíkt. Þetta er kraftmikið vín úr tempranillo þrúgum og hefur fengið að liggja í eikartunnum í eitt ár. Þetta er kraftmikið vín, mikið eikarbragð, mikill ávöxtur og jafnvel pínulítið reykt bragð á tungu. Ég var allaveganna ekki svikinn af þessu víni!



Eins og áður þá svo sannarlega tími til að njóta!

Thursday, 28 August 2014

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola



Ég rakst á pizzaiola sósu þegar ég var í uppskriftaleit á netinu. En mín útgáfa er ansi frábrugðin og kollegi minn, sem er ítalskur, setti í brúnir þegar ég var að lýsa matseldinni fyrir honum. Honum fannst ég klárlega beygja heldur út frá hefðinni. En þannig er það nú bara. Uppskriftir geta verið góður grunnur til að byggja á.

Þegar uppskriftir að salsa pizzaiola er skoðaðar á netinu þá er hún oftast borin fram með nautakjöti sem er snöggsteikt á pönnunni og svo sett til hliðar á meðan sósan er gerð og svo er kjötið lagt aftur í pönnuna rétt til að hita það í gegn áður en það er borið fram - ég skipti yfir í kjúkling. Oftast er notast við tómata í dós en ég nota ferska og svo bætti ég við bæði kapers, ólívum og chili við tómatsósuna til að lyfta henni meira frá hefðbundinni tómatsósu! Og treystið mér - þið verðið ekki svikin!

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola

Og þetta er líka snögg uppskrift - allt tilbúið á 20-25 mínútum og hægt að gera allt meðlætið á meðan kjúklingurinn er eldaður á pönnunni.

Fyrir fjóra til sex

Hráefnalisti

1 kg kjúklingabringur (4-6 bringur)
50 g smjör/2 msk jómfrúarolía
salt og pipar
250 g kirsuberjatómatar
3-4 ansjósuflök
1 msk kapers
4 hvítlauksrif
20 svartar ólívur
handfylli basil/steinselja
salt og pipar



Það hefði alveg verið hægt nota tómata í dós í þessa uppskrift en um þessar mundir er kjörbúðin sem ég skipti mikið við troðin með fallegum tómötum á góðu verði. Ég keypti öskju með þessum sætu smáu plómutómötum. 


Vilhjálmur Bjarki var ekki lengi að bjóða sig fram til að skera tómatana. Hann er duglegur að aðstoða pabba sinn í eldhúsinu.


Sneiðið chili-ið niður í sneiðar - auðvitað er hægt að kjarnhreinsa að fyrst, en að þessu sinni ákvað ég að hafa smá hita í matnum! 


Hellið 2 msk af jómfrúarolíu á pönnuna, saltið og piprið kjúklingabringurnar og steikið þangað til að þær hafa tekið smá lit að utan. Kannski tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið. Setjið til hliðar á meðan þið útbúið sósuna. 


Skellið niðurskornum lauknum, chili og hvítlauk á pönnuna á steikið í tvær til þrjár mínútur þangað til að hann er farin að glansa. Gætið þess að brenna ekki laukinn. Þá gefur hann frá sér biturt bragð. 


Skerið niður þrjár til fjórar ansjósur og bætið saman við laukinn og steikið áfram í nokkrar mínútur til að bræða ansjósurnar niður. Hafið ekki áhyggjur - það kemur ekkert fiskibragð af matnum. Bara umamibragð sem vinnur vel með tómötunum. 


Svo er bara að skella tómötunum, ólívunum og kapersinum saman við og steikja áfram. Smá hvítvín mun bara bæta réttinn. 


Saxið ferska bergmyntu (óreganó) og setjið saman við og hitið réttinn að suðu. 


Þegar rétturinn er farinn að krauma, raðið kjúklingum saman við og eldið hann í gegn. Notið hitamæli til að meta hvenær kjúklingurinn er tilbúinn. 71 gráða er samkvæmt nýjustu heimildum nóg fyrir bringur. 



Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2010. Þetta vín er alltaf góð kaup. Þetta vín hef ég drukkið nokkrum sinnum áður - og kann alltaf jafnvel við!. Vínið er frá Ítalíu, nánar tiltekið frá svæðunum í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Það hefur fallegan lit í glasi, dökkt og satínkennt.  Á tungunni er vínið ríkt af ávexti með örlitlum sýrukeim og vott af mildum tannínum. Þetta er vín sem ég verð aldrei svikinn af!


Á meðan kjúklingurinn er að eldast á pönnunni útbúið þið meðlætið, skerið niður í salat, sjóðið pasta eða hrísgrjón til að bera fram með réttinum. 

Og svo er bara að skála og njóta! 

Monday, 25 August 2014

Ljúffengur "Makkhana koda - þorskur í tómatsmjörsósu" á indverska vísu með hrísgrjónum


Þessi réttur er innblásin af myndbandi sem ég sá á netinu um daginn. Þar sá ég kokk matreiða Murgh Makhani sem er hindi fyrir kjúkling í smjörsósu. Þetta virkaði á mig sem afar heillandi uppskrift. Ég fór á stúfana og eins og áður þá eru til óteljandi uppskriftir af þessum rétti á netinu, margar hverjar ansi heillandi. Mér þykir þetta góð leið til að fá innblástur - lesa margar uppskriftir og reyna svo að leika það eftir eftir minni. Það er skemmtilegt hvaða hlutir það eru sem maður man alltaf og hvaða það er sem maður gleymir.

En allaveganna - þá langaði mig til að breyta aðeins til. Ég átti fallega þorskahnakka í frystinum sem vinkonur okkar komu með frá Íslandi þegar þær komu í heimsókn í sumar. Þær komu með þrjá pakka af dásemdar fiski frá Steina í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum! Ég á sem betur fer ennþá skötuselinn eftir! Mér fannst því gráupplagt að prófa uppskrift innblásna af því sem ég hafði lesið á netinu með þorski í staðinn fyrir kjúkling. Og það var allt annað en vitlaus hugmynd!

Ljúffengur "Makkhana kŏḍa - þorskur í tómatsmjörsósu" á indverska vísu með hrísgrjónum 

Sósan er gerð alveg sér og mætti í sjálfu sér notast með öðru en fiski. Upprunalega var jú hugsað að hafa hana með kjúklingi sem er ábyggilega ekkert síðra.

Fyrir fjóra til sex

Hráefnalisti

Fyrir þorskinn

1 kg þorskhnakki
1 tsk gróft salt
1/2 tsk nýmalaður pipar
1 tsk garam masala
2 tsk túrmerik
1 tsk papriku duft
1/2 hvítlauksduft

Fyrir sósuna

75 g smjör
2 skalottulaukar
4 hvítlauksrif
1 kanilstöng
1 msk paprikuduft
2 tsk túrmerik
1 tsk broddkúmen
1 tsk garam masala
fræ úr 4 kardimommum
3-4 negulnaglar
2 msk tómatpúre
1 dós niðursoðnir tómatar
Safi úr 1/2 sítrónu
150 ml rjómi



Setjið þorskinn í skál og blandið kryddinu saman við, garam masala, túrmeriki, papríkudufti og hvítlauksduftinu. Saltið og piprið og látið síðan standa í ísskáp í um klukkustund. Fiskurinn þéttist aðeins við að liggja í salti í þennan tíma.


Takið eina kanilstöng, þrjá til fjóra negulnagla og svo fræin úr fimm kardimommum. Það kemur mikið bragð úr þessum kryddi. 


Skerið tvo skarlottulauka og hvítlauksrifin smátt niður og steikið í smjörinu.


Tvær kúfaðar skeiðar af tómatmauki gefa sósunni fallegan lit og kraft. 


Safi úr hálfri sítrónu. 


Bætið við kúfaðri skeið af papríkudufti saman við sósuna. 


Og svo túrmeriki, broddkúmeni og garam masala kryddblöndu. 


Bætið rjómanum saman við og hitið að suðu og látið sósuna krauma í 15 mínútur. 


Ég klæddi ofnskúffu með álpappír og lagði fiskinn ofan á. Blússhitaði ofninn á hæsta mögulega hita með grillið í gangi!


Setjið fiskinn í miðjan ofninn og grillið í sjö til árra mínútur.


Tyllið svo fisknum í sósuna og skreytið með steinselju, eða kóríander. 


Berið á borið með hrísgrjónum og þessu ótrúlega einfalda tómat- og lauksalati. Skerið laukinn og tómatana með mandólíni. Raðið á disk. Setjið safa úr hálfri sítrónu yfir og svo skvettu af jómfrúarolíu. Saltið og piprið. 


Núna er sko tími til að njóta! 

Thursday, 21 August 2014

Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

Ég ætti kannski að hefja þessa færslu á því að biðjast afsökunar á því hverju ég er að blogga þessa færslu - hakkabuff og spælegg - common Ragnar!! Oftast blogga ég, jú, um veislumat, eitthvað sem best passar á veisludögum, jafnvel til hátíðartilbrigða. En sama hvað maður óskar þess heitt þá er bara helgi tvo daga í viku.

Og einhver myndi kannski segja að þetta sé nú full hvunndags til að bera á borð. En því svara ég að þessi réttur er í miklum metum hjá ansi mörgum. Sumir Danir myndu ganga svo langt að kalla þennan rétt sinn eigin. Og þessi réttur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér - gott ef ekki hjá föður mínum líka. Þegar ég var að vinna á heilsugæslustöð í Horselunde í Danmörku var það alltaf ákveðinn viðburður að elda þennan rétt í hverri ferð sem ég fór Lollands.

Þessi færsla er ekki hugsuð sem uppskrift heldur þrjú ráð um hvernig má taka hversdagslegan mat, sem oft er ansi venjulegur, og hvernig má lyfta honum upp í efstu hæðir. Stundum þarf bara svo lítið annað til en bara smá tíma til að breyta einhverju úr hversdagslegu í eitthvað sem gefur hversdeginum þó ekki nema örlítinn veislubrag! Og hérna eru nokkrar uppástungur!

Læknisráð í eldhúsinu: Dúndur hakkabuff með spældu eggi og besta steikta lauknum - nokkur heilræði!

Það er ekki alltaf veislumatur á borðum hjá mér. Stundum elda ég líka bara kjötbollur eða steiktan fisk. En eftir því sem maður les meira um matargerð og æfir sig meira þá lærir maður nokkur brögð sem breyta venjulegum mat í eitthvað annað og meira.


Varðandi laukinn. Til að karmellissera lauk þarf langan tíma. Margar bækur segja 10-15 mínútur en það eru bara helber ósannindi. Það er hreinlega ekki hægt, ekki nema með því að svindla með því að hella sírópi á pönnuna eftir 10 mínútur og steikja með síðustu mínúturnar. Það er í sjálfu sér ágætt svindlbragð til að nota þegar maður er að brenna út á tíma en það er ekki það sama og að steikja laukinn varlega í 35-45 mínútur til að galdra fram hans eigin sykur. Lauksætan er nokkuð einstök. Gefið ykkur nægan tíma. 

Annað er að skella einum eða tveimur stjörnuanísum með á pönnuna. Það hjálpar að draga fram umami bragðið í lauknum og lyfta honum ennþá frekar. Hafið ekki áhyggjur - það verður ekkert anísbragð af lauknum. 

Steikið laukinn í miklu smjöri og saltið vel og piprið. Og voila - besti steikti laukur allra tíma. 

Það má líka halda áfram með laukinn og umbreyta honum í lauksósu eða jafnvel lauksúpu en það er önnur færsla! 



Kaupið gott nautakjöt sem inniheldur 15-20 prósent fitu. Þannig mun það halda mýkt sinni og ekki verða þurrt við eldun. Kjöt sem inniheldur minna en 10 prósent mun gefa síðri niðurstöðu. 

Það er um að gera að lauma einhverju inn í hakkabuffið. Mér finnst gott að lauma smá osti inn í buffið. Í þetta sinn notaði ég blámygluost, en stundum nota ég gryere - bara einhvern ostu sem bráðnar og rennur inn í kjötið. Einhverstaðar hef ég lesið um að lauma smjörklípu inn í kjötbolluna, en ég á það eftir. 


Brúnið kjötið í smjöri að utan. Þetta á ekki að taka langan tíma. Bara að loka því!



Hugmyndin er að loka kjötinu, leggja það svo í eldfast mót, laukinn yfir og klára það inn í 180 gráðu heitum ofni í 10 mínútur á meðan þið gerið sósuna.


Besta sósan er gerð á pönnunni sem kjötið var steikt á. Setjið hveiti út á pönnuna til að gera smjörbollu (roux - fyrir 30 g af smjöri notið 30 g af hveiti). Hellið svo á pönnuna góðu kjötsoði og hitið að suðu og sjóðið niður - bætið rjóma saman við! Smakkið til með salti, pipar, sultu og jafnvel smá Worchestershire sósu til að gefa sósunni auka kick!


Eggin eru best steikt í nóg af fitu. Sérstaklega smjöri - þannig er það nú bara! Einhverjum kann að blöskra þetta mikla smjör, en það er bara ekkert óhollt, þvert á móti!


Ennþá betra er að hella smávegis af smjörinu yfir eggin til að flýta fyrir elduninni og gefa þeim ennþá betra bragð. Að sjálfsögðu þarf að salta og pipra!

Þá er ekkert eftir annað en að setjast að borðum. 

Það er alltaf tími til að njóta - líka á þriðjudögum!

Wednesday, 20 August 2014

Kraftmikill kóreskur grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk



Það er ágætt sparnaðarráð að skoða reglulega í frystikistuna sína og sjá hvað þar er að finna. Ég fer reglulega í gegnum frystinn og geri lista yfir hvað þar er. Og nú í morgun fann ég þessa fínu grísalund. Ég setti nýverið hlekk á FB síðuna mína um grísapönnu sem ég eldaði einhverntíma snemma 2012. Hugmyndin var að gera eitthvað þvílíkt en svo fór ímyndunaraflið á flug og á endanum langaði mig að gera eitthvað allt annað.

Ég eyddi nokkrum klukkutímum yfir bókum og netinu og fann nokkrar uppskriftir sem mig langaði til að prófa. Eins og með flest annað þá virðast ekki vera nein takmörk fyrir hugmyndarflugi okkar mannanna og endalaus afbrigði að finna á netinu. Ég fann margar girnilegar uppskrifir frá Kóreu sem mér fannst spennandi - en átti ekki kóreskt chili mauk (gochujang) þannig að ég bjó til mína eigin blöndu með því að nota sambal oleak, tómatmauk og mísómauk - byggt á lýsingum á því hvernig hið kóreska chilimauk var á bragðið.

Og það er alltaf gaman að skoða nýjar uppskriftir og sækja sér innblástur á nýjar slóðir. Ég hef síðustu árin haft mestan augastað á franskri matargerð (og geri enn) sem mér finnst alveg stórkostleg. Ég hef í gegnum tíðina af og til eldað sitthvað frá öðrum heimshornum en sjaldnast einbeitt mér að því í lengri tíma. Evrópa hefur alltaf kallað of hátt á mig - en síðustu vikur hef ég verið að gramsa í gegnum uppskriftir frá Indlandi og Asíu. Og þar kennir ýmissa grasa. Kannski að ég haldi mér eitthvað við það efni áfram? Hver veit?

Kraftmikill kóreskt grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk

Þetta er fljótlegur réttur að elda, en það er ágætt að gefa sér smá tíma í að leyfa kjötinu að marinerast í að minnsta kosti klukkustund áður en því er snarað á blússheita wokpönnuna. Ég hugsa að það að marinera yfir nótt væri ennþá betra, en það er ekki alltaf svo að maður nenni að gera áætlanir svo langt fram í tímann.

Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

1 kg grísalund
6 msk soya sósa
5 sm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1/2 laukur
1 lítið epli
1 tsk sesamolía
2 tsk mirin (hrísgrjónavín)
1 pk misosúpa
1 msk sambal oleak
2 msk tómatpúré
1 msk papríkuduft
1 msk hrásykur
salt og pipar

3 gulrætur
4-5 stórir sveppir
4-5 vorlaukar
150 g sykurbaunir

icebergkál (eitt blað á mann)
sesamfræ til skreytingar



Skerið grísalundina í þunnar sneiðar og setjið í skál.



Flysjið eplið og raspið niður og setjið í skálina með kjötinu.



Skerið laukinn smátt og bætið saman við.



Takið utan af hvítlauknum, engifernum og kjarnhreinsið chilipiparinn (hetjur setja hann allan með!)



Setjið hvítlaukinn, engiferin og chili-ið (valfrjálst að kjarnhreinsa) í matvinnsluvél og tætið niður smátt.



Einhvern veginn svona! Bætið útí skálina.



Setjið síðan sambalið, tómatpúréið, misómaukið, papríkuduftið, sesamolíuna, hrísgrjónavínið, salt og pipar og hrærið vandlega saman.



Látið standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund, helst lengur.



Skerið sveppina í þunnar sneiðar, gulræturnar niður í strimla, vorlaukinn gróflega og látið sykurbaunirnar bara vera eins og þær komu af plöntunni!



Hitið nú wokpönnuna þannig að hún verði blússheit! Setjið tvær til þrjár matskeiðar af olíu á pönnuna og skellið kjötinu á pönnuna.



Dreifið því vel um pönnuna og lokið kjötinu.



Setjið næst grænmetið saman við og steikið í sjö til tíu mínútur þangað til að kjötið er steikt í gegn.



Skolið icebergblöðin og fyllið með kjötinu og grænmetinu.



Skreytið með sesamfræjum og niðurskornum vorlauk.



Með matnum völdum við að drekka rósavín. Hvítvín hefði líka verið gott val. Eitthvað sem er frískandi með mat sem er skarpur og hitar manni aðeins á tungunni. Ég fann þessa flösku nýlega þegar ég var í Köben og tók hana með mér til Lundar. Léttvínið er alltaf aðeins ódýrara í Kaupinhöfn þannig að það er ágætt að birgja sig aðeins upp. Þetta er ítalskt rósavín með miklu ávaxtabragði, ferskt - aðeins sýra á tungubroddinum þannig að þetta passaði afar vel með matnum.

Tími til að njóta!