Þátturinn minn var frumsýndur nú á skírdag og við buðum nokkrum vinum okkar í heimsókn. Það er nú skrítið að horfa á sjálfan sig í sjónvarpi - það verður bara að viðurkennast. En ég var ánægður með útkomuna. Ég var líka svo heppinn með samstarfsfólk - Gunnhildur Helga leikstýrði þáttunum og framleiddi ásamt manninum sínum, Ómari Jabali. Og þau voru mörg handtökin við gerð þessara þátta og með Svenna, Högna, Eíríki, Sigga Más, Ísgerði og Kjartani gekk þetta allt stóráfallalaust fyrir sig. Og það var ótrúlega gaman að vinna með þessu fólki - sem tók líka svona vel til matar síns! Ég get vottað að ekkert af matnum sem var eldaður í þáttunum fór í ruslið.
Og ég vona að ég fái að vinna með þeim aftur!
En nú að matnum! Þessi uppskrift var í bókinni minni sem kom út fyrir jólin - hún er að mörgu leyti frábrugðin venjulegu íslensku lambalæri. En fyrir forvitna þá er þessi uppskrift alveg frábær!
Ofnbakað lambalæri provenciale - með hvítlauk og ansjósum
Fyrir okkur Íslendinga er þetta óvenjuleg leið til að elda lambalæri. Hér er teflt saman lambi og ansjósum, en í löndum eins og Frakklandi og Ítalíu er þetta ekki svo óalgeng samsetning.
Margir munu lyfta brúnum við að sjá svona mikið af ansjósum með lambakjötinu (varla út af bragðinu því það er frábært). Þegar maður venst því að nota ansjósur í mat lærist að þær eru eins og náttúruleg útgáfa af þriðja kryddinu (mónósódíum-glútamat) og auka umami-bragðið svo um munar.
1 lambalæri
1 dós ansjósur í olíu (12 flök)
2 greinar rósmarín
6 stór hvítlauksrif
6 msk smjör
Salt og pipar
500 ml rauðvín
2 greinar rósmarín
6 stór hvítlauksrif
6 msk smjör
Salt og pipar
500 ml rauðvín
2 gulrætur
2 sellerístilkar
1 gulur laukur
1 heill hvítlaukur
Safi úr einni sítrónu
Steinselja til skreytingar
Safi úr einni sítrónu
Steinselja til skreytingar
Byrjið á því að stinga litlum og þunnum hníf u.þ.b. 2 1/2 cm inn í lærið á nokkrum stöðum (svona 12 stöðum). Skerið hvítlauksrifin í helminga og troðið inn í götin ásamt hálfu ansjósuflaki og tveimur laufum af rósmaríni.
Blandið afganginum af ansjósunum og rósmaríninu við smjörið í matvinnsluvél og smyrjið yfir allt lærið. Piprið ríkulega – ekki er þörf á að salta þar sem ansjósurnar eru saltar. Setjið lærið í ofnskúffu ofan á beð af rótargrænmeti, kreistið úr sítrónunni yfir það og látið hana í skúffuna.
Hellið víninu í ofnskúffuna. Setjið lærið inn í 220 gráðu heitan, forhitaðan ofn og bakið í 20 mínútur. Lækkið þá hitann í 180 gráður og bakið þar til kjarnhitinn er kominn í 60 gráður.
Þegar lærið er tilbúið færið þið það yfir á fat og skreytið með steinseljunni.
Sósan er einföld. Hellið vökvanum af lærinu í pott í gegnum sigti og hitið. Smakkið til með salti og pipar.
Nú er tími til að njóta!
No comments:
Post a Comment