Um síðustu helgi komu samstarfsmenn mínir við sjónvarpsþáttinn í heimsókn til Lundar. Gunnhildur og Ómar komu hingað á laugardagseftirmiðdaginn og við byrjuðum strax að vinna. Elduðum og tókum upp frameftir kvöldi. Daginn eftir var svo farið í útitökur, vinnan mín heimsótt og svo var eldað meira um kvöldið - en ekki hvað! Við gátum undirbúið heilan helling fyrir tökur sem eiga að fara á stað núna á mánudaginn næstkomandi. Þetta verður spennandi.
Á laugardaginn leggjum við land undir fót, ég, bróðir minn og sonur minn, Vilhjálmur Bjarki og verðum á Íslandi í rúmar tvær vikur. Vilhjálmur mun ganga í skóla á Íslandi í fyrsta sinn og er ákaflega spenntur. Hann mun fara í gamla skólann minn - Háteigsskólann sem þá gekk undir nafninu Æfingaskólinn.
Innbakað sjávarréttapasta með skelfiski, smokkfisk og rækjum
Þessi réttur birtist í bókinni og minni og hef ég fengið góðfúslegt leyfi til að endurbirta uppskriftina.
Þetta er dásamlega fallegur réttur og virkilega gaman að bera á borð fyrir gesti. Það er líka auðvelt að vera búinn að útbúa allt fyrirfram; laga sósuna og undirbúa hráefnið. Þá þarf ekki annað að gera en að raða þessu í böggla þegar gestirnir koma. Í raun er meira að segja hægt að gera allt fyrirfram og geyma bögglana í ísskáp þangað til gestirnir mæta á svæðið.
Rétturinn er líka nokkuð spennandi því að þegar þessir dularfullu matarbögglar eru opnaðir gýs upp þessi dásamlegi sjávarréttailmur sem leggur yfir borðið og gleður svo um munar.
Hráefnalisti
Fyrir 6
1 laukur
5 hvítlauksrif
5 ansjósuflök í jómfrúarolíu
Salt og pipar
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 msk tómatþykkni
1 fiskiteningur
100 ml hvítvín
2 msk jómfrúarolía
Handfylli rifin steinselja og basil
1 kg kræklingur
300 g smokkfiskur
300 g rækjur eða annar fallegur skelfiskur/fiskur
500 g spaghettí
Fyrst er að undirbúa sósuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn í smáa bita og steikið í jómfrúarolíu.
Bætið ansjósuflökunum út í og bræðið þau niður í olíunni. Þá er að hella hvítvíninu yfir og svo sjóða úr áfengið. Bætið næst við niðursoðnu tómötunum, tómatþykkninu og fiskiteningnum. Sjóðið upp. Setjið að lokum fersku kryddjurtirnar út í og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.
Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni þangað til það er „al dente“ (undir tönn). Hellið vatninu frá og hrærið tómatsósunni saman við spaghettíið.
Brjótið bökunarpappír í fernt og tyllið einum skammti af pasta á miðjuna og raðið sjávarfanginu ofan á.
Brjótið upp á bökunarpappírinn til að innsigla góðgætið. Endurtakið sex sinnum – einn skammtur á mann. Bakið í ofni við 180 gráður, í 20 mínútur.
Þetta vín myndi sóma sér vel með matnum. Castillo de Molina Chardonnay Reserve frá því 2011. Þetta er vín sem ég hef drukkið áður og greint frá því hérna á blogginu. Þetta er ávaxtaríkt Chardonnay - smjörkennt eins og mörg Chardonnay eru, vanillukeim og eikartónum í lokinn!
No comments:
Post a Comment