Ég fékk hugmyndina að því að elda þennan ótrúlega ljúffenga rétt þegar ég heimsótti slátrarann í Saluhallen í Lundi. Þar sá ég upprúllaða svínasíðu og í gegnum bitann var stungið skilti sem á stóð PORCHETTA. Og þetta hafði ég ekki séð áður! Ég var reyndar á höttunum eftir einhverju öðru en nokkrum dögum síðar lagðist ég í heimildavinnu um þennan stórgóða rétt og varð spenntur – enda eiginlega ekki annað hægt. Uppskriftina setti ég saman eftir að hafa viðað að mér upplýsingum héðan og þaðan af netinu og úr skruddunum mínum. Og ég varð ekki svikinn. Ég fór næstum því að gráta þegar ég smakkaði þennan rétt í fyrsta sinn. Nú gæti ég hreinlega hætt að elda – hátindinum væri náð.
Dásamleg Porchetta Italiana með smjörsteiktu fennel og svínasoðsósu
3 kg svínasíða
1/2 kg svínalund
börkur af einni sítrónu
3 msk jómfrúarolía
3 msk marsala-vín
1 msk fennelfræ
2 msk hökkuð salvía
2 msk hakkað rósmarín
salt og pipar
2 greinar rósmarín
Mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur)
3 fennelhausar
Skolið af svínasíðunni og þerrið. Skerið í puruna eða fáið kjötkaupmanninn til að afgreiða það fyrir ykkur.
Flysjið utan af einni sítrónu – takið bara börkinn en ekki hvíta lagið þar sem það er biturt á bragðið.
Bakið við 170 gráður í 3-4 klukkustundir á beði af mirepoix (laukur, sellerí og gulrætur).
Berið fram með t.d. smjörsteiktu fennel og einfaldri soðsósu gerða úr svínasoði sjá bls. 315.
Skerið fennel niður í sneiðar og steikið í 100 g af smjöri við lágan hita þangað til að hann hefur tekið fallegan gullinn lit og smakkast og ilmar dásamlega!
Seinast þegar ég var með þetta á borðum drakk ég þetta ljúffenga vín með Monte Garbi Ripasso frá því 2010. Monte Garbi Ripasso frá því 2009. Þetta vín er gert úr blöndu að þremur mismunandi þrúgum með Corvína þrúguna í aðalhlutverki. Vínið er framleitt á ekrum í kringum Feneyjar. Og þetta er sannarlega gott vín, dökkt í glasi, ilmur af dökkum ávexti og er kraftmikið og bragðgott. Þetta vín sveik ekki áður og gerði það heldur ekki í þetta sinnið. Get hæglega og vandræðalaust mælt með þessu víni.
Núna er sko kominn tími til að njóta!