Monday, 9 December 2013

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára!



Ó, hvað tíminn líður hratt. Ég man þegar ég sat við borðstofuborðið í Skaftahlíðinni fyrir framan tölvuna og ákvað að prófa að byrja að blogga! Ástæða þess að ég byrjaði að blogga var til þess að hvetja sjálfan mig áfram í eldhúsinu. Mér hefur alltaf þótt gaman að elda - alveg frá því að ég var krakki að ég fór að baka skúffuköku í eldhúsinu heima.

En þetta haust - haustið 2006 fannst mér eitthvað vanta á innblásturinn í eldhúsið og upplifði að ég væri að endurtaka mig í sífellu. Var alltaf að elda Spaghetti Carbonara - ekki bara vegna þess hversu ótrúlega gott það er - heldur líka vegna þess að mér datt sá réttur bara oftast í hug! Þannig að - um þetta leyti var bloggið að ryðja sér til rúms á Íslandi og mér fannst bara þjóðráð að prófa mig áfram að þeim vettvangi. 

Og síðan 9. desember 2006 hef ég bloggað að minnsta kosti 498 færslur um uppáhalds áhugamál mitt sem síðan þá hefur orðið ennþá ríkari þáttur af mínu lífi og fjölskyldu minnar. Og áhugamálið hefur vaxið. Ég hef haldið úti bloggi á Moggablogginu frá upphafi, var um tíma á Miðjunni sem síðar lagði upp laupana, seinna á Eyjunni og síðustu tvö árin hef ég lagt allt púður í "nýju" heimasíðuna - Lækninn í Eldhúsinu. Svo hef ég verið nokkuð virkur á Fésbókinni og meira segja gælt við enska útgáfu bloggins sem ennþá er í vinnslu - svona beta útgáfa. 

Nú hef ég eins og lesendur vita margir - gefið út veglega matreiðslubók. Hver veit hvert vegurinn liggur? Það verður allavega spennandi að hefja nýtt ár og takast á við þau verkefni sem þar þarf að vinna.

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára! 

Ég ákvað að velja nokkrar færslur til að hafa á svona lista - eitthvað sem ég gæti kallað uppáhaldið mitt - en þær eru margar fleiri. Þessir réttir hafa verið með mér síðustu ár - nokkrir frá því ég var barn - sumir nýrri en allir eru þeir ljúffengir.

1. Spaghetti Bolognese innblásin úr mörgum áttum! 


Þessi uppskrift hefur verið með mér frá blautu barnsbeini. Mamma gerði alltaf ljúffenga kjötsósu sem var í miklu uppáhaldi. Seinna fór ég að elda þetta sjálfur og var lengi mjög stoltur af niðurstöðunni. En uppskriftin tók breytingum. Snædís sagði að ég notaði of mikið oregano í uppskriftina og ég sem hélt að ég hefði unnið hjarta hennar með einmitt þessari uppskrift. Niðurbrotinn maðurinn hóf þá leit að betri uppskrift og með hjálp bróður míns rötuðum við á aðferð Marcelu Hazan - sem er afar ljúffeng. Eftir að ég fór að gera hana með mínu eigin beikoni varð hún "instant" klassík. Bróðir minn heldur því þó fram að hægt sé að elda hana á skemmri tíma en ég gef upp í uppskriftinni. Hver og einn þarf auðvitað að eiga það við sig!

2. Grillaðir hvítlaukspenslaðir humarhalar


Það þarf eiginlega ekkert að segja um þennan rétt. Ég hef eldað oftar en ég get talið - ég hef bloggað um hann nokkrum sinnum og eldaði hann meira að segja tvisvar fyrir bókina. Fannst myndirnar eitthvað "slappar" og notaði það sem afsökun að gera réttinn aftur. 

Þetta er oft í forrétt hjá mér - en þegar veskið leyfir þá er þessi réttur einnig fullkominn aðalréttur. Ég er meira að segja sannfærður að ef vel liggur á manni þá væri vandræðalaust að borða þennan þennan gómsæta humar sem eftirrétt!

3. Pavlova - eftirréttur guðanna, fyrir 130 manns


Eins og þeir sem lesa bloggið mitt verða eflaust varir við - þá fer ekki mikið fyrir kökum og eftirréttum á síðunni minni. Og útskýriningin á því er einföld - Ég er einfaldlega hrifnari af for-, aðal og brauðréttum en eftirréttum og sætmeti. 

En þetta á auðvitað sínar undantekningar. Pavlova er terta sem einhvern veginn nær að fanga alla breiddina - allt frá sætunni í tyggjókenndum botninum út í þéttleika rjómans og svo ferskleikann sem kemur frá ávöxtunum. 

Ég bakaði þessa köku fyrir brúðkaup kollega míns - Daggar Hauksdóttur þegar hún gekk að eiga manninn sinn, Grím. Ég gerði einar tuttugu kökur. Náunginn sem var mér innan handar í eldhúsinu til að klára að setja þetta upp á disk - át rúmlega hálfa tertu. Ætli hann hafi ekki verið að borða hana í fyrsta sinn - og því verða þetta að teljast nokkuð eðlileg viðbrögð!

4. Seiðandi andabringur "sous-vide"með steiktum kirsuberjum og pommes fondant fyrir ástina mína!


Þennan rétt gerði ég fyrir Snædísi, ástina mína, kvöldið þegar hún kom heim með þriðja barnið okkar, Ragnhildi Láru. Fæðingin gekk vel og við höfðum farið á sérstakt námskeið um hvernig má styðja maka sinn í gegnum fæðingarferlið. Það var einstaklega lærdómsríkt námskeið og mér hefur aldrei fundist ég vera eins mikill þátttakandi eins og einmitt í þessari fæðingu - oftast hefur mér fundist ég vera óskaplega bjargarlaus í þessu ferli sem konan mín hefur gengið í gegnum - en í þetta skiptið gat ég verið henni meira innan handar! Það var sérstök reynsla.

Ég kom heim og eldaði uppáhaldsmat Snædísar, andabringu - nema að þessu sinni gerði ég hana með þeim hætti sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um síðar. Sous-vide - eldað undir þrýstingi við lágan hita. Þannig verður kjötið einkar meyrt og bráðnar í munni. Kjötið er svo steikt í lokin til að fá þessa karmelliseringu sem er svo góð!

5. Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmeti


Ég gæti sett svo margar kjúklinga uppskriftir inn á þennan lista - því ég er svo heppinn að luma á mörgum góðum leiðum til að elda kjúkling. En mér þykir sérstaklega vænt um þessa uppskrift og þegar ég sest niður við matarborðið með fjölskyldunni minni er næstum eins og ég flytjist til í tíma og sitji með foreldrum mínum og litla bróður við matarborðið. Og þetta voru hátíðlegar stundir sem ég á seint eftir að gleyma!

6. Confit du Canard með Puy linsum


Þetta er alveg mögnuð uppskrift. Linsurnar eru jarðbundnar og seiðandi og vega svo vel á móti næstum því sætu og feitu bragðinu af öndinni. 

Í þessari uppskrift notast ég við andaleggi sem hafa verið undirbúnir og lítið þarf að gera annað en að hita þá í ofni. En það er ekkert mál að gera þetta frá grunni. Eina sem þarf er smá tími og tvö kíló af andafitu! Uppskriftina er að finna í bókinni minni!



Þegar síðan mín varð fimm ára - nefndi ég þessa færslu sem mína uppáhalds. Og það verður að segjast að hún er það auðvitað ennþá. Þó þróast bragðlaukarnir og ætli ég myndi í dag ekki nefna porchetta italiana sem er í algeru uppáhaldi í dag - en uppskriftina af henni er að finna í bókinni minni. 

Þessi stendur þó alltaf fyrir sínu og þegar það fer að hausta býð í svona kjötsósuveislu. Þessi réttur kenndi mér að það þarf ekki flókin hráefni til að elda dásamlega ljúffengan mat - í þessari uppskrift er auðvitað íslenskt lambakjöt en aðalhráefnið er tími. Að gefa sósunni tíma til að malla á lágum hita, sjóða niður svo bragðið nái að þróast - að draga það besta úr þeim fáu hráefnum sem sett voru í sósuna. Og ætli það skemmtilegasta sé ekki að njóta hennar með góðum vinum og vandamönnum. Sjá hvað allir verða glaðir og mettir - hlægja og lyfta glösum!


*

Ég von að þið haldið áfram að líta við á síðunni minni - ég mun án efa halda ótrauður áfram að skrifa um mitt helsta hugðarefni; eldamennsku, mat og drykk. Fátt gleður mann nefnilega meira en að heyra að fólk kunni að meta það sem maður er að gera - það er hreint út sagt ótrúlega verðlaunandi. 

Hlakka til að halda þessu áfram. 

Núna er kominn tími til að njóta!




No comments:

Post a Comment