Eins og margir lesendur hafa tekið eftir er ég staddur á Íslandi um þessar mundir að fylgja eftir bókinni minni, Lækninum í eldhúsinu - Tími til að njóta, úr hlaði. Á föstudagskvöldið var útgáfuteiti í Eymundsson á Skólavörðustíg og fjöldi fólks kom í heimsókn og fagnaði með mér. Það var heilmikið um að vera og um tíma voru bækurnar uppseldar í búðinni og það þurfti að sækja fleiri bækur á lagerinn í Fákafeni. Þetta var alveg einstaklega gaman og ég er afar þakklátur fyrir þessar móttökur - mér nánast vöknar um augun. Takk fyrir mig, innilega!
Og það er svo gaman að sýna fólki bókina. Sýna fólki verk sem hefur átt hug manns allan síðustu misseri. Og þetta er líka búið að vera mjög gaman. Elda og borða mat eins og enginn sé morgundagurinn - hvað er betra. Allavega veit ég ekki um betri örlög.
Parmaostur er í miklu uppáhaldi á mínu heimili. Elsta dóttir mín, Valdís Eik, og Vilhjálmur Bjarki geta borðað þennan ost eins og snakk. Ég er vanur að kaupa eins kílóa stykki - þannig fær maður besta verðið og þannig er ég venjulega nokkuð vel birgur. Og þetta vita börnin mín. Stundum þegar ég sæki ostinn inn í ísskáp er búið að brjóta aðeins af honum. Mýsnar hafa komist í ostinn - eða hvað!
Ofngrillaðar kjúklingabringur með parmaostsósu og fersku tómatasalati
Þetta er einfaldur réttur. Og ekki inniheldur hann mörg hráefni - eða flókin!
Raspið niður 175 gr af parmaosti. Gefið parmasjúkum börnum ykkar 25 grömm svo að hægt sé að nota afganginn í matinn!
Saltið og piprið nokkrar kjúklingabringur og steikið í timianbragðbættu smjöri - þannig að þær brúnist að utan.
Raðið kjúklingabringunum í eldfast mót sem hefur verið smurt með heimagerðri hvítlauksolíu.
Hellið 50 ml af hvítvíni á heita pönnuna til að losa allan "fond" frá botninum. Bætið svo við 150 grömmum af rjómaosti, 50 ml af rjóma og blandið saman. Setjið síðan allan parmaostinn saman við og hitið upp þannig að hann bráðni í sósunni. Saltið og piprið.
Hellið síðan parmaostsrjómasósunni yfir kjúklingabringurnar og bakið í ofni í 25 mínútur við 180 gráður. Með þessu höfðum við spergilkál og ferskt salat.
Með matnum drukkum við þetta ljúffenga hvítvín. Wolf Blass Yellow Label Chardonnay frá því 2011. Þetta er ástralskt vín. Létt og frískandi, ávaxtaríkt með sýrukeim sem passaði vel á móti ríkulegri parmaostsósunni.
Núna loksins er kominn tími til að njóta!
No comments:
Post a Comment