Friday, 8 November 2013

Gómsætar steiktar grísalundir með sveppum og seiðandi madeirasósu



Þetta hefur verið ákaflega spennandi og skemmtileg viku. Fyrir viku síðan kom ég til Íslands að halda útgáfuteiti í tilefni af útgáfu bókarinnar minnar. Henni var ákaflega vel tekið og það var fullt af fólki í veisluna sem haldin var í Eymundsson Skólavörðustíg, svo mikið að bókin seldist upp í búðinni tímabundið og það þurfti "akút" að sækja fleiri. Um helgina fór ég í skemmtilegt viðtal hjá Guðrúnu Gunnars á Rás 2, náði að hitta fullt af gömlum vinum, tók upp auglýsingar, bauð allri fjölskyldunni í mat, fór oft í sund og rétt áður en hoppað var upp í flugvél á leiðinni tilbaka til Lundar stoppaði Marta María í Smartlandinu hjá okkur og ég náði að elda fyrir hana hádegismat. Þvílíkt fjör.

Þegar heim var komið tók ég við gigtardeildinni - fullt að spennandi viðfangsefnum sem bíða manns í dagvinnunni. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta séu annasamir, örvandi og skemmtilegir tímar. Ég hlakka til næstu vikna, vinna á gigtardeildinni, blogga, kynna bókina mína og svo sérstaklega að koma heim til Íslands aftur þann 21. nóvember og taka þátt í bókamessunni í Ráðhúsinu. Vona að fólk kíki í heimsókn. Er að skoða möguleikann að fá að elda eitthvað fyrir gesti og gangandi - sjáum hvernig rætist úr því verkefni. Það væri gaman að koma með paellugræjurnar heim og snara einhverju fram!

Í kvöld fengum við góða gesti í heimsókn, Eddi tengdafaðir minn og svo Dórótha stjúptengdamóðir mín. Það var því um að gera að reyna að elda eitthvað almennilegt handa þeim!

Gómsætar steiktar grísalundir með sveppum og seiðandi madeirasósu



Madeira vín á rætur að rekja til eyju vestur af Afríku sem ber þetta nafn. Portúgalar fundu eyjuna 1419 og námu land þar árið eftir. Á sextándu öld var vínrækt orðin rótgróin á eynni. Þetta varð fljótt vinsæll áfangastaður sæfara sem vildu hafa með sér vín til drykkjar. Til að koma í veg fyrir að vínið skemmdist á ferðalögum til Nýja heimsins tóku menn til þess bragðs að styrkja vínið með sterku áfengi og sykri til að hindra að það eyðilegðist. Á ferð sinni um heiminn tók vínið að breytast - bragðið að þroskast og úr varð Madeira vínið sem er heimsfrægt. Ætli það hafi þó ekki verið frægara á árum áður - alltént kemur uppskriftin fyrir í bókum Auguste Escoffier sem afbrigði af móðursósunum - þar sem þykkt brúnt soð er bætt með Madeira víni - og verður harla ljúffengt!

Innihaldslýsing

1 kg grísalundir
300 gr sveppir
1 gulur laukur
3 hvítlauksrif
3 lárviðarlauf
100 gr smjör
Salt og pipar

Fyrir sósuna;

600 ml dökkt kjötsoð
100 ml madeira
smjörbolla (40 gr smjör/40 gr hveiti)
1 tsk soya sósa
1 tsk góð sulta
1/2 tsk Worchehestershire sósa
50 ml rjómi
salt
pipar

Jæja - nú byrjum við;



Byrjið á því að skera einn rauðlauk og þrjú hvítlauksrif smátt. Steikið á pönnu með 30 gr af smjöri. Saltið og piprið.


Skerið sveppina í helminga eða fjórðunga eftir stærð og bætið á pönnuna, ásamt 30 gr af smjöri til viðbótar og svo skvettu af jómfrúarolíu. Bætið þremur lárviðarlaufum á pönnuna. Saltið og piprið. Þegar laukurinn og sveppirnir eru fallega brúnaðir - takið þá af pönnunni og setjið til hliðar.


Hreinsið tvær svínalundir og þerrið vel - vel þurrt kjöt karmelliserast betur!


Skerið svínalundirnar í medalíur cirka 3-4 sentimetra á hæð. Saltið og piprið. 


Bætið núna afganginum af smjörinu á pönnuna og bræðið og þegar smjörið hefur þagnað (hættir að freyða), raðið þá svínamedalíunum á pönnuna og brúnið í stutta stund á báðum hliðum.


Setjið síðan í eldfast mót, raðið sveppunum ofan á og skreytið með grein af fersku timiani. Setjið inn í ofn við 180 gráður og bakið þangað til að kjarnhiti er kominn í 65 gráður.

Á meðan útbúið þið Madeira sósuna. Fyrst hellið þið 50 ml af Madeira á pönnuna sem sveppirnir og kjötið var steikt í til að "deglaze" og ná upp öllu gúmmelaði sem varð til við steikinguna. 

Hitið 600 ml af heimagerðu kjötsoði (sjá síðu 335 í Lækninum í Eldhúsinu) eða notið teninga. Þykkið með smjörbollu (bræða smjör á pönnu, hellið hveiti saman við og hrærið í bollu) og bætið svo soðinu við. Þeytið vel á meðan. Saltið og piprið og smakkið til með sultu, soya og Worchestershire sósu. 


Raðið svo á disk og skreytið með steinselju. 


Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín frá Spáni - Baron de Lay Gran Reserva frá því 2004. Þetta er 100% Tempranillo vín. Fallega kirsuberjarautt í glasi. Þroskað vín - eikað með þurrkuðum ávexti. Bragðið berjaríkt og létt kryddað. Ljómandi góður sopi.



Berið fram með hrísgrjónum og svo einföldu salati.

Tími til að njóta!




No comments:

Post a Comment