Sunday, 13 October 2013

Gómsæt baka með villisvínalæri, haustlegu rótargrænmeti og ensku öli


Nágrannar mínir, Gustav og Ulrika Brogren, eiga veiðiland í Smálöndunum og þar er Gustav duglegur að stunda skotveiðar. Hann veiðir elg, dádýr og villisvín. Og það sem er best við þetta allt er að þau eru alltaf svo dugleg að gauka að mér villibráð sem hefur gert það að verkum að ég er með heila skúffu í frystinum fulla af elg, villisvína- og hjartarhakki, dádýrslæri, elgsinnanlæri og svo þessu villisvínalæri sem ég ákvað að nota að þessu sinni.

Villisvín hafa orðið að talsverðu vandamáli í Svíþjóð. Þau villisvín sem finnast í Svíþjóð í dag eru komin frá rússneskum villisvínum. Eftir því sem vinur minn sagði mér voru sænsku svínin ofveidd og hurfu um aldamótin. Á sjötta ártugnum fór að bera á rússneskum villisvínum sem döfnuðu vel í sænskum skógum og núna reiknast stofninn vera í kringum 175.000 þúsund dýr. Þau eru farin að leita út fyrir skógana, trufla bændur og valda mörgum umferðarslysum árlega. Svíum er mikið í mun að halda stofninum í skefjum sem er hægara sagt en gert. Í mildu veðurfari geta gylturnar eignast 6-8 grísi í hverju goti og tekst stundum að gjóta tvisvar á ári. Mér skilst að 55.000 svín séru skotin árlega - og nokkrir kjötbitar hafna í frystinum mínum.

Mér verður alltaf hugsað til æsku minnar þegar ég hugsa um villisvín - og ekki vegna þess að ég hafi nokkra reynslu að því að borða villisvín - wild boar - en ég var mikill aðdáandi Ástríks og Steinríks í Gaulverjalandi og þeir kunnu, sko, að meta villisvín. Og það er skiljanlegt - þetta er herramannsmatur.

Gómsæt baka með villisvínalæri, haustlegu rótargrænmeti og ensku öli



Við notuðum Hobgoblin enskt öl sem er ansi mjúkur sopi og mér datt hug að gæti passað vel með villisvínalæri. Við vorum einnig með rótargrænmeti - gulrætur, nýpur (parsnip) og seljurót auk þess að ég var að sjálfsögðu með lauk, sellerí og hvítlauk.


Fyrst var að hluta niður lærið. Lykilbeinið var þegar farið þannig að úrbeina kjötið var auðvelt. Bara skera meðfram beininu.


Svo var kjötið bara skorið niður í munnbitastóra bita. Saltað og piprað. 


Skar niður einn gulan lauk, tvær sellerísstangir og einn sóló-hvítlauk (4-5 hvítlauksrif) sem ég steikti í olíu. Saltað og piprað. Þegar það fór að mýkjast bætti ég tveimur gróft skornum gulrótum, þremur nýpum og svo einum heldur smáum seljurótarhaus. Þegar grænmetið fór að taka lit setti ég það til hliðar til að brúna kjötið að utan. 


Kjötið var steikt að utan bara í stutta stund - til að fá lit að utan og til að loka því!


Þá hellti ég úr tveimur flöskum af hobgoblin öli og setti svo allt grænmetið ofan í pottinn og blandaði saman ásamt tveimur kúfuðum matskeiðum af tómatapúré.


Setti síðan einn lítra af heimagerðu kjötsoði, saltaði vel og pipraði og tróð niður vænum kryddvendi - með steinselju, lárviðarlaufum, timian og rósmaríni. Suðan fékk að koma upp og svo var potturinn færður inn í ofn við 170 gráður í þrjár klukkustundir.


Ilmurinn í húsinu var dásamlegur. Færði kjötið og grænmetið yfir í eldfast mót. Smakkaði til sósuna - með salti og pipar og sauð hana upp og þykkti með maizenamjöli og hellti því svo yfir kjötið og grænmetið.


Rúllaði síðan út fimm plötur af smjördeigi - þannig að það myndi duga til að hjúpa eldfasta mótið. Gerði nokkur loftgöt, penslaði með eggi og bakaði síðan í 180 gráðu heitum ofni þangað til að smjördeigið var fallega gullinbrúnt.



Með matnum drukkum alveg fyrirtaks vín sem ég fékk að gjöf nýverið. Ég er mjög hrifinn af vínum frá þessum ítalska framleiðenda. Bæði eru gæðin góð og þau eru líka á góðu verði. Þessi flaska er með þeirra betri vínum. Masi Amarone Costasera frá því 2007. Þetta er dúndur gott vín - dökkrautt í glasi, þykkt á tungu með miklum krydduðum, nærri því sultuðum ávexti. Eftirbragðið með vott af ljúfri eik. Það er svo gaman að drekka góð vín!


Borið fram með einföldu salati og heimagerðum frönskum!

Tími til að njóta!

Lesendum er boðið í útgáfupartí matreiðslubókarinnar sem ég er að fara að gefa út, Læknirinn í Eldhúsinu - tími til að njóta, sem verður haldin 1. nóvember næstkomandi.

Veislan verður haldin í Eymundsson - Skólavörðustíg og byrjar kl 17.00.

Verið öll velkomin!

Fylgist með uppákomum á Facebook: The Doctor in the Kitchen!


No comments:

Post a Comment