Sunday, 1 September 2013

Valdís eldar; Gamaldags gómsætt kjöt í karrí með hrísgrjónum og salati

Dóttir mín, Valdís Eik (12 ára) hefur tekið að sér það verkefni að sjá um matargerðina á þriðjudagskvöldum á vetri komandi. Ég var á svipuðum aldri þegar ég fór að hjálpa til í eldhúsinu í Lönguhlíðinni hjá mömmu og pabba. Og ég held hreinlega að það hafi verið það sem kveikti hjá mér ástríðuna fyrir mat og matargerð. Mamma mín kenndi mér að gera lista, versla í matinn, elda réttinn sem ég fékk að velja sjálfur og svo sá ég meira að segja um fráganginn. Það þurfti ekki mörg skipti til að ég varð sjálfstæður og gat séð um þetta að mestu. Ætli það sé ekki svo - fái maður ábyrgð til að leysa eitthvert verkefni þá rísa flestir undir henni. Þannig var það allavegana í mínu tilviki.

Svo vona ég auðvitað að börnin mín fái líka áhuga á því að elda og borða góðan mat. Þekki hvað er hollt og nytsamlegt og velji vel það sem þau láta ofan í sig. Þetta er jú ein sú mikilvægasta þekking sem við látum börnunum okkar í té. Hvernig á að sjá um að elda ofan í sig og fólkið í kringum sig. Fyrir nú utan samverustundirnar við matarborðið, þar sem hægt er að deila því sem gerðist um daginn, ræða málin og heyra hvað börnunum liggur á hjarta.

Það kom mér nokkuð á óvart þegar að dóttir mín stakk upp á þessum rétti. Hann hef ég eiginlega aldrei eldað sjálfur. Mamma gerði hann oft og auðvitað er hann ljúffengur. Þetta er einföld eldamennska og byggir á því að vera með gott hráefni. Ég hafði tekið með mér lambakjöt frá Kjöthöllinni í Skipholtinu, sem ég hafði hugsað mér að nota í kjötsúpu þegar færi að hausta en auðvitað hentaði það líka vel til þessa verkefnis!

Valdís eldar: Gamaldags gómsætt kjöt í karrí með hrísgrjónum og salati


Kjötið fékk að þiðna í ísskápnum í heilan sólarhring. Kjötið þarf að sjóða að lágmarki í klukkustund í vel söltuðu vatni til að verða nógu meyrt til að það falli af beinunum. Valdís sauð það í 35 mínútur í þrýstipottinum mínum til að spara tíma. 


Ég leiðbeindi Valdísi um það hvernig á að undirbúa smjörbollu. 60 gr af smjöri brætt í potti. 


Í smjörið setti Valdís síðan 60 gr af hveiti og tvær teskeiðar af karrídufti.


Svo setti Valdís einn lítra af lambasoðinu af kjötinu ásamt lambateningi til að fá meiri kraft. Hrært vel saman og soðið í 10 mínútur til að sjóða burt hveitibragðið. Næst setti Valdís þrjár til fjórar msk af rjóma, tvær matskeiðar af soyasósu og saltaði svo vel og pipraði.


Get ekki betur séð en að kokkurinn sé stoltur af frammistöðu sinni. 


 Með kjötinu voru borin fram soðin Basmati hrísgrjón og einfalt salat með marglitum kirsuberjatómötum.


Maturinn heppnaðist frábærlega. 

Hlakka til að prófa það sem hún töfrar fram næsta þriðjudag.

Tími til að njóta!

2 comments:

  1. Uppáhaldsuppskriftin mín :) Myndarleg ung stúlka sem þú átt :)

    ReplyDelete
  2. Uppáhaldsuppskriftin mín :) Myndarleg ung stúlka sem þú átt :)

    ReplyDelete