Sunday, 15 September 2013

Risa-Risotto og ljúffengt focaccia brauð á síðbúnu þrítugsafmæli Snædísar

Mín kæra eiginkona átti afmæli núna á dögunum og við ákváðum að bjóða til veislu. Við sögðum í gríni að við værum að halda upp á þrítugsafmælið hennar - sem í sjálfu sér var satt og rétt þar sem við náðum aldrei að halda það hérna um árið. Þá hafði mér boðist að fara á námskeið í lyflækningum - þar sem 1-2 fulltrúar frá hverju Evrópulandi var boðin þáttaka. Snædís var ekkert yfir sig hrifinn af tímasetningunni, en þar sem myndu halda upp á afmælið síðar hlyti þetta núna að vera í lagi. Og núna 6 árum síðar slógum við til.

Það var nú samt gott að ég fór á þetta námskeið þar sem kynntist hópi lækna frá nokkrum ólíkum löndum og okkur varð mjög vel til vina og höfum haldið sambandi síðan þá. Höfum farið saman á skíði nokkrum sinnum og mætt í brúðkaup, sjá hérna, og veislur hingað og þangað.

Jæja, aftur að þessari veislu. Núna í vor buðum við einnig til veislu þar sem ég gerði paellu - uppskriftina að henni verður að finna í bókinni minni sem mun koma út eftir nokkrar vikur. Núna var semsagt hugmyndin að prófa að gera risotto á sömu pönnuni. Og viti menn - það heppnaðist stórvel!

Risa-Risotto og ljúffengt focaccia brauð á síðbúnu þrítugsafmæli Snædísar

Hráefnalisti

Grunnur fyrir brauð (fyrir veislu)

5 kg hveiti
4 lítrar vatn
100 gr salt
100 gr sykur
4 pakkar þurrger

Focaccia:

Fletja út deigið og dreifa svörtum Kalamata ólívum, grænum ólívum, tómtötum, hvítlauk og fersku rósmarín yfir

Risa-Risotto

5 kg Arboríó hrísgrjón
5 heilir kjúklingar
2 kg sveppir
250 gr smjör
50 ml jómfrúarolía
Salt og pipar
6 laukar
1 búnt sellerí
2 hvítlaukar
1,5 l hvítvín
12 l kjúklingasoð
700 gr Parmaostur
300 gr smjör





Ég byrjaði á því að gera brauðið - ákvað að setja í það þegar á föstudagskvöldið þannig að það fengi góðan tíma til að hefast. Mér finnst brauð sem hafa fengið að hefast lengi við aðeins lægra hitastig gjarnan hafa betra bragð.


Fimm kíló af hveiti, fjórir lítrar af vatni, 100 grömm af salti, 100 af sykri og svo 4 pakka af geri var blandað saman í stórum plastbala. Fékk að hefast fyrst þrjár klukkustundir inni og svo úti yfir nótt við sirka 12 gráður í samtals 16 tíma. 


Setti nóg af hveiti á borðið til að það festist ekki við. Lamið niður og hnoðað í nokkrar mínútur.


Setti jómfrúarolíu í botninn á ofnskúffum og lagði deigið ofan í. Bjó til brunna og hellti svo meiri jómfrúarolíu yfir. Raðaði svo ýmist svörtum Kalamata ólívum, grænum ólívum, tómtötum, hvítlauk og rósmarín og bjó þannig til nokkrar ólíkar útgáfur. Að lokum nóg af salti og svörtum pipar. 


Fékk svo að hefast aftur í klukkustund áður en þær fóru inn í ofninn.


Brauðið heppnaðist vel - varð stökkt að utan með lúngamjúkt að innan. 


Það viðraði frábærlega til veisluhalda. Við settum upp útieldhús og stilltum öllum græjum upp. Fengum borð og stóla lánaða hjá nágrönnunum þannig að allir gætu setið til borðs. 


Allt var tilbúið - svo var bara að byrja að elda.


Steikti 2 kg af sveppum upp úr 250 gr af smjöri og 50 ml jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Þegar þeir voru fallega brúnaðir og ilmuðu dásamlega voru þeir settir til hliðar. 


Hlutaði niður og úrbeinaði fimm kjúklinga sem ég síðan steikti upp úr smjöri og olíu. Þegar þeir voru orðir fallega gullinbrúnir voru þeir lagðir til hliðar.


Steikti síðan sex smátt saxaða lauka, heilt búnt af niðurskornu sellerí og tvo hvítlauka (smátt skorna) á pönnunni. Þegar grænmetið var farið að glansa var setti ég fimm kíló af hrísgrjónum á pönnuna. 


Ég notaði Arboríó hrísgrjón - steikti þau með grænmetinu þangað til að þau fara aðeins að verða ljós í köntunum. Þá hellti ég 1,5 L af hvítvíni saman við og sauð upp áfengið. 


Næst var að setja heimgert kjúklingasoð saman við - könnu og könnu í senn. Ég átti 8 L af heimagerðu soði en það dugði ekki til þannig að ég bætti við 4 L af vatni og smá krafti sem því nam. Auðvitað var saltað vel og piprað. 

Grjónin eru elduð þangað til að þau eru al dente. Þá setti ég 700 gr af Parmaosti saman við ásamt 300 gr af smjöri sem fékk að bráðna saman við grjónin.


Gerðum einfalt salat; grænlauf, tómata og parmaost í bitum. Bjó til einfalda dressingu á salatið - einn hlutur balsmikedik, þrír hlutar jómfrúarolía, tvær teskeiðar dijon sinnep, einn saxaður hvítlauksgeiri og svo salt og pipar. 




Og svo var bara að gefa fólki að borða! Og að drekka. 


Við vorum bæði með Lindemans Chardonnay hvítvín í búkollum - sem stendur alltaf fyrir sínu og svo Trivento mixtus rauðvín frá Argentínu sem er blanda af Shiraz og Malbec - alveg ljómandi góður sopi sem við gerðum góð skil um kvöldið. 


 Ég sá ekki betur en að þetta hafi runnið ljúflega niður!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment