Wednesday, 11 September 2013

Beikonvafinn skötuselur með ristuðu-hvítlauks aioli og blönduðum strengjabaunum

Ég nefndi um daginn á Facebook síðunni minni að ég hefði fundið skötusel í frystinum hjá mér. Ég hafði víst gleymt honum síðan að ég var síðast á Íslandi - sem var nú í sumar. Það er alltaf gaman að finna svona ljúfmeti - eitthvað sem maður hélt að maður væri búinn að nota. Svolítið eins og að finna þúsundkall í buxum sem maður ætlaði að skella í þvottinn. 

Ég reyni alltaf að fá dálítið af fiski þegar ég er á Íslandi. Og það gengur furðuvel að koma honum til Lundar. Ég er vanur að frysta hann, vefja honum síðan vel inn, skella honum í töskuna á leiðina á flugvöllinn. Sem betur fer er ísskalt í farangursrýminu - þannig að hann hefur alltaf verið gaddfreðinn þegar hann kemur á leiðarenda. 

Það er líka gaman að kaupa fisk á Íslandi, sérstaklega í fallegum fiskbúðum eins og þeirri sem er að finna á Sundlaugarveginum - svo eru líkar margar aðrar góðar! Þegar ég hef nefnt þetta á blogginu eða á Facebook hef ég alltaf fengið einhverjar athugasemdir um að fiskurinn á Íslandi sé svo dýr - en við sem búum erlendis - fyrir okkur er þetta þveröfugt. Fiskur er í Svíþjóð munaðarvara - sem í ofanálag er ekki af nærri sömu gæðum og hægt er að nálgast á Íslandi. 



Beikonvafinn skötuselur með ristuðu-hvítlauks aioli og blönduðum strengjabaunum

1 kg skötuselur
500 gr beikon
1 hvítlaukur
2 msk jómfrúarolía
500 gr 
blandaðar baunir
Salt og pipar


Aioli

2 eggjarauður
1 teskeið dijion
1 tsk sítrónusafi
300 ml jómrúarólía
1 tsk hvítvínsedik



Þó að fiskurinn hafi verið aðalrétturinn - þá var aðferðin kannski ekki sú frumlegasta - ég hef bloggað um beikonvafinn fisk áður. Get eiginlega ekki leynt því. En það er gott að vefja fisk beikoni og baka í ofni.

Ætli nýlundan sé ekki fólgin að þessu sinni í heimagerða aioli-inu sem ég gerði með ofnsteiktum hvítlauk!


Skötuselur er þéttur fiskur. Og heldur sér vel við eldun.


Aftan á honum er þessi himna sem gott er þó að taka af. Stundum kemur hún af í einu lagi en að þessu sinni varð ég að gera tvær atlögur að henni til að fá hana af.


Vafði heilan hvítlauk, með skvettu af góðri jómfrúarolíu og bakaði í ofni í 45 mínútur.



Skötuselurinn var snyrtur til og vafinn inn í nokkrar sneiðar af beikonu. Nuddaði upp úr olíu, pipar, og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.



Með matnum var ég með blandaðar baunir; vaxbaunir og svo venjulegar strengjabaunir sem fást núna ferskar á grænmetismörkuðum niðri í bæ.


Það er furðu auðvelt að gera aioli. Setjið tvær eggjarauður í skál, eina teskeið af dijion, eina tsk af sítrónusafa og þeytið svo saman. Hellið svo olíunni, 300 ml, fyrst dropa og dropa í senn og svo í straumi þegar olían fer að bindast. Þegar öll olían er kominn saman við setjið þið eina teskeið af hvítvínsediki og svo eins mikið af ofnsteikta hvítlauknum og hugurinn girnist. Hann er núna sætur og ljúffengur.



Með matnum gæddum við okkur á þessu fyrirtaks hvítvíni frá Ítalíu. Masi Masianco frá því 2012. Þetta er vín gert úr Pinot Grigio og Verduzzo þrúgum. Þetta er létt og frískandi vín, með góðu ávaxtabragði sem liggur vel á tungunni og með ljúfu og örlítið sætu hungangskenndu eftirbragði.  


Njótið með góðu vínglasi með góðum vinum!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment