Monday, 8 July 2013

Grillaðar sinnepsgljáðar grísalundir með piparrjómasósu og haloumi og kúrbítssalati


Það hefur verið ljómandi veður undanfarna daga hjá okkur í Lundi. Við gátum notað helgina vel, skotist á ströndina, unnið í að ná smá "brúnku" áður en að við komum til Íslands í lok vikunnar. Mér skilst að það verði bara súld sem bíði okkar á Fróni. En við ætlum að hitta marga vini og ættingja þannig að það mun ekki væsa um okkur!

Við hlökkum mikið til! Valdís Eik, dóttir mín, fór til Íslands fyrir nokkrum vikum og skutu afar og ömmur yfir hana skjólshúsi. Hún hefur unað sér vel. Elsta og yngsta dóttirin spjölluðu saman á Skype nýverið og sú yngsta reyndi að klifra inn í tölvuna - eitthvað virðist hún sakna stóru systur sinnar. Og það gerum við reyndar öll! 

Þetta var ákaflega einfaldur og ljúffengur réttur. Það er eitthvað náttúrulegt við að grilla þegar veðrið er svona gott! Tylla sér með léttvínsglas út á pall og elda utandyra. Og maturinn verður einhvernveginn betri fyrir vikið. Sósan var ofureinföld og samanstóð að mestu úr piparrjómaosti sem ég fann útí búð. Var að reyna að líkja eitthvað eftir íslenska piparostinum sem mér finnst sérlega góður á sinn gúmmíkennda hátt! 

Grillaðar sinnepsgljáðar grísalundir með piparrjómasósu og haloumi og kúrbítssalati

Hráefnalisti

1 kg grísalundir
2 msk jómfrúarolía
2-3 msk Grey Poupon sinnep
Salt og pipar

Meðlæti - Haloumi salat

1 kúrbítur
Haloumi ostur
Salt og pipar
Jómfrúarolía
Laufsalat
Fersk mynta
Sítrónusafi

Hvít sósa

100 ml af rjóma
2 msk græn piparkorn
150 gr piparrjómaostur

Salt og pipar

Fyrst var að pensla grísalundirnar með jómfrúarolíu, salta og pipra og smyrja grófu Grey Poupon sinnepi í ríkulegu magni á lundirnar. Látið standa í 30 mínútur í kæli!


Haloumi salatið var líka einfalt. Lagði beð af grænum laufum sem vaxa í kálgarðinum mínum á disk. Skárum ostinn og kúrbítinn í sneiðar og pensluðum með olíu. Salt og pipar. Og svo grillað. 

Raðað á diskinn. Góðri jómfrúarolíu dreift yfir. Fersk mynta og svo safi úr hálfi sítrónu. Dásamlegt. 





Lundirnar voru grillaðar upp í tæplega 70 gráðu kjarnhita. Það þarf ekkert lengur að stressa sig á svínakjöti. Sýkt svínakjöt hefur ekki verið vandamál í áratugi. 



Kjötið fékk að standa í 10-15 mínútur áður en það var skorið í sneiðar. 

Og á meðan gerði ég sósuna. Setti 100 ml af rjóma í pott ásamt 2 msk af grænum piparkornum og svo 150 gr af piparrjómaosti. Hitað og osturinn bræddur. Saltað og piprað eftir smekk. 



Með matnum nutum við Beringer Stone Cellars Cabernet Sauvignion frá árinu 2011. Þetta er vín frá Kaliforníu og er kraftmikið og ljúffengt vín með ágætri fyllingu og ríkulegu berjabragði. Þurrt rauðvín sem fór vel með svínalundunum.




Þetta var einstaklega ljúffeng máltíð. 

Tími til að njóta! 

No comments:

Post a Comment