Tuesday, 30 July 2013

Fiskiveisla í Lækjarkoti; humar, blálanga og klaustursbleikja - ég elska íslenskan fisk!


Á meðan við vorum á Íslandi síðastliðna viku dvöldumst við lengst af í Lækjarkoti í Kjósinni.. Þessi staður er mitt uppáhald á Íslandi! Foreldrar mínir, Ingvar og Lilja, keyptu þetta hús 2001 og hafa síðan þá nostrað við það og gert það dásamlegt. Fyrst var húsið 35 fm en á síðastliðnum árum hefur bæst við miðhús, nýja hús, heitur pottur og núna seinast gufubað. Hjónakornin deila með sér verkum, mamma sér um það mesta að innan og faðir minn sér um allt að utan. Þarna eiga allir sitt fleti og þarna deilum við saman okkar bestu stundum.

Ég hafði komið við í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - og spjallaði þar við Steingrím fisksala. Ég gekk þaðan út með dásamlegan humar, löngu og klaustursbleikju. Það varð því auðséð að úr ætti að fiskiveisla á grillinu.


Þessir kátu frændur sáu um að gera salatið. Og voru ekkert smá stoltir!

Fiskiveisla í Lækjarkoti; humar, blálanga og klaustursbleikja - ég elska íslenskan fisk!

Þegar unnið er með gott hráefni þarf lítið að hafa fyrir hlutunum. Það á sérstaklega við sjávarfang!
Fátt er betra en ferskur íslenskur fiskur - og hans sakna ég mikið í Svíþjóð.


Valdís var liðtæk að hjálpa mér í eldhúsinu. Ég kenndi henni að opna humarinn og leggja hann ofan á skelina eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan.


Og þetta er afar einfaldur humarréttur - bara pensla humarinn með hvítlauksolíu. Salta og pipra og svo setja nokkrar smjörklípur ofan á. Grilla á blússheitu grilli í nokkrar mínútur. Bera svo fram með ristuðu brauði og einfaldri hvítlaukssósu. Ein dós af sýrðum rjóma og svo tvö til þrjú smátt hökkuð hvítlauksrif, salt og pipar og ein matskeið af hlynsírópi. Ekki væri til vansa að setja smátt saxaða steinselju með.


Svo grillaði ég líka þessa ljúffengu Klaustursbleikju á grillinu. Fyrst skar ég niður einn gulan lauk, tvær gulrætur, tvö hvítlauksrif og eina púrru í sneiðar og steikti í tveimur matskeiðum af smjöri. Saltaði vel og pipraði.


Síðan lagði ég bleikjuna ofan á og saltaði og pipraði. Að lokum fór svo eitt glas af hvítvíni með grænmetinu og sauð upp og gufusauð bleikjuna. Ljúffengt. 


Þrátt fyrir að hafa bæði humar (sem ég elska) og svo ljúffenga bleikjuna þá var þessi ofureinfaldi réttur sigurvegari kvöldsins. Fyrst var blálöngunni velt upp úr bragðbættu hveiti. Setti bolla af hveiti í skál, matskeið af papríkudufti, salti og pipar og blandaði saman. Velti svo fiskinum upp úr þessu og dustaði af. Bræddi síðan matskeið af smjöri á pönnu og steikti fiskinn á báðum hliðum. Setti síðan 30 ml af hvítvíni - sauð upp og svo 150 ml af rjóma á pönnuna og hitaði af suðu. Rjóminn þykknaði (vegna hveitisins) og myndaði þessa ljúffengu sósu.


Dásamlegur humar.


Ljúffeng blálanga.


Og svo gómsæta bleikjan. 




Með matnum fengum við okkur Beringer Napa Valley Sauvignion Blanc frá 2010 - sem ég smakkaði síðast í haust um það leyti sem litlan mín, Ragnhildur Lára, var nýfædd. Ljúffengt vín. Þetta vín er gert úr Sauvignion Blanc þrúgunni og hefur fengið ágæta dóma á Wine Spectator, um 85 púnta. Þetta er þurrt hvítvín með bragðmikið ávöxt sem er einnig létt eikaða tóna.

Tími til að njóta!

Friday, 19 July 2013

Chablis kjúklingur á grillinu í Lækjarkoti



Þetta er einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttum og hef ég eldað hann oft upp á síðkastið. Hann er sérlega ljúffengur. Og ætli það sé ekki vegna þess að ég held að þetta sé mín eigin "orginal hugmynd". Ég gerði hann fyrst þegar við vorum í húsbílaferð um Frakkland haustið 2010. Þá leigðum við forlátan húsbíl og fjölskyldan, ásamt bróður mínum, lagði land (réttara sagt hjól) undir fót. Við ókum um Bruges í Hollandi, síðan til Champagne héraðs, þá til Búrgúndar, til Júra og svo Sviss og loks tilbaka í gegnum Alsace. Dásamleg ferð. Hægt er að sjá upprunalegu færsluna hérna.

Eitt kvöldið dvöldum við á vínekru Jean Marc Brochard rétt utan við Chablis. Um daginn höfðum við gert okkur ferð í bæinn og verslað sitt lítið af hverju - kjúkling, sýrðan rjóma og splunkunýjar kantarellur. Og úr varð þessi réttur.

Núna erum við stödd í sumarbústað foreldra minna við Meðalfellsvatnið - stemmingin ljúf og góð þrátt fyrir veðrið. Náðum meira að segja í smá sólarglætu á miðvikudaginn þegar við elduðum þennan frábæra rétt!



Chablis kjúklingur á grillinu í Lækjarkoti


Hráefnalisti

3 heilir kjúklingar
Salt og pipar
3 msk jómfrúarolía
2 tsk hvítlaukskrydd
2 laukar
500 gr sveppir
100 gr smjör
250 ml hvítvín
3 dósir sýrður rjómi
4 msk Djion sinnep
Salt og pipar

Meðlæti - steiktar kartöflur

800 gr kartöflur
Salt og pipra
1 msk smjör
Kjúklingafita

Ég byrjaði á því að úrbeina þrjá kjúklinga. Lagði vængina til hliðar og notaði bara bringurnar og leggina. Velti þeim upp úr smá olíu, salt og pipar og svo hvítlaukskryddi.



Skar svo tvo lauka í sneiðar, 500 gr af sveppum og steikti í 100 gr af smjöri. Saltaði og pipraði. 


Þegar sveppirnir voru vel karmelliseraðir voru þeir settir til hliðar og kjúklingurinn brúnaður.


Þegar hann var búinn að taka lit á öllum hliðum þá setti ég sveppina saman við og hitaði í gegn. Hellti svo yfir þetta 250 ml af hvítvíni og sauð upp. Þá setti ég þrjár dósir af sýrðum rjóma og 4 kúfaðar matskeiðar af Djion sinnepi útí. Þessu var öllu blandað vel saman og eldað á grillinu í 20 mínútur.


Með matnum vorum við með kartöflur í sneiðum, saltaðar og pipraðar og svo steiktar í smjöri og kjúklingafitunni þangað til fallega gullinbrúnar.



Ég keypti þessa búkollu í Ríkinu á leiðinni út úr bænum. Þetta er uppáhalds hvítvínið hennar mömmu minnar. Þetta vín hef ég drukkið margoft áður - og kannski ekki svo skrítið þar sem það er ansi ljúffengt. Þetta er fallega sítrónugult vín með góðan ávaxtakeim.


Borið fram með góðu salati. Allir sáttir, saddir og glaðir!

Og jafnvel þó að Chablisvín hafi hvorki verið sett í réttinn né drukkið með honum, fór ég samt í huganum suður til Frakklands - til Chablis héraðs í Búrgúnd og rifjaði upp dásamlega kvöldið sem við áttum þar saman fjölskyldan!

Tími til að njóta.

Thursday, 18 July 2013

Grilluð langa og eggaldin með gremolata og kraftmiklu salati að hætti Magga og Hafdísar

Það hefur verið nóg að gera síðastliðna daga eins og oft er þegar við komum til landsins. Það er fullbókað prógramm frá morgni til kvölds á meðan við erum í bænum að hitta vini og ættingja. Við erum vön að hefja daginn á því að skella okkur í sund. Erum búinn að prófa allar laugarnar nær miðbænum - Laugardalslaugina, Sundhöllina og svo Vesturbæjarlaugina. Þó svo að þær tvær síðastnefndu séu gamaldags þá er alltaf jafn huggulegt að svamla þarna um. Sér í lagi í Sundhöllinni - það er einhvern veginn svo nostalgískt. Sennilega er það vegna þess að ég var alltaf á sundnámskeiðum þar á meðan ég var í grunnskóla.

Okkur var boðið til vinahjóna okkar, Magnúsar og Hafdísar. Þau hjónin eru nýflutt í Álfheimana í fallega íbúð með fallegri rauðri innréttingu í eldhúsinu sem mun vera frá því að húsið var byggt í lok sjötta áratugarins. Það er langt síðan við hittumst og því nóg að spjalla um.

Gremolata er blanda af kryddjurtum, sítrónuberki og hvítlauk og er ljúffengt meðlæti með löngu - en því fer fjarri að bara sé hægt að nota það á fisk. Gremolata er fyrirtak með flestum grilluðum mat en kannski er það best með osso buco þar sem það lyftir þeim rétti í hæstu hæðir.

Grilluð langa og eggaldin með gremolata og kraftmiklu salati að hætti Magga og Hafdísar

Hráefnalisti

Gremolata

Handfylli steinselja
1 hvítlauksrif
Börkur af heilli sítrónu

1 kg langa
Salt og pipar

Meðlæti - Eggaldin

3-4 eggaldin
Jómfrúarolía
Salt og pipar
Rauður chilli
Ferskar kryddjurtir

Þetta er einföld matseld - en þannig er besti maturinn. Þá reiðir maður sig á góð hráefni - nýveidda löngu og ferskar kryddjurtir (sem Hafdís og Maggi rækta sjálf) og þá getur niðurstaðan ekki verið annað en ljúffeng.


Langa er afbragðs matfiskur - og hentar sérlega vel á grillið þar sem hann er þéttur í sér og heldur sér vel við eldun. Ég var svo innblásin af þessum rétt að daginn eftir fór ég beint út í fiskbúðina á Sundlaugaveginum og verslaði meira sjávarfang sem ég ætla að elda í kvöld í bústaðnum. Greini betur frá því á næstu dögum! 


Maggi skar niður eggaldinið í sneiðar og saltaði. Við það dregur maður vökva úr eggaldininu og beiskjuna. Kokkar og mataráhugamenn deila þó um þetta. Sumir segja að beiskjan verði til við oxun þegar eggaldinið er skorið og því eigi að elda það strax og það hefur verið skorið í heitri olíu. Sumir segja að beiskjan komi þegar eggaldinið þroskast og þá sé hægt að greina það á svörtu kornunum (fræjunum) sem sjást þegar eggaldinið er skorið. Hvað sem þessum deilum líður þá geri ég alltaf eins og Maggi og salta eggaldinið og læt það svitna í 30 mínútur. Svo er vökvinn þurrkaður burt og það eldað að vild. 

Magnús penslaði eggaldinið með olíu og saltaði og pipraði og grillaði á funheitu grilli. 


Langan var skorin í bita, pensluð með gremolata og svo grilluð þangað til elduð í gegn. Gremolata er einfalt að útbúa; Það þarf bara að saxa niður eina handfylli af steinselju, eitt hvítlauksrif og börk af heilli sítrónu og hræra vel saman. Einfalt, ekki satt?


Sett á fallegt bretti og svo meira gremolata bætt á. 


Loks var eggaldinu raðað með á brettið, ferskum kryddjurtum og ferskum smátt skornum chilli stráð yfir.



Við nutum hvítvíns með sem hefur verið lengi í uppáhaldi hjá mér. Náði mér í það í Fríhöfninni á leiðinni til landsins. Þetta er ástralskt hvítvín frá því 2010 og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ávöxtum, þykkt og smjörkennt og frískandi á tungu.

Með matnum var borið fram ferskt salat sem Magnús og Hafdís rækta sjálf á lítilli spildu í Laugardalnum.

Takk fyrir okkur Magnús og Hafdís!

Tími til að njóta!

Tuesday, 16 July 2013

Frábærar salatvefjur með kjúklingi, grænmeti, ávöxtum og dásamlegri hnetusósu allt að hætti Bryndísar

Við komum til Íslands nú á föstudaginn og tókum hús hjá foreldrum mínum, Ingvari og Lilju. Snædís fór með tvö yngstu börnin með hádegisvélinni en ég varð að standa vaktina á barnagigtardeildinni frameftir og fór því um kvöldið. Prógrammið um helgina var auðvitað þéttbókað. Hádeigisverður hjá tengdó í Kópavoginum á laugardaginn, matarmarkaður, búðarráp og svo matarboð hjá Vigdísi og Bassa. Þar fengum við ljúffengt Chilli con carne - ekki svo ósvipað því sem sjá í þessari færslu, sjá hérna

Í gær fórum við svo í Laugardalslaugina og svo í langa gönguferð um Öskjuhlíðina sem er nú vin innan borgarmarkanna. Það var stillt í veðri og ilmurinn af greninu og birkinu fyllti vitin. Meðfram stígunum hafði sprottið upp talsvert af sveppum sem því miður voru ekki ætir - en nóg til að vekja tilhlökkun til sveppatínslu í skógunum á Skáni. 



Um kvöldið fórum við í matarboð hjá Sverri og Bryndísi og strákunum þeirra í Norðurmýrinni. Við Sverrir höfum verið bestu vinir síðan að við vorum fimm ára gamlir - nú í 32 ár. Dísus ... hvað maður er að eldast! Bryndís er frábær kokkur - algerlega meiriháttar. Það var hún sem kom mér á bragðið með lambarifjurnar, sjá hérna - sem voru alveg dásamlegar. Og svo gerði hún handa mér nautasteik sem var svo stórkostleg að ég eldaði hana fyrir bókina mína - nánar um það þegar nær dregur jólunum. Í gær trompaði hún svo alveg með þessum rétt. 

Frábærar salatvefjur með kjúklingi, grænmeti, ávöxtum og dásamlegri hnetusósu allt að hætti Bryndísar




Hráefnalisti

1 kg kjúklingabringur
1/4 bolli soya sósa
2 msk lime safi
1 tsk engifer
1 tsk chilli duft
4 vorlaukar
1 tsk túrmerik
1 msk hlynsíróp

1 msk broddkúmen
Iceberg salat fyrir vefjur
Grænmeti, t.d. gulrætur, mangó, ag
úrka, melóna, graslaukur, rauð og gul papríka, baunaspírur

Sósa

5 cm engifer
1 rauður chilli
1 dl sítrónusafi
2/3 dl hlynsíróp
2 msk tamarind sósa
2 1/2 dl hnetusmjör



Kjúklingurinn var marineraður í nokkrar klukkustundir áður en hann var eldaður. Fyrst var kíló af kjúklingabringum skorið í þrjár strimla. Þá er eftirtöldu; 1/4 bolli soya sósa, tvær msk lime safi, ein tsk rifið engifer, ein tsk chilli duft, fjórir vorlaukar skornir í þunnar sneiðar, ein teskeið túrmerík, ein matskeið hlynsíróp, ein tsk broddkúmen. Til stóð að grilla herlegheitin en gasið kláraðist þannig að þær voru steiktar á pönnu.


 

Fjölbreytt úrval grænmetis var á boðstólunum. Iceberg salat var notað sem vefjur, og svo gulrætur, mangó og kóríander.


Og það var ennþá meira á boðstólunum; gúrka, heimagerð pækluð agúrka, melóna, graslaukur, rauð og gul papríka og svo ljúffengar baunaspírur sem voru steiktar á pönnu með einni matskeið af sesamolíu og einni matskeið af soyasósu ásamt einni matskeið af ristuðum sesamfræjum. 


Hnetusósan var eiginlega aðalmálið í þessari máltíð. Bryndís kallar hana happ-hnetusósu en hún minnir óneitanlega mikið á satay sósu þar sem undirstaðan er líka hnetusmjör.

Fyrst er þumlungur af fersku engifer, ásamt einum rauðum chilli pipar sett í matvinnsluvél og hakkað. Þá er rúmlega einum dl af sítrónusafa, 2/3 dl hlynsíróp, 2 msk tamarind sósu og 2 1/2 dl af hnetusmjöri bætt saman við og blandað vel saman. Látið standa í ísskáp þangað til að maturinn er borinn fram.


Kjúklingurinn var steiktur á pönnu og svo haldið heitum í eldföstu móti á meðan allt var steikt. Í lokin var 2 msk af soyasósu hellt á pönnuna og svo öllu hellt yfir kjúklinginn. 


Við drukkum Trivento Tribu Pinot Noir frá 2011 sem er ljómandi gott rauðvín frá Argentínu. Ég hef smakkað þetta vín áður - gott ef ekki einmitt með þeim hjónakornum, Sverri og Bryndísi. Þetta er góður sopi - fallega rúbinrautt í glasi, létt fylling með góðu berjabragði og léttri sýru. 


Við vorum alveg yfir okkur hrifin. Þetta er eitthvað sem verður reglulega eldað á mínu heimili.


Svo er ekki annað að gera en að raða þessu saman. Taka laufblað, hnetusósu, baunaspírur, melónu, papríku og kóríander. Dásamlegt. 



Þessi var svo með hnetusósu, kjúklingi, gulrótum, pæklaðri gúrku, baunaspírum og blaðlauk. Himneskt! 

Hvet ykkur eindregið til að reyna þetta! 
Tími til að njóta!

Monday, 8 July 2013

Grillaðar sinnepsgljáðar grísalundir með piparrjómasósu og haloumi og kúrbítssalati


Það hefur verið ljómandi veður undanfarna daga hjá okkur í Lundi. Við gátum notað helgina vel, skotist á ströndina, unnið í að ná smá "brúnku" áður en að við komum til Íslands í lok vikunnar. Mér skilst að það verði bara súld sem bíði okkar á Fróni. En við ætlum að hitta marga vini og ættingja þannig að það mun ekki væsa um okkur!

Við hlökkum mikið til! Valdís Eik, dóttir mín, fór til Íslands fyrir nokkrum vikum og skutu afar og ömmur yfir hana skjólshúsi. Hún hefur unað sér vel. Elsta og yngsta dóttirin spjölluðu saman á Skype nýverið og sú yngsta reyndi að klifra inn í tölvuna - eitthvað virðist hún sakna stóru systur sinnar. Og það gerum við reyndar öll! 

Þetta var ákaflega einfaldur og ljúffengur réttur. Það er eitthvað náttúrulegt við að grilla þegar veðrið er svona gott! Tylla sér með léttvínsglas út á pall og elda utandyra. Og maturinn verður einhvernveginn betri fyrir vikið. Sósan var ofureinföld og samanstóð að mestu úr piparrjómaosti sem ég fann útí búð. Var að reyna að líkja eitthvað eftir íslenska piparostinum sem mér finnst sérlega góður á sinn gúmmíkennda hátt! 

Grillaðar sinnepsgljáðar grísalundir með piparrjómasósu og haloumi og kúrbítssalati

Hráefnalisti

1 kg grísalundir
2 msk jómfrúarolía
2-3 msk Grey Poupon sinnep
Salt og pipar

Meðlæti - Haloumi salat

1 kúrbítur
Haloumi ostur
Salt og pipar
Jómfrúarolía
Laufsalat
Fersk mynta
Sítrónusafi

Hvít sósa

100 ml af rjóma
2 msk græn piparkorn
150 gr piparrjómaostur

Salt og pipar

Fyrst var að pensla grísalundirnar með jómfrúarolíu, salta og pipra og smyrja grófu Grey Poupon sinnepi í ríkulegu magni á lundirnar. Látið standa í 30 mínútur í kæli!


Haloumi salatið var líka einfalt. Lagði beð af grænum laufum sem vaxa í kálgarðinum mínum á disk. Skárum ostinn og kúrbítinn í sneiðar og pensluðum með olíu. Salt og pipar. Og svo grillað. 

Raðað á diskinn. Góðri jómfrúarolíu dreift yfir. Fersk mynta og svo safi úr hálfi sítrónu. Dásamlegt. 





Lundirnar voru grillaðar upp í tæplega 70 gráðu kjarnhita. Það þarf ekkert lengur að stressa sig á svínakjöti. Sýkt svínakjöt hefur ekki verið vandamál í áratugi. 



Kjötið fékk að standa í 10-15 mínútur áður en það var skorið í sneiðar. 

Og á meðan gerði ég sósuna. Setti 100 ml af rjóma í pott ásamt 2 msk af grænum piparkornum og svo 150 gr af piparrjómaosti. Hitað og osturinn bræddur. Saltað og piprað eftir smekk. 



Með matnum nutum við Beringer Stone Cellars Cabernet Sauvignion frá árinu 2011. Þetta er vín frá Kaliforníu og er kraftmikið og ljúffengt vín með ágætri fyllingu og ríkulegu berjabragði. Þurrt rauðvín sem fór vel með svínalundunum.




Þetta var einstaklega ljúffeng máltíð. 

Tími til að njóta! 

Tuesday, 2 July 2013

Ljómandi grillaður lax með aspas og kirsuberjatómötum með kavíarsósu


Yngsta dóttir mín vex og dafnar. Hún er 10 mánaða nú um þessar mundir og er byrjuð að standa upp og ganga aðeins með. Hún hefur mikla matarlyst og er dugleg að borða þann mat sem er útbúinn handa henni. Og hún er líka dugleg að prófa allan nýjan mat og hafnar engu. Það er sérstaklega gaman að hlusta á hana stynja af ánægðu þegar hún er mötuð - langt "naaaammmmm" fylgir gjarnan þegar hún er ánægð og sátt við það sem í boði er. Hún er meira að segja farin að vilja vera með í eldhúsinu. Alltént var hún dugleg að ýta grindinni áleiðis inn í uppþvottavélina. Og skemmti sér stórvel. Hversu mikil hjálp hún var í eldhúsinu læt ég ósagt ... ef ske kynni að hún lesi þetta einhvern tíma. 

Þetta er einstaklega góður og sumarlegur matur. Grillaður lax með ferskum aspas og nýjum og sætum kirsuberjatómötum. Sósan sem fylgir smakkaði ég í fyrsta sinn hjá nágrönnum mínum, Jónasi og Hrund. Jónas sagði að ég yrði að geta heimilda um þessa sósu en uppskriftina af henni hafði hann fengið hjá eiginkonu annars kollega þegar hann var að vinna í Svenjunga í afleysingum vikunni áður. 

Þessi sósa er ansi ljúffeng. Kavíarinn gefur skemmtilega seltu og sjávarkennt bragð þegar hrognin eru sprengd. Best væri að nota ekta laxahrogn þar sem þau eru stærri en þau eru líka heldur dýr til að hafa með mánudagsfisknum þannig að ég lét mér nægja að kaupa kavíar frá Lysekil sem eru gerð úr "lumpfish" sem á íslensku heitir hrognkelsi. Og er líka ljúffengt.

Ljómandi grillaður lax með aspas og kirsuberjatómötum með kavíarsósu

Og þetta er einfaldur matur og krafðist nær engrar fyrirhafnar. Meira bara uppröðun. En litirnir eru fallegir og maturinn bragðgóður eftir því. 


Við erum bara tvö fullorðin í húsinu um þessar mundir þannig að skammtarnir voru hóflegir. 600 gramma laxaflak var penslað með jómfrúarolíu, saltað og piprað og lagt í ofnskúffu. Safa úr hálfri sítrónu hellt yfir.


Svo var 250 gr af kirsuberjatómötum, "on the vine", raðað í kring og fimmtán aspasspjót. tvær til þrjár msk af jómfrúarolíu var hellt yfir grænmetið og það líka saltað og piprað.

Grillið var blússhitað og bakað á beinum hita í 12-15 mínútur. Þegar fimm mínútur voru eftir var 75 ml af hvítvíni hellt yfir grænmetið og soðið upp.


Sósan var afar einföld. Fjórum matskeiðum af sýrðum rjóma var hrært saman við eina kúfaða teskeið af svörtum kavíar og jafnmikið af rauðum. Einni matskeið af dilli var bætt saman við, safa af hálfri sítrónu og svo smakkað til með salti og pipar.


Ljúffengt og einfalt.


Laxinn var ljúffengur og tómatarnir sætir og góðir. Og aspasinn - mjúkur í gegn og bragðið dásamlegt.



Með matnum fengum við okkur ljómandi hvítvín sem hefur lengi verið í uppáhaldi og ég hef nefnt á blogginu nokkrum sinnum áður - en það er langt síðan síðast. Þetta er hvítvín frá Chile - árgangur 2010 og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ávöxtum, þétt og kraftmikið vín og frískandi á tungu.



Einföld, holl og ljúffeng mánudagsveisla. Vinnuvikan getur eiginlega ekki verið annað en góð þegar maður hefur hana með þessum hætti. 

Tími til að njóta!