Ég fékk eins og margir aðrir bloggarar sendingu frá Saltverki sem er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir sjávarsalt með því að nota jarðhita. Ég sá þetta í verslun þegar við vorum í heimsókn á Íslandi síðastliðið haust og greip með mér einn pakka. Og þetta er ljómandi gott salt - skarpt bragð. Nú fékk ég sendingu af nýjustu vörunum þeirra; blóðbergs-, reykt birki-, lava og lakkríssalt. Í þetta skipti ákvað ég að prófa blóðbergsaltið ásamt Best á lambið og þurrkuðu blóðbergi á íslenska lambalærið sem ég fann í frystinum.
Og ég ætla að hvetja fólk að prófa saltið frá þeim - Saltverk er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem er staðsett á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins mun saltgerð hafa verið stunduð á þessu svæðu 1772-1802 á vegum dönsku konungsverslunarinnar. Eftir að verksmiðjan hafði verið sett upp með aðstoð saltgerðarmanna frá Noregi mun framleiðslan hafa verið 80 tonn á ári og var að mestu notað í saltfisksverkun sem var, jú, ein helsta útflutningsvara okkar. Þessi framleiðsla hefur nú verið endurvakin eftir rúmlega tvöhundruð ára stopp!
Maður getur ekki annað en stutt við bakið á svona framleiðslu, sérstaklega þegar hún er eins góð og raun ber vitni. Ég á sannarlega eftir að kippa með mér nokkrum pökkum þegar ég kem heim.
Blóðbergskryddað lambalæri með jus d'agneau og gómsætu blómkálsgratíni
Eins og fram hefur komið átti ég lambalærið í frystinum. Ég blandaði saman blóðbergi, blóðbergssalti frá Saltverki og svo Best á lambið-kryddblöndunni og svo nóg af nýmöluðum pipar. Skar niður tvær gulrætur, tvær sellerístangir, einn lauk og lagði í botninn á ofnskúffu.
Því næst nuddaði ég lambið upp úr jómfrúarolíu, síðan kryddblöndunni og lagði ofan á grænmetið. Skar heilan hvítlauk þvert og lagði með.
Setti út á forhitað grill - 200 gráður - og bakaði við óbeinan hita þangað til að kjarnhiti varð 58 gráður, eða í tvær klukkustundir eða svo.
Með matnum bárum við fram blómkálsgratín. Penslaði fat með jómfrúarolíu, nuddaði hvítlauk í fatið. Skar síðan niður einn haus af blómkáli og raðaði í fatið. Hellti svo 400 ml af rjóma yfir. Sáldraði svo tveimur hvítlauksrifjum ofan á, saltaði og pipraði og lagði að lokum 150 gr af niðursneiddum brieosti yfir. Bakað við 180 gráður í þrú korter.
Gullfallegt gratín í nýja Le Creuset fatinu mínu!
Þegar þrjú korter voru liðin af bökunartímanum hellti ég 600 ml af vatni í ofnskúffuna sem lagði grunninn að sósunni. Þetta soð varð ansi bragðgott. Þegar að lambið fékk að hvíla gerði ég smjörbollu úr 30 gr af smjöri og 30 gr af hveiti.
Gerðum einnig salat með blönduðu grænmeti og avócadó.
Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spánska vín, Pata Negra frá 2005 sem er gert úr Tempranillo þrúgum Þetta er vín er dökkt og heldur þykkt í glasi, ilmar af sólberjum og jafnvel smá leðri. Á bragðið dökk ber - fyllir munninn ágætlega með góðu eftirbragði.
Tími til að njóta.
No comments:
Post a Comment