Monday, 6 May 2013

Indverskt fiskikarrí með grilluðu naanbrauði og hrísgrjónum




Ég fann íslenskar steinbítssteikur í frystinum hjá mér sem ég hafði keypt þegar við vorum síðast á Íslandi. Þær höfðu grafist eitthvað undir öðru gúmmelaði. Steinbítur er náttúrulega einn ljótasti fiskur sem um getur og er þó samkeppnin í ljótfiskakeppninni ansi hörð. En steinbítur er góður fiskur, alltént að mínu mati. En það eru ekki allir sammála um gæði steinbítsins! 


Ég hef vitnað í þá afbragðs skemmtilegu bók - Fiskiveisa fiskhatarans - eftir Gunnar Helga Kristinsson nokkrum sinnum þegar ég hef verið að elda þennan fisk en hann segir "Steinbítur er frekar bragðmikill fiskur, ljótur og stundum dálítið vatns- eða gúmmíkenndur. Hann er á köflum hreint og klárt óætur. Ýmsir telja að hann henti fyrst og fremst til suðu. Hann er samt ekki góður soðinn. Eina matreiðslan sem hentar steinbít er grill og þá aðeins að með honum séu ansi sterf bragðefni, en vert er að hafa í huga að hann er mismunandi vondur eftir árstíðum". Svo mörg voru þau orð. 


Ég hafði fyrr um daginn verið að lesa mér til um karríuppskriftir á netinu og rataði þá á eina uppskrift sem mér leist vel á. Ég hripaði niður nokkur atriði sem mér leist vel á og bætti öðru við. Svona er það með uppskriftir - það þarf ekki mikið að breyta og bæta til að geta kallað uppskriftina sína! Eða hvað?


Indverskt fiskikarrí með grilluðu naanbrauði og hrísgrjónum


Hráefnalisti


1 kg steinbítur
2 stjörnuanísar
2 tsk broddkúmen
1/2 tsk negulnaglar
2 tsk  kóríanderfræ
1/2 tsk þurrkuð chilli
1 tsk túrmerik

1 msk sykur
1 tsk salt 

5 hvítlauksgeirar
5 cm engifer
1 1/2 msk hvítvínsedik
2 laukar
2 stórir tómatar
1 dós kókósmjólk
100 ml  vatn
1 grænmetisteningur
Salt og pipar
1 rauður chilli


Naan brauð

400 gr hveiti
1 tsk salt
1 tsk lyftiduft
1/3 tsk matarsódi
1 jógúrtdós
Vatn
3-4 msk hvítlauksolía
Salt og pipar



Fyrsta verk er að undirbúa masalapastið. 



Ég byrjaði á því að taka til tvo stjörnuanísa, tvær tsk broddkúmen, hálfa tsk negulnagna, tvær tsk af kóríanderfræjum, hálfa tsk af þurrkuðum chilli og ein tsk af túrmeriki. 




Og ristaði síðan á pönnu. Ilmurinn í eldhúsinu verður dásamlegur. Setti svo kryddin í mortél ásamt einni matskeið af sykri, einni teskeið salt og barði saman. 




Næst setti ég fimm hvítlauksgeira og fimm cm af hökkuðum engifer og eina og hálfa matskeið hvítvínsediki og blandaði vel saman.


Skar niður tvo hvíta lauka og steikti laukinn í jómfrúarolíu í nokkrar mínútur og bætti síðan masalapastinu saman við. 




Þvoði tvo stóra tómata og hakkaði í matvinnsluvél og bætt saman við sósuna. Ásamt einni dós af kókósmjólk, 100 ml af vatni og einum grænmetisteningi.  Saltað og piprað. Bætti við einum rauðum chilli, sem ég hafði opnað og kjarnhreinsað og sauð með. Sauð sósuna í 30 mínútur áður en ég setti fiskinn útí. 




Á meðan sósan sauð var skellt í brauðið. Það er einfalt að baka svona naanbrauð. Ég hef áður bloggað um þetta naanbrauð sem ég kalla "akút naan" brauð vegna þess hversu fljótlegt það er!  400 gr af hveiti hellt í skál, ein tsk af salti, ein tsk lyftiduft, einn þriðji tsk matarsódi, ein jógúrtdós og svo smávegis vatn til að binda þetta í silkimjúkan klump.


Svo var klipið af deiginu og það flatt út í litla klatta, penslað með hvítlauksolíu og saltað með Maldon salti og svo þurrgrillað á heitu "griddle" (stór grillpanna) þar til tilbúið.

Sett á disk.



Steinbítssteikunum var síðan bætt ofan í pottinn og látnar sjóða með í tíu mínútur þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 





Við fengum okkur þetta vín með matnum - sem er núna í nýjum búningi. Peter Lehmann Chardonnay er vín sem við höfum smakkað áður og er ljúffengt. Vínin frá Peter Lehmann eru alltaf góð kaup. Peter Lehmann Chardonnay 2010 er ljómandi gott. Þetta er klassískt Chardonnay - ilmar af ávöxtum, sömuleiðis ávextir á tungu, smjörkennt og eikað. Stendur alltaf fyrir sínu!




Borið fram með hrísgrjónum.

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment