Thursday, 25 April 2013

Grill, grill, grill: Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissalati og chilli-sýrðrjómasósu


Það var ljúft að koma heim eftir viku erlendis. Eins og það er gaman að fara í ferðalög þá er alltaf best að koma heim. Eins og hefur komið fram á facebook síðunni minn þá hef ég verið á ferðalagi til Argentínu þar sem ég var að kynna niðurstöður faraldsfræðirannsókna sem ég hef verið að vinna að síðastliðin misseri. Argentínumenn eru miklir grillmeistarar og þjóðarréttur þeirra kallast Asados - sem þýðir í raun bara, grillað. Og það er hægt að fá grillaðan mat bókstaflega út um allt. 

Við dvöldum í Buenos Aires sem er feiknarstór borg. Það var ekki auðvelt að komast þangað. Fyrst flugferð til London þar sem við rétt misstum af fluginu til Suður-Ameríku vegna seinkunar í Kaupmannahöfn. Við fengum því dag í London - nokkrir kollegar saman - og röltum um miðbæinn. Um kvöldið fengum við svo pláss í flugi til Buenos Aires sem tók rúman hálfan sólarhring. Og maður er pínulítið eftir sig eftir svona flugferð. Það er þó auðveldara, fannst mér að fljúga fram í tímann en tilbaka til Lundar. Við komum heim í gær - og það verður að viðurkennast að maður er ári ringlaður í kollinum á eftir.

Alltént hefur hugur minn verið hjá grillinu síðustu daga. Ég hafði aðeins verið að fylgjast með veðurspánni í Lundi á meðan ég var í Argentínu og var alveg með það á hreinu að ég skildi grilla þegar heim var komið eftir veturlangt hlé. Dagurinn í dag byrjaði vel með heiðskírum himni en þó að það hafi þykknað upp seinnipartinn var ennþá hugur í mér þegar heim var komið. Ég vildi þó elda eitthvað léttara en Argentínumenn höfðu haft upp á að bjóða, sem eru næstum stærstu neytendur nautakjöts sem um getur, og því varð þessi réttur fyrir valinu.

Grill, grill, grill: Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissalati og chilli-sýrðrjómasósu

Ég fór að versla í dag að lokinni vinnu og keypti heilmikið af grænmeti; kúrbít, eggaldin, marglitaðar papríkur, sveppi, rauðlauk og butternut grasker. 


Ég smurði síðan heimagerðri hvítlauksolíu yfir grænmetið sem ég hafði skorið heldur gróft niður og þrætt upp á vatnsbleytt tréspjót. 


Kjúklinginn hlutaði ég svo niður, sparaði beingrindina í soð, og skar niður í munnbitastóra bita og setti í marineringu. 

Marineringin var einföld; kjöt af heilum kjúkling (ég var með maískjúkling), 100 ml soyasósa, 50 ml af sætri chilli sósu, hálfur niðurskorinn rauður chillipipar, 30 ml af hvítlauksolíu, salt, pipar og nokkur fersk myntulauf. Fékk af marinerast í klukkustund í ísskáp (lengri tími hefði ekki sakað). 


Þræddi síðan kjúklinginn upp á spjót og grillaði við háan hita í 20 mínútur þangað til hann var eldaður. 


Grænmetið þarf nokkur veginn sama eldunartíma. Lykilatriði er að pensla það ríkulega með hvítlauksolíu og snúa reglulega til að verja það eldinum.


Græmetinu var svo tyllt á beð af blönduðum grænum laufum.


Grænmetið fær á sig fallegan lit. Fallegt grænmeti er girnilegt!


Skreytti kjúklingaspjótin með smá fersku kóríander. 


Bar síðan hrísgrjón með matnum og svo einföldustu grillsósu allra tíma. 100 ml af sýrðum rjóma blandað saman við 30-40 ml af sætri chillisósu.


Rétturinn heppnaðist stórvel og það var gott jafnvægi í honum.

Ég sá þessa búkollu á Kastrup - og kippti henni með;  Trivento Chardonnay/Chenin. Viðeigandi fannst mér það sem það á rætur að rekja til Argentínu. Ég hef drukkið og bloggað um þetta vín áður. Og það sveik ekki frekar en fyrri daginn. Fallega gult í glasi, ilmar af léttum ávexti með svipað ferskt bragð á tungunni.


Bon appetit!


No comments:

Post a Comment