Thursday, 25 April 2013

Grill, grill, grill: Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissalati og chilli-sýrðrjómasósu


Það var ljúft að koma heim eftir viku erlendis. Eins og það er gaman að fara í ferðalög þá er alltaf best að koma heim. Eins og hefur komið fram á facebook síðunni minn þá hef ég verið á ferðalagi til Argentínu þar sem ég var að kynna niðurstöður faraldsfræðirannsókna sem ég hef verið að vinna að síðastliðin misseri. Argentínumenn eru miklir grillmeistarar og þjóðarréttur þeirra kallast Asados - sem þýðir í raun bara, grillað. Og það er hægt að fá grillaðan mat bókstaflega út um allt. 

Við dvöldum í Buenos Aires sem er feiknarstór borg. Það var ekki auðvelt að komast þangað. Fyrst flugferð til London þar sem við rétt misstum af fluginu til Suður-Ameríku vegna seinkunar í Kaupmannahöfn. Við fengum því dag í London - nokkrir kollegar saman - og röltum um miðbæinn. Um kvöldið fengum við svo pláss í flugi til Buenos Aires sem tók rúman hálfan sólarhring. Og maður er pínulítið eftir sig eftir svona flugferð. Það er þó auðveldara, fannst mér að fljúga fram í tímann en tilbaka til Lundar. Við komum heim í gær - og það verður að viðurkennast að maður er ári ringlaður í kollinum á eftir.

Alltént hefur hugur minn verið hjá grillinu síðustu daga. Ég hafði aðeins verið að fylgjast með veðurspánni í Lundi á meðan ég var í Argentínu og var alveg með það á hreinu að ég skildi grilla þegar heim var komið eftir veturlangt hlé. Dagurinn í dag byrjaði vel með heiðskírum himni en þó að það hafi þykknað upp seinnipartinn var ennþá hugur í mér þegar heim var komið. Ég vildi þó elda eitthvað léttara en Argentínumenn höfðu haft upp á að bjóða, sem eru næstum stærstu neytendur nautakjöts sem um getur, og því varð þessi réttur fyrir valinu.

Grill, grill, grill: Marineruð kjúklingaspjót með grilluðu grænmetissalati og chilli-sýrðrjómasósu

Ég fór að versla í dag að lokinni vinnu og keypti heilmikið af grænmeti; kúrbít, eggaldin, marglitaðar papríkur, sveppi, rauðlauk og butternut grasker. 


Ég smurði síðan heimagerðri hvítlauksolíu yfir grænmetið sem ég hafði skorið heldur gróft niður og þrætt upp á vatnsbleytt tréspjót. 


Kjúklinginn hlutaði ég svo niður, sparaði beingrindina í soð, og skar niður í munnbitastóra bita og setti í marineringu. 

Marineringin var einföld; kjöt af heilum kjúkling (ég var með maískjúkling), 100 ml soyasósa, 50 ml af sætri chilli sósu, hálfur niðurskorinn rauður chillipipar, 30 ml af hvítlauksolíu, salt, pipar og nokkur fersk myntulauf. Fékk af marinerast í klukkustund í ísskáp (lengri tími hefði ekki sakað). 


Þræddi síðan kjúklinginn upp á spjót og grillaði við háan hita í 20 mínútur þangað til hann var eldaður. 


Grænmetið þarf nokkur veginn sama eldunartíma. Lykilatriði er að pensla það ríkulega með hvítlauksolíu og snúa reglulega til að verja það eldinum.


Græmetinu var svo tyllt á beð af blönduðum grænum laufum.


Grænmetið fær á sig fallegan lit. Fallegt grænmeti er girnilegt!


Skreytti kjúklingaspjótin með smá fersku kóríander. 


Bar síðan hrísgrjón með matnum og svo einföldustu grillsósu allra tíma. 100 ml af sýrðum rjóma blandað saman við 30-40 ml af sætri chillisósu.


Rétturinn heppnaðist stórvel og það var gott jafnvægi í honum.

Ég sá þessa búkollu á Kastrup - og kippti henni með;  Trivento Chardonnay/Chenin. Viðeigandi fannst mér það sem það á rætur að rekja til Argentínu. Ég hef drukkið og bloggað um þetta vín áður. Og það sveik ekki frekar en fyrri daginn. Fallega gult í glasi, ilmar af léttum ávexti með svipað ferskt bragð á tungunni.


Bon appetit!


Sunday, 7 April 2013

Seðjandi Chilli con carne með nachos, sýrðum rjóma og fersku kóríander - revisited


Við fengum góða gesti um páskahelgina. Tengdafaðir minn, Eddi, kom í heimsókn. Hann hafði gefið Petru, barnabarni sínu, heimsókn til okkar í Lundi í fermingargjöf. Petra og Valdís dóttir mín hafa síðan þær voru litlar verið miklar vinkonur. Þau stöldruðu hjá okkur í vikutíma og þær skemmtu sér afar vel saman. Þær voru sérstaklega liprar við að hjálpa til í eldhúsinu sem og hjálpa til við að sjá um örverpið á heimilinu, Ragnhildi Láru. 

Þær prófuðu að baka muffins, eitt ljúffengt fléttubrauð sem var alveg með eindæmum gott og svo voru þær mér innan handar við að gera þetta Chilli con carne, sem Vilhjálmur sonur minn, óskaði sérstaklega eftir þegar við vorum á leiðinni úr sundferð í Eslöv á annan í páskum. Það varð því úr að við unnum að þessu verkefni öll saman - ég og börnin. Og heppnaðist svona ferlega vel!



Seðjandi Chilli con carne með nachos, sýrðum rjóma og fersku kóríander - revisited

Hráefnalisti

2 hvítir laukar
6 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
2 sellerístangir
2 gulrætur
1 rauður chilli
1,2 kg nautahakk
2 kanilstangir
1/2 rauðvínsflaska
2 tsk mulið koríander
2 tsk mulið broddkúmen
2 msk nautakraftur
2 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk tómatpaste
2 tsk Worchestershire sósa



Það fengu allir verkefni, ég þurfti ekki að gera mikið sjálfur annað en rétt verkstýra þessum duglegu krökkum.


Fyrst voru tveir hvítir laukar og sex hvítlauksrif skorin smátt niður og steikt í jómfrúarolíu í stórum potti. Þegar laukurinn var orðinn gljáandi var tveimur smátt skornum sellerístönglum og tveimur smátt skornum gulrótum bætt saman við og steikt í smástund.


Bætti síðan við heilum rauðum chilli - sem ég hafði þó kjarnhreinsað.


Næst var að setja nautahakkið saman við. Ætli ég hafi ekki verið með 1200 gr af hakki fyrir þessa uppskrift. 


Bætti síðan við tveimur kanelstöngum og lét sjóða með allan eldunartímann. 


Svo tvær teskeiðar af muldu koríander og svo tvær af muldu broddkúmeni. Hrært vel saman.



Svo settum við hálfa rauðvínsflösku saman við og suðum upp. 

Því næst er tveimur matskeiðum af góðum nautakrafti bætt saman við og svo tveimur dósum af niðursoðnum, hökkuðum tómötum og fjórum matskeiðum af tómatpaste og síðast en ekki síst tveimur teskeiðar af Worchestershire sósu.

Suðunni er leyft að koma upp aftur og soðið við lágan hita með lokið á í 1eina til tværklukkustundir. Þegar um tíu til fimmtán mínútur eru eftir af eldunartímanum er bætt við tveimur dósum af rauðum nýrnabaunum - vökvanum hellt frá - bætt saman við. Saltað og piprað eftir smekk.


Borið fram skreytt með sýrðum rjóma og fersku kóríander á beði af nachosflögum - og um að gera að hafa auka kóríander svo að fólk geti bætt við. Einnig var ég með limebáta þannig að hægt var að kreista ferskan limesafa yfir chilliið.

Með matnum drukkum við smá rósavín. Þetta var létt og gott vín, ískalt úr ísskápnum. Gert úr grenache þrúgum þar sem hýðið fær að liggja á safanum í sólarhring til að gefa víninu sinn rósableika lit. Ávaxtaríkt og frískandi.


Ég borðaði algerlega yfir mig og var saddur langt fram á næsta dag. Og Villi sem hafði lagt fram óskina um þennan rétt - gaf honum "two thumbs up"!

Bon appetit! 

Monday, 1 April 2013

Holl hleypt egg - ný aðferð - á heitri bollu með plómutómat, osti og skinku

Ég er geysilega hrifinn af eggjum. Ég veit vart betra hráefni en egg. Soðin, steikt, hrærð, bökuð og hleypt og allt þar á milli. Fjölbreytileikinn er óendanlegur. Ég hef margoft síðustu ár gert hleypt egg og oftast nær heppnast vel. Að gera hleypt egg er fólgið í að setja hrátt egg í létt sjóðandi vatn - án skurnar að sjálfsögðu. Eggið á til að losna upp og ráðleggja kokkabækur að bæta salti og ediki í vatnið til að eggjahvítan haldist betur saman. Einnig að þeyta hringiðu í vatnið til þess að eggið snúist upp í sig. Heston Blumenthal vill að maður lækki hitann og setji bara undirskál í botninn til að verja það hitanum. Allar aðferðirnar virka svosum þokkalega. Svo sá ég þessa aðferð - pottþétt!

Ég sá þetta hjá Ástu og Pétri sem eru matarbloggarar og eru með heimasíðuna Matur og með því. Mér fannst þetta svo fyrirtaks góð hugmynd að ég bara varð að prófa og miðla svo hugmyndinni. Ég get ekki betur séð en þetta hafi heppnast ágætlega, þó kannski vanti eitthvað upp á fagurfræðina í samanburði við þau hjónin!

Holl hleypt egg - ný aðferð - á heitri bollu með plómutómat, osti og skinku

2 egg
Plastfilma
Olía/brætt smjör
Salt og pipar
Brauð
Tómatur
Ostur
Skinka

Mjög sniðugt! Aðferðin byggir á því að elda eggin í plastfilmu sem tryggir að halda þeim saman þannig að þau leysast ekki upp.


Eina sem þarf er venjuleg plastfilma - hún á ekki eftir að bráðna - til að umlykja eggið.



Setjið plastfilmuna í bollann, penslið með smá olíu eða bræddusmjöri. Brjótið svo eggið ofan í bollann. Saltið og piprið eftir smekk. 



Lokið svo plastfilmunni með þræði.


Hitið vatn í potti - 80-90 gráður. Tyllið egginu úti og sjóðið  í fjórar til fimm mínútur eftir stærð eggsins. 


Veiðið svo eggin upp úr vatninu, klippið plastfilmuna af og berið fram eins og hugurinn girnist.


Ég hitaði brauðbollu í ofni, smurði síðan með dijionaise, þá skinkusneið, nokkrar sneiðar af osti, þykkar sneiðar af plómutómat og svo auðvitað hleypt egg!

Ljúffengt! Takk fyrir mig Pétur og Ásta.

Bon appetit!