Wednesday, 6 March 2013

Villi gerir fantagóða fiskisúpu og gómsæta baguettu

Það gleður mig alltaf óskaplega mikið þegar börnin mín vilja vera með mér í eldhúsinu. Frumburðurinn minn hún Valdís Eik hefur haslað sér völl við baksturinn og þá sérstaklega í kökubakstri og finnst það sérlega skemmtilegt. Vilhjálmur Bjarki sonur minn hefur komið sterkur inn í alla salatgerð og finnst mjög gaman að skera niður grænmeti í salat. Nú langaði hann að reyna sig við eitthvað stærra verkefni þó hann sé ungur að aldri. Honum finnst sérstaklega gaman að fá að nota hnífinn sinn og það fær hann auðvitað bara að gera undir eftirliti. Það var sko nóg hráefni sem þurfti að hluta niður í þessa ljúffengu súpu.

Svona fiskisúpur eru gráupplagðar til að þess að hreinsa aðeins til í frystikistunni. Ég hafði rótað í gegnum fiskiskúffuna mína og þar kenndi ýmissa grasa - fann tvö lítil flök af sólkola, rækjur og svo smáræði að mildum reyktum lax. Svo notuðum við líka heilmikið af grænmeti í súpuna.

Við gerðum líka brauðhleif með súpunni og notuðum aðferð sem Jón Þorkell vinur minn og kollegi kenndi mér. Brauðið er gert á hefðbundinn hátt nema það er sett inn í blússheitan ofninn og í botninn á ofninum er sett skúffa sem fær líka að sjóðhitna - og í hana eru settir ísmolar sem að sjálfsögðu bráðna og verða að gufu. Þetta stuðlar að því að maður fær góða og stökka skorpu og mjúkan og góðan brauðhleif.

Villi gerir fantagóða fiskisúpu og gómsæta baguettu



Fyrst skera niður 150 gr af beikoni í smá bita.




Það er erfiðara en maður heldur með tenntum hníf - en það eru aldurstakmörk á beittari hnífa.



Á meðan beikonið fékk að steikjast í rólegheitum við lágan hita var haldið áfram að hlúa að grænmetinu.




Einn hvítur laukur, tvö til þrjú hvítlauksrif, einn púrrulaukur, tvær sellerísstangir, þrjár gulrætur skornar í þunnar sneiðar og steiktar í beikonfitunni. Saltað og piprað.
Næst var að setja útí tvær dósir af niðursoðnum tómötum og svo álíka mikið af vatni. Kannski lítra. Þá tveir fiskiteningar. Saltað og piprað. Setti einnig tvær matskeiðar af tómatpúre og tvær til þrjár msk af tómatsósu til að fá aðeins upp sætuna.





Þá var að undirbúa fiskinn. Fyrst var að skera niður 200 gr af kaldreyktum lax, 200 gr af rækjum og svo 200 gr af hvítum fiski, að þessu sinni sólkola. Fiskurinn var settur útí fimm mínútum áður en maturinn var settur á borðið.




Rækjurnar voru settar bara mínútu áður en súpupotturinn var fluttur á matarborðið.



Þetta reyndist vera ansi kraftmikil og þykk súpa. Svona á mörkunum að vera kássa. Svona sússa, kannski? Sússa hljómar allaveganna betur en kápa, eða hvað?



Skreytt með steinselju laufi, svona fyrir almenna estetík!


Þessi brauðuppskrift er sérstaklega einföld. Og þetta er eiginlega sú sama og ég hef verið að blogga um seinustu árin - kannski aðeins stærri, en hlutföllin ættu að vera kunnugleg. Fyrst vekur maður 25 gr af geri í 600 ml af ylvolgu vatni. Bætið 30 gr af sykri eða hunangi til að vekja gerið úr draumi sínum. 

Setjið eitt kíló af hveiti í skál, bætið úrí 25 gr af salti og tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu. Þegar gerið er farið að freyða er vökvanum bætt saman við og deigið hnoðað. Látið hefast þangað til að það hefur tvöfaldast, helst þrefaldast. 

Þá er deigið lamið niður og formað í brauðhleifa, að þessu sinni baguettur en allt er mögulegt. Bakað í blússheitum ofni, forhituðum. Setjið skúffu í botninn á ofninum og látið hitna. Setjið nokkra ísmola í skúffuna til að búa til gufu sem hjálpar brauðinu að verða stökkt að utan og fá fram fallega brúnan lit.


Með matnum smökkuðum við á þessu hvítvíni. Þetta er franskur ljúfflingur frá Chablis héraði. Bara nafnið á flöskunni færir mig til snemmhaustsins 2009 þegar við vorum á ferðinni í Chablis - good times! Chablis hvítvín eru nær alltaf gerð úr Chardonnay þrúgunni. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Bar það fram kalt, á bragðið ögn sítróna og epli og ágætt eftirbragð. 

Bon appetit!

3 comments:

  1. Fiskisúpan er spennandi en hún kemur inn í stað geggjakökunnar,

    ReplyDelete
    Replies
    1. Kæra Nanna - Þakka ábendinguna. Þetta hefur núna verið lagað!
      mbk, Ragnar

      Delete